Ísland verðlaunað fyrir að tryggja aðkomu kvenna að úrbótum í loftslagsmálum
„Ekki má eingöngu líta á konur sem þolendur loftslagsbreytinga, heldur sem mikilvæga gerendur við lausn vandans,“ sagði Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra í opnunarávarpi sem hún hélt fyrr í dag á málstofu sem haldin var á loftslagsráðstefnunni í Kaupmannahöfn, sem bar yfirskriftina „Konur sem afl til breytinga.“
Við þetta tilefni afhentu regnhlífarsamtök kvenna, „Women and Gender Constituency,“ stjórnvöldum á Íslandi og í Gana viðurkenningu fyrir að vera sterkir málsvarar jafnréttis kynjanna og jafnrar þátttöku kvenna og karla í aðgerðum gegn loftslagsbreytingum. Ísland hlaut viðurkenninguna sérstaklega fyrir að koma sterkum texta um jafnrétti kynjanna og virka þátttöku kvenna í öllum aðgerðum gegn loftslagsbreytingum inn í samningsdrögin sem liggja fyrir ráðstefnunni – en þetta mun vera í fyrsta sinn sem slíkur texti er hluti af mögulegri ályktun á loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna. Gana hlaut verðlaun fyrir aðgerðir heima fyrir.
Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra tók við verðlaununum fyrir Íslands hönd og fagnaði þeirri viðurkenningu sem í þeim felst. „Þegar maður stendur frammi fyrir stórum breytingum er mikilvægara en nokkru sinni fyrr að aðkoma kynjanna sé jöfn. Þess vegna er jafnrétti aldrei jafnmikilvægt og þegar við stöndum frammi fyrir þeirri vá sem við stöndum frammi fyrir í loftslagsmálum,“ sagði Svandís.
Í ávarpi sínu á fundinum gagnrýndi Svandís það hversu takmörkuð aðkoma kvenna hefði verið í umræðunni um lausn á loftslagsvandanum og hvatti ríki heims til tryggja þátttöku kvenna, svo baráttan gegn loftslagsbreytingum geti notið góðs af sjónarmiðum beggja kynja. Benti umhverfisráðherra á hve ólík áhrif loftslagsbreytinga hafi á kynin. Konur beri meginý unga loftslagsbreytinga, meðal annars þar sem þær skipi í meiri mæli hóp þeirra jarðarbúa sem verst standa að vígi í samfélaginu og minnst hafi á milli handanna. Verkaskipting kynjanna í fátækari ríkjum heims hefur til að mynda í för með sér félagslegt óréttlæti sem magnast við áhrif loftslagsbreytinga. Ýmis hefðbundin kvennastörf – að sinna heimilinu, safna eldivið, sækja drykkjarvatn og sinna ræktun – verða sífellt erfiðari eftir því sem loftslagsbreytingar aukast.
Umhverfisráðherra ítrekaði þá stefnu íslenskra stjórnvalda að líkt og á öðrum sviðum þjóðfélagsins þurfi sjónarmið beggja kynja að ná fram að ganga til að hægt sé að takast á við loftslagsvandann. Besta leiðin er sú að bæði kynin eigi sér málsvara á sem flestum stigum ákvarðanatökunnar, en sú hefur ekki verið reyndin í loftslagsmálum. Þar með ný tist hvorki þekking kvenna né staða þeirra sem lykilþátttakenda í samfélaginu. Til að mynda hefur verið bent á að aðeins tæpum fimmtungi sendinefnda í loftslagsviðræðum Sameinuðu þjóðanna hefur stýrt af konum. „Konur verða að eiga öruggt sæti við borðið – allt frá þátttakendum í Kaupmannahafnarráðstefnunni til þeirra sem hrinda aðgerðum í framkvæmd. Það er því afar mikilvægt að hið nýja loftslagssamkomulag sem höfum einsett okkur að komast að hér í Kaupmannahöfn taki tillit til beggja kynja,“ sagði Svandís Svavarsdóttir.
Málstofan var afar vel sótt, en auk Svandísar Svavarsdóttir sátu í pallborði Sherry Ayittey, umhverfisráðherra Gana; Jato Sillah, umhverfisráðherra Gambíu; Ulla Tørnæs, þróunarsamvinnuráðherra Danmerkur og Paula Lehtomäki, umhverfisráðherra Finnlands.
Birt:
Tilvitnun:
Umhverfisráðuneytið „Ísland verðlaunað fyrir að tryggja aðkomu kvenna að úrbótum í loftslagsmálum“, Náttúran.is: 16. desember 2009 URL: http://nature.is/d/2009/12/16/island-verolaunao-fyrir-ao-tryggja-aokomu-kvenna-a/ [Skoðað:21. janúar 2025]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.