Álverð í heiminum þyrfti að tvöfaldast frá því sem nú er til að Kárahnjúkavirkjun skilaði hagnaði. Þetta segir prófessor og lífefnafræðingur sem hefur reiknað út að um 90 milljóna króna tap verði að óbreyttu á rekstri virkjunarinnar á þessu ári.

Ef ekki komi til orku- og auðlindaskattur segir hann virkjunina koma til með að verða baggi á þjóðarbúinu.

Verð á áli hefur hækkað nokkuð undanfarna mánuði og fást nú um 1.800 dollarar fyrir tonnið. Ólafur S. Andrésson prófessor og lífefnafræðingur sem skrifaði grein í Fréttablaðið um helgina segir hækkunina þó engan veginn duga til að rétta hallarekstur Kárahnjúkavirkjunar. Þar ráði miklu að stofnkosntaðurinn við virkjunina, samkvæmt ársreikningum Landsvirkjunar, sé nærri 160 milljarðar króna. Það er snúnara að meta tekjuhliðina enda orkuverðið leyndarmál.

Ólafur segir heimsmarkaðsverð á áli ráða úrslitum um hvort Landsvirkjun tapar eða græðir á virkjuninni. „Orkuverðið er bara beint margfeldi af álverðinu og núna þegar álverðið er innan við 2000 dollarar tonnið að þá lítur dæmið mjög illa út og það þarf að fara alveg ótrúlega hátt, hærra en það hefur nokkurn tíma verið til lengdar til þess að tekjurnar standi undir eðlilegum útgjöldum."

Ólafur telur aðeins tvennt í stöðunni til að koma rekstri virkjunarinnar upp fyrir núllið. Annar kosturinn sé að semja um niðurfellingu skulda en það sé ólíklegt að slíkar samningaumleitanir myndu skila árangri. Hann segir því ekki annað í stöðunni en að leggja á sérstakan orku- og auðlindaskatt, ætli Íslendingar að fá það sem þeim beri.

Sjá frétt RUV.

Mynd tekin við Kárahnjúka í rykmistri í júli. Ljósmynd: Ólafur Sigurjónsson í Forsæti.

Birt:
12. ágúst 2009
Höfundur:
Ríkisútvarpið
Tilvitnun:
Ríkisútvarpið „Segir virkjunina rekna með tapi“, Náttúran.is: 12. ágúst 2009 URL: http://nature.is/d/2009/08/12/segir-virkjunina-rekna-meo-tapi/ [Skoðað:25. apríl 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: