Ræstingarsvið ISS komið með Svansvottun
Ræstingarsvið ISS Ísland hefur fengið vottun Norræna umhverfismerkisins Svansins fyrir ræstingarþjónustu. ISS er annað fyrirtækið í ræstiþjónustu til að fá Svansvottun en í fyrra fékk fyrirtækið Sólarræsting Svaninn.
Strangar kröfur Svansins tryggja að fyrirtækið er í fremstu röð hvað varðar lágmörkun neikvæðra umhverfis- og heilsuáhrifa starfseminnar. ISS Ísland sem starfar á sviði fasteignaumsjónar er jafnframt fyrsta ISS fyrirtækið á heimsvísu til að fá slíka vottun. Svansvottunin nær þó til ræstingarsviðs fyrirtækisins hér á landi.
Umhverfisráðherra veitir leyfið föstudaginn 20. nóvember í húsnæði ISS og er fjölmiðlum boðið. “Það gleður mig að ISS hefur ákveðið að taka þátt í því með okkur að byggja upp sjálfbært samfélag. Það er ljóst að vistvæn innkaupastefna ríkisins hefur tilætluð áhrif sem lýsir sér í auknum áhuga á Svansvottun” segir Svandís Svavarsdóttir, umhverfisráðherra.
Sjá fyrirtækin sem hafa Svansvottun hér á landi á Grænum síðum.
Sjá þá vöruflokka sem eru í boði af Svansvottuðum vörum hér á landi undir „Vörur/Vottað Svanurinn“ en í hverjum flokki finnur þú hvaða fyrirtæki flytja inn/dreifa viðkomandi vöruflokki. Samsvarandi flokkur er fyrir þjónustuflokkana undir „Þjónusta/Vottað Svanurinn“ hér á Grænum síðum.
Einnig er hægt að sjá gott yfirlit yfir aðilana hér á Græna Íslandskortinu.
Um ISS
ISS Ísland er sjálfstætt íslenskt fyrirtæki í eigu alþjóðafyrirtækisins ISS A/S, sem starfar í yfir 50 löndum. Á ræstingarsviði ISS starfa yfir 600 manns. ISS Ísland er stærsta ræstingarþjónustan á landinu og fyrsta ISS fyrirtækið í heiminum til að fá Svansvottun fyrir starfsemina. Viðskiptavinir fyrirtækisins á sviði ræstinga eru um 480 talsins, svo um er að ræða stóran hóp sem nú fær að njóta góðs af Svansmerkingu ISS og hefur vottun því mikil áhrif í samfélaginu. „Við erum ákaflega stolt yfir að fá umhverfisvottun Svansins” segir Guðmundur Guðmundsson, framkvæmdastjóri ISS Ísland. „Svanurinn tengir endanlega saman verkferla fyrirtækisins við umhverfisstefnu þess og tryggir viðskiptavinum ISS gæðaþjónustu, sem er vistvænni í framkvæmd. Okkur er það mikil ánægja að geta lagt okkar lóð á vogarskálarnar að umhverfisvænna atvinnulífi á Íslandi.“
Kröfur Svansins fyrir ræstiþjónustu:
- Strangar kröfur um efnanotkun. Að minnsta kosti 50% hreinsiefna verða að vera umhverfismerkt, bann við notkun efna sem eru skaðleg umhverfinu og heilsu fólks. Heildarnotkun efna er lágmörkuð með réttri skömmtun.
- Mengun vegna flutninga fyrirtækisins er lágmörkuð með kröfu um nýlegan bílaflota sem uppfyllir kröfur um útblástur.
- Lögð er áhersla á að lágmarka notkun plastpoka, flokka úrgang og velja umhverfismerktar vörur í innkaupum.
- Gæði ræstingar eru tryggð með reglulegri þjálfun og fræðslu starfsmanna ásamt ferlum til að fylgjast með gæðum þjónustunnar. Fyrirtækið þarf að uppfylla öll lög og reglugerðir sem eiga við starfsemina.
Norræna umhverfismerkið Svanurinn
Svanurinn er opinbert umhverfismerki Norðurlandanna sem byggist á óháðri vottun og viðmiðum sem taka tillit til alls lífsferils vöru og þjónustu. Tilgangur Svansins er að ýta undir sjálfbæra þróun samfélagsins svo að komandi kynslóðir hafi jafna möguleika og við til að mæta þörfum sínum. Alls er hægt að votta 66 mismunandi vöru- og þjónustuflokka. Sjá nánar á vef Umhverfisstofnunar.
Birt:
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir „Ræstingarsvið ISS komið með Svansvottun“, Náttúran.is: 19. nóvember 2009 URL: http://nature.is/d/2009/11/19/raestingarsvio-iss-er-komio-meo-svansvottun/ [Skoðað:22. janúar 2025]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.