ORF Líftækni fær leyfi til útiræktunar á erfðabreyttu byggi
Umhverfisstofnun hefur samþykkt að veita ORF Líftækni hf. leyfi til útiræktunar í tilraunaskyni á erfðabreyttu byggi með ströngum skilyrðum og undir eftirliti Umhverfisstofnunar.
Ljóst er að verulega skiptar skoðanir eru um hvort heimila eigi sleppingar erfðabreyttra lífvera á Íslandi. Samkvæmt gildandi lögum ber að meta hvert tilvik fyrir sig á grundvelli tiltekinna skilyrða. Helstu þættir sem Umhverfisstofnun leggur mat á eru hugsanleg áhrif á lífríki, afmörkun sleppingar og siðferðileg álitaefni. Ráðgjafanefnd um erfðabreyttar lífverur og Náttúrufræðistofnun Íslands eru lögbundnir umsagnaraðilar, meta umsóknina og skila áliti til Umhverfisstofnunar.
Niðurstaða
Umhverfisstofnun telur með vísun til umsagna Náttúrufræðistofnunar Íslands og Ráðgjafanefndar um erfðabreyttar lífverur og að undangengu mati á öðrum fyrirliggjandi gögnum að hverfandi líkur séu fyrir hendi á útbreiðslu hins erfðabreytta byggs út fyrir tilraunareit og á mögulegri víxlfrjóvgun erfðabreytta byggsins við annað bygg eða plöntur í nágrenni sleppistaðar. Jafnframt telur Umhverfisstofnun að hverfandi líkur séu á að þau græðisprótein sem fyrirhugað er að nota skv. framkominni umsókn muni valda neikvæðum áhrifum á lífríki á ræktunarstað eða nágrenni hans. Umhverfisstofnun telur einnig að aðgerðir til að tryggja afmörkun ræktunarreits sé fullnægjandi með þeim skilyrðum sem stofnunin setur og koma fram í niðurstöðum.
Leyfið er veitt með eftirfarandi skilyrðum:
- Tilkynna skal Umhverfisstofnun þegar ræktun hefst og árlega skal skila ítarlegri skýrslu um framgang tilraunar og niðurstöður og skal það gert fyrir 1. febrúar ár hvert.
- Unnið skal eftir skriflegum verklagsreglum um hvernig skuli staðið að ræktun, flutningum, fræverkun og eyðingu hliðarafurða og skal Umhverfisstofnun samþykkja slíkar reglur fyrirfram og hugsanlegar breytingar sem á þeim verða gerðar.
- Einungis starfsfólk sem er upplýst um eðli starfsemi fyrirtækisins og þær reglur er gilda um afmörkun og rétt viðbrögð við frávikum o.þ.h. skulu starfa við tilraunina.
- Ræktunarsvæði skal afmarkað með rafgirðingu og varðbelti með höfrum. Yfir ræktunarsvæði skal strengja línur eða net til að fæla frá hugsanlegar fuglakomur og skal Umhverfisstofnun yfirfara og samþykkja afmörkun ræktunarreits að lokinni sáningu að vori.
- Fylgst skal reglulega og skv. skriflegri verklýsingu með næsta umhverfi ræktunarreits og verði vart við byggplöntur utan tilraunareits verði þær hirtar til greiningar og kannað hvort um sé að ræða græðis-yrki. Ef erfðabreytt byggyrki eru staðfest utan ræktunarreits skal Umhverfisstofnun án tafar gert viðvart.
- Ef við uppskeru, flutning eða verkun verða slys sem geta valdið dreifingu byggs eða annarra afurða skal Umhverfisstofnun án tafar tilkynnt um slíkt og skal í tilkynningu koma fram upplýsingar um tildrög slyss, upplýsingar um til hvaða ráðstafana hafi verið gripið ásamt öðrum upplýsingum svo að unnt sé að meta hugsanleg áhrif og viðeigandi viðbrögð.
- Telji leyfishafi nauðsynlegt að breyta áður heimilaðri tilhögun við sleppingu eða dreifingu erfðabreyttra lífvera ber honum að tilkynna Umhverfisstofnun það án tafar. Sama gildir komi fram nýjar upplýsingar um hættu sem fylgir sleppingu eða dreifingu erfðabreyttra lífvera. Hafi nýjar upplýsingar veruleg áhrif á mat á áhættu samfara sleppingu getur Umhverfisstofnun krafist þess að umsækjandi breyti aðstæðum, geri hlé á sleppingu eða afturkallað áður útgefið leyfi sbr. 12. gr. laga um erfðabreyttar lífverur, nr. 18/1996.
Umhverfisstofnun er heimill óhindraður aðgangur að rannsóknarstofum eða svæðum þar sem notaðar eru eða unnið er með erfðabreyttar lífverur.
Svæði sem notað hefur verið við ræktun skal látið standa óhreyft í 2 sumur eftir að notkun lýkur.
Umræða
Umhverfisstofnun hélt tvo opna kynningarfundi vegna umsóknarinnar, annan í nágrenni tilraunareitsins og hinn í Reykjavík. Fundirnir voru vel sóttir og bárust fjölmargar athugasemdir í kjölfar þeirra sem og undirskriftir gegn veitingu leyfisins. Talsverð umræða hefur farið fram um málefni erfðabreyttra lífvera að undaförnu og ber því að fagna. Hluti umræðunnar snérist um löggjöfina sjálfa og grundvallarspurningar um sleppingar erfðabreyttra lífvera almennt. Var það mál manna á fundunum að þörf væri á aukinni fræðslu um málefnið.
Umsækjandi eða aðrir sem telja á rétt sinn hallað sbr. 25. gr. laga um erfðabreyttar lífverur nr. 18/1996 vegna ákvörðunar þessarar geta kært hana til umhverfisráðherra innan þriggja mánaða frá því ákvörðunin var tilkynnt.
Mynd: Frá fyrsta kynningarfundinum í Gunnarsholti þ. 25. maí sl. Á myndinner eru talið frá vinstir: Björn Lárus Örvar, Eva Benjamínsdóttir og Trausti Valsson. Ljósmynd: Guðrún Tryggvadóttir.
Birt:
Tilvitnun:
Umhverfisstofnun „ORF Líftækni fær leyfi til útiræktunar á erfðabreyttu byggi“, Náttúran.is: 23. júní 2009 URL: http://nature.is/d/2009/07/03/orf-liftaekni-faer-leyfi-til-utiraektunar-erfoabre/ [Skoðað:22. desember 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 3. júlí 2009