Sjálfbær þróun
Í skýrslu Brundtlandnefndarinnar, sem birtist árið 1987 í bókinni Sameiginleg framtíð vor (Our Common Future) var sjálfbær þróun skilgreind á eftirfarandi hátt:
„Sjálfbær þróun er þróun sem gerir okkur kleift að mæta þörfum okkar, án þess að stefna í voða möguleikum komandi kynslóða á að mæta þörfum sínum.“
Hugtakið Sjálfbær þróun er með öðrum orðum nýlegt. Engu að síður er hugsunin aldagömul. Hún birtist m.a. í hugmyndafræði þjóðflokka, sem nú eru gjarnan kallaðir „frumstæðir“. Sagt er að indíánahöfðinginn Chief Seattle hafi látið eftirfarandi orð falla í frægri ræðu sem hann hélt í New York 1854:
„Við fengum Jörðina ekki í arf frá forfeðrum okkar. Við höfum hana að láni frá börnunum okkar.“
Þessi setning skýrir líklega betur en flestar aðrar hvað felst í hugtakinu Sjálfbær þróun. Reyndar segja aðrar heimildir að þessi orð séu sótt í málshátt frá Kenýa. Alla vega er ljóst að þessir „frumstæðu“ þjóðflokkar, hvoru megin Atlantsála sem þeir bjuggu, voru vel meðvitaðir um nauðsyn þess að ganga ekki um of á gæði Jarðar.
Reyndar þarf ekki að leita út fyrir landsteinana til að finna setningar sem bera með sér hugmyndina um sjálfbæra þróun, án þess að þau orð séu notuð. Þannig skrifaði Þorvaldur Thoroddssen eftirfarandi klausu eftir ferð sína um Múlasýslur árið 1894:
„Því miður eimir eftir sums staðar af hinum gamla húsgangshætti, að hugsa eingöngu um stundarhaginn, nokkra aura í svipinn, en láta sér standa á sama, hvort gerður er stórskaði öldum og óbornum.“
(Úr Ferðabók Þ.Th. nr. IV, (2. útg. 1959, bls. 289-290))
Sjálfbær þróun er þýðing á ensku orðunum Sustainable Development, (Hållbar utveckling á sænsku, Bæredygtig udvikling á dönsku og Nachhaltige Entwicklung á þýsku). Sitt sýnist sjálfsagt hverjum um hversu til hafi tekist með þýðinguna, en mestu máli skiptir að fólk viti hvað hugtakið felur í sér.
Birt:
Tilvitnun:
Stefán Gíslason „Sjálfbær þróun“, Náttúran.is: 19. júní 2009 URL: http://nature.is/d/2010/06/30/sjalfbaer-throun/ [Skoðað:21. desember 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 30. júní 2010