Fyrir mér er ólafssúran úrvals göngusnakk sem gripið er upp af götunni sér til hressingar og gefur bæði orku og C-vítamín. Þannig fara þær vel í maga einar og sér. Þær hafa oft bjargað mér í erfiðum brekkum þegar mér fannst ég vera að dragast aftur úr. Þá gátu nokkur súrublöð gert kraftaverk, bæði hresst og endurnært. Það er því ekki síst á ferðalögum sem súrurnar eru spennandi ef ferskur matur er ekki við höndina. Í byggð er meira um hundasúrur. Það er hægt að hafa þær til að krydda salöt, þar sem súrbragð á vel við. Þær má nota, hóflega þó, með nánast hverju sem er, jafnvel í kjötsúpur og það er óplægður akur að prófa sig áfram með súrur út í hina og þessa rétti, þar sem sítrónur eru notaðar að öllu jöfnu. Það má hafa súrur í hafragraut, 2–3 söxuð súrublöð á mann og fer vel. Í hafragraut má líka nota niðurskorin fjallagrös eða klippt söl. Súrufræ má hafa í brauð. Nafn kornsúrunnar ber þess vitni og korn hennar var notað en varla hefur það verið nema rétt til drýginda.

Súrusúpa
Hún er búin til líkt og verið væri að elda súpu úr rabarbara. Súrurnar eru þvegnar og soðnar í mauk með kanelstöng. Það þarf ekki að hreinsa burt stönglana ef súpan er síuð. Sett upp aftur með hæfilegum sykri og jöfnuð með ögn af maisena- eða kartöflumjöli. Eldri uppskriftir vilja nota svolítinn rauðan matarlit en sterkrauð sulta eða saft væri hollari. Svo má hafa rjóma með og kaffirjómi er afbragð á ferðalögum. Eggert vill hafa njólablöð með í súrusúpunni. Kanell slær á áhrif sykurs samkvæmt gamalli indverskri speki.

Úr Ætigarðinum - handbók grasnytjungsins, eftir Hildi Hákonardóttur. Grafík: Hildur Hákonardóttir.

Birt:
3. maí 2014
Tilvitnun:
Hildur Hákonardóttir „Súra“, Náttúran.is: 3. maí 2014 URL: http://nature.is/d/2007/11/06/sra/ [Skoðað:21. desember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 6. nóvember 2007
breytt: 3. maí 2014

Skilaboð: