Eins og margir hafa eflaust tekið eftir hefur undanfarið verið umtalsverð umræða um mengun frá bílaumferð, enda hefur hún aukist verulega síðustu ár. Mest hefur þessi umræða snúist um notkun nagladekkja.

Margir ökumenn treysta sér ekki út á göturnar eftir að bera fer á hálku öðruvísi en á negldum dekkjum. Gatnamálayfirvöld kvarta hins vegar sáran yfir mikilli nagladekkjanotkun, enda fræsa naglarnir upp göturnar. Talið er að um 15 þúsund tonn af malbiki losni árlega út í umhverfið af völdum bílaumferðar hér á landi. Umhverfisálag af völdum dekkja takmarkast hins vegar ekki við slit þeirra á malbikinu. Malbikið slítur líka dekkjunum og af því hlýst önnur tegund mengunar. Slitflötur flestra dekkja er gerður úr gúmmíi sem inniheldur umtalsvert magn svokallaðrar fjölarómatískrar olíu (PAH) sem er ekki annað en úrgangsolía frá olíuhreinsunarstöðvum. Þessi olía er bæði krabbameinsvaldandi og brotnar seint og illa niður og safnast því upp í lífverum). PAH-olían er ódýr, enda lítt fallin til annars brúks, og dekkjaframleiðendur nota hana óspart til að mýkja gúmmíið, gera það þjálla og drýgja það. Við slit á hjólbörðunum losna örsmáar gúmmíagnir af slitflötunum og úrgangsolían á þar með greiða leið út í umhverfið.

Umhverfisálag af völdum bíldekkja er verulegt og var því ákveðið að Norræn umhverfismerking (aðstandendur Svansins), útbyggi viðmiðunarreglur fyrir umhverfismiðaða framleiðslu hjólbarða. Þær komu út í júní 1999. Þar með gafst framleiðendum tækifæri til að sýna á óyggjandi máta að framleiðsla þeirra væri umhverfismiðuð.
Í reglunum er meðal annars gerð sú krafa að framleiðendur noti ekki hina eitruðu úrgangsolíu í dekkin heldur efni sem koma að sama gagni og eru ekki eitruð og valda mun minna umhverfisálagi. Þau efni eru nokkur dýrari en úrgangsolían, en í innkaupsverði olíunnar er hins vegar hvorki gert ráð fyrir kostnaði við heilsutjón né þann umhverfisvanda sem þessi efni valda. Einnig taka reglurnar til rykmengunar, hávaða, viðnáms og aksturseiginleika sem dekkjunum fylgja.

Fyrstu umhverfismerktu dekkin sem komu á markað voru sóluð sumardekk og hér á landi er hægt að fá slík dekk af gerðinni Green Diamond. Einnig hafa komið Svansmerkt vetrardekk á markað sem nefnast Izen 7401 frá kóreska dekkjaframleiðandanum Kumho.

Kumho verksmiðjurnar hafa lengi lagt áherslu á umhverfismál og fengu vottað umhverfisstjórnunarkerfi árið 1996 (ISO14001).

Eftir því sem fleiri bílaframleiðendur og almennir neytendur gera kröfu um umhverfisvæn dekk undir bíla sína fjölgar þeim dekkjaframleiðendum sem standa sig á þessu sviði. Því er um að gera að krefjast þess að umhverfisvæn dekk séu undir bílum okkar.

Sólning býður upp á Green Diamond dekk.

Grein úr Neytendablaðinu, 4. tbl. - 48. árg - desember 2002.

Birt:
25. september 2007
Höfundur:
Neytendablaðið
Uppruni:
Neytendablaðið
Tilvitnun:
Neytendablaðið „Umhverfisvænni bíldekk“, Náttúran.is: 25. september 2007 URL: http://nature.is/d/2007/09/25/umhverfisvnni-bldekk/ [Skoðað:22. janúar 2025]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: 17. apríl 2013

Skilaboð: