Umhverfismerking Svansins á hótelum nær yfir alla flokka gistiþjónustu, þar sem grunný jónusta á borð við sængurfatnað, handklæði, baðaðstöðu, þrif og morgunverð er innifalin í verðinu. Ef veitingastaður, ráðstefnuaðstaða eða sundlaug eru á hótelinu/gisitheimilinu, er þetta einnig skoðað með tilliti til umhverfisáhrifa.

Umhverfismerking
Norræna umhverfismerkið Svanurinn var stofnað í þeim tilgangi að að auðvelda þér og öðrum neytendum að finna vörur er hafa sem minnst skaðleg áhrif umhverfið. Kröfur vansins miðast við allan lífsferi vörunnar/þjónustu, frá vöggu til grafar. Það þýðir að áhrif vörunnar eru metin allt frá hráefni til úrgangs, og miðast kröfur Svansins við að lágmarka umhverfisálag vegna vörunnar. Það getur verið flókið mál að meta umhverfisáhrif vara og finna þá umhverfisvænstu. Svanurinn einfaldar málið og auðveldar þér að skapa betri framtíð!

Hótelið og umhverfið
Hótel hafa nokkurn veginn samskonar áhrif á umhverfið og venjuleg heimili. Á hóteli er notuð orka til upphitunar, matargerðar, þvotta og flutninga, og hráefnanotkunin er einnig svipuð, svo sem í húsgögnum, vefnaðarvöru af ýmsu tagi, hreinsiefnum og einnota ílátum svo eitthvað sé nefnt. Rétt eins og á venjulegum heimilum, þá veldur þetta ákveðinni mengun og sorp fellur til.
Helsti munurinn er hins vegar sá, að á hótelum er notað mun meira af orku og hráefnum á degi hverjum en á meðal heimili. Ástæðurnar fyrir þessu eru margar. Þrif og þvottar eru mun tíðari á hótelum, slit á húsgögnum og öðrum húsbúnaði er meira og endurnýjun örari. Þá eru hótelin ekki alltaf fullnýtt, sem þýðir að stór, upphituð rými standa auð. Þar að auki krefst til dæmis bað- og hreinlætisaðstaða ákveðinnar notkunar á vatni, hreinsiefnum og orku, sem veldur ákveðnu álagi á umhverfið hvort sem gestirnir nýta sér hana eða ekki.
Margir ólíkir en samverkandi þættir hafa áhrif á það, hversu miklu umhverfisálagi hvert og eitt hótel veldur. Þar má nefna meðalnýtingu, staðsetningu og ekki síst markhópinn, sem það leggur áherslu á (viðskiptaferðalanga, skemmtiferðamenn, vetraríþróttir o.s.frv.). Markhóparnir ráða oft miklu um það, hvaða og þá hversu umfangsmikil og fjölbreytileg þjónusta er í boði á viðkomandi hóteli umfram gistiþjónustuna sjálfa, svo sem veitingastaður, ráðstefnuaðstaða og fleira. Hótelbyggingin sjálf, aldur, og upphitunarkerfi eru líka mikilvægir þættir, og svona mætti áfram telja.

Umhverfismerking
Hlutverk norræna umhverfismerkisins Svansins er að vísa leiðina að bestu lausnunum út frá umhverfislegum sjónarmiðum, og er þá tekið tillit til allra þátta þjónustunnar/framleiðslunnar, frá vöggu til grafar. Skilyrði þess, að vöru- eða þjónustuflokkur geti hlotið umhverfismerkingu er, að markaðurinn bjóði upp á að tilkoma umhverfismerkinga í þessum flokki leiði til ávinnings fyrir umhverfið í fyrirsjáanlegri framtíð.
Umhverfismerkingin, ásamt meðvituðu vali neytenda með tilliti til umhverfisþátta, gerir ákveðnar kröfur til hótelsins hvað varðar ný tngu, meðhöndlun og val á hráefnum. Smám saman er síðan hægt að herða kröfurnar til að draga enn úr neikvæðum áhrifum hótelsins á umhverfið.

Skilyrði fyrir Svansmerkinu

Í viðmiðunarreglum Svansins fyrir hótel eru gerðar ákveðnar kröfur sem taka til orku- og vatnsnotkunar, notkunar, meðferðar og nýtingar á hreinsiefnum, hráefnum og almennum neysluvörum, sem og til innréttinga og húsgagna. Þá eru gerðar kröfur á sviði meðferðar á sorpi og öðrum úrgangi og einnig er litið til flutninga á farþegum, hráefnum og öðru til og frá hótelinu.
Viðmiðunarreglurnar byggjast annars vegar á ákveðnum hámarksgildum á vissum sviðum, og hins vegar á sértækum skilyrðum og kröfum um að gripið verði til tiltekinna aðgerða, sem sumar hverjar eru skilyrði þess að umhverfismerking verði heimiluð, en aðrar valfrjálsar og gefa plúspunkta (sjá nánar hér að neðan). Þá verður hótelið einnig að hafa skrásetningarkerfi fyrir umhverfisstjórnun.

Hámarksgildi
er að finna á fjórum sviðum: Orkunotkun, vatnsnotkun, notkun hreinsiefna og sorpmagn. Hámarksgildin eru mismunandi á hverju hóteli fyrir sig, og taka meðal annars mið af meðalný tningu herbergja, landfræðilegri legu (í borg, bæ eða sveit) og því, hvort og þá hve mikla viðbótarþjónustu boðið er upp á og af hvaða tagi hún er (veitingastaður, ráðstefnuaðstaða o.fl.). Hótelið verður að vera undir hámarksgildum á minnst tveimur af þessum fjórum sviðum til að fá Svansmerkið.

Sértæk skilyrði og kröfur um aðgerðir

ná til allra sviða hótelrekstursins. Hluta þeirra verður að uppfylla, að öðrum kosti fæst ekki leyfi til Svansmerkingar. Hér eru nokkur dæmi þar um:

  • Kælar, hitadælur o.þ.h. mega ekki innihalda CFC (Freonefni)
  • Ekki má nota hreinsiefni sem innihalda klór við ræstingar
  • Sorp skal aðgreint í minnst fjóra flokka.
  • Vefnaðarvara skal ekki innihalda brómeruð eldvarnarefni.

Punktakerfi
Önnur skilyrði og kröfur um aðgerðir eru valkvæm, sem þýðir að gistiþjónustuaðili sem sækist eftir Svansmerkinu verður að uppfylla ákveðinn fjölda þeirra, en er nokkuð í sjálfsvald sett, hver þeirra það eru. Ákveðinn punktafjöldi fæst fyrir hvert skilyrði eða kröfu um aðgerð sem uppfyllt er. Punktar fást meðal annars fyrir nýtingu á varmaorku, notkun orkusparandi ljósapera, vatnssparandi klósett og sturtur, ræstingu án hreinsiefna, áfyllingarbúnað fyrir sápu og sjampó, sorpflokkun í herbergjum, notkun á umhverfismerktum vörum af ýmsu tagi, lífræna matvöru, umhverfismerkta vefnaðarvöru (sængurföt, handklæði o.fl.), endurnýjanlega orkugjafa á bíla hótelsins og fleira. Þessum valkvæmu skilyrðum og aðgerðakröfum er deilt niður á nokkra undirflokka (orku, vatn, hreinsiefni o.fl.) og þarf hótelið að ná ákveðnu hlutfalli af mögulegum hámarkspunktafjölda í hverjum undirflokki fyrir sig til að geta fengið Svansleyfi.

Umhverfisstjórnun og skrásetning
Að síðustu er að finna skilyrði um það, að hótelið sé með vel útfært umhverfisstjórnunarkerfi, þar sem jafnframt er haldið bókhald um framkvæmd þess. Skrásetja þarf allt sem viðkemur framkvæmdina, s.s. aðgerðir og aðferðir við viðhald og endurnýjun búnaðar, orku- og vatnsnotkun, endurmenntun starfsfólks á sviði umhverfismála, upplýsingagjöf til gesta um umhverfisstefnu hótelsins og möguleika þeirra til að leggja sitt af mörkum, og svo framvegis. Viðmiðunarreglurnar gera annars vegar ákveðnar kröfur um umhverfisstjórnunarkerfið og framkvæmd þess í heild sinni, og hins vegar um hvernig það tekur á einstökum umhverfisþáttum, svo sem vatns- og orkunotkun, sorphirðu, hráefnanotkun og svo framvegis.
Ef fyrirtækið hefur ISO 14001 eða EMAS vottað umhverfisstjórnunarkerfi nú þegar, léttir það vinnuna við að fá Svansleyfi. Að sjálfsögðu verður hótelstarfsemin að fylgja lögum og reglum í viðkomandi landi.

Það helsta:

Viðmiðunarreglunum er aðallega ætlað að stuðla að:

  • Minni orkunotkun samfara beinum orkusparnaðar-aðgerðum. Notkun endurnýjanlegra orkugjafa á borð við sól, vind og vatn er einnig ótvíræður kostur.
  • Betri nýtingu á vatni og stuðla þarafleiðandi að minni vatnsnotkun.
  • Minni notkun hreinsiefna og notkun umhverfismerktra hreinsiefna þar sem þess er kostur.
  • Minna sorpi, með því að draga úr innkaupum og flokka sorp til endurvinnslu og endurnýtingar þar sem við á.
  • Aukinni notkun umhverfisvænna og umhverfismerktra umbúða og annarrar vöru í stað einnota umbúða og annars einnota varnings.

Hámarksgildi (sjá hér að ofan):

  • Orka: Hámark: 230-430 kWh/m2
  • Vatnsnotkun: Hámark 200-300 L/gistinótt.
  • Hreinsiefni og önnur kemísk efni: Hámark 25-35 gr./gistinótt.
  • Sorp: Hámark 0.5-1.5 kg/gistinótt.

Sjá Svansmerkt fyrirtæki á Íslandi, fyrirtæki sem selja Svansmerktar vörur og lesefni um Svaninn hér á Grænum siðum.

Nánari upplýsingar um hvernig hægt er að fá Svansvottun veitir umboðsaðili Svansins hér á landi Umhverfisstofnun.

Birt:
7. janúar 2008
Höfundur:
Umhverfisstofnun
Uppruni:
Umhverfisstofnun
Tilvitnun:
Umhverfisstofnun „Hótel og farfuglaheimili - Svanurinn“, Náttúran.is: 7. janúar 2008 URL: http://nature.is/d/2008/01/06/hotel-svanurinn/ [Skoðað:21. desember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 6. janúar 2008
breytt: 15. janúar 2008

Skilaboð: