Heilsa - Vistvænar byggingar
Að byggja heilbrigð hús fjallar fyrst og fremst um hvernig byggja skal hús sem fólki líður vel í án þess að skaða húsbyggjandann og náttúruna. Í hinum vestræna heimi þá eyðir fólk að jafnaði um 90% af tíma sínum innan dyra. Því er eðlilegt að það verði fyrir áhrifum af þeim húsum sem það býr og starfar í. Það sem hafa verður í huga þegar byggja á heilbrigt hús er hönnun, val á byggingarefnum, hvernig lagnir og kerfi skal nota og framkvæmd verksins.
Líkt og hús, hafa fötin sem við klæðumst mikil áhrif á vellíðan okkar. Má líkja fatnaði við annað húðlag mannsins og húsi við það þriðja. Sum hús gefa frá sér mikið af skaðlegum efnum sem menga loft innandyra. Þannig getur inniloft innihaldið meira af skaðlegum efnum en útiloft, jafnvel í borgum þar sem útblástur skaðlegra lofttegunda er mikill. Þetta getur valdið svokallaðri húsasótt (e. sick building syndrome) en einkenni hennar eru m.a. höfuðverkur, pirringur í augum og nefi, svimi og ógleði. Þótt einkennin séu yfirleitt tímabundin getur langvarandi viðvera í slíkum veikum húsum leitt til alvarlegri kvilla og sjúkdóma. Því er mikilvægt að læra hvernig hægt er að koma í veg fyrir húsasótt.Ekki er hægt að staðfesta með mælum og tækjum hvort hús sé veikt heldur er stuðst við upplifun fólks.
Eftirfarandi getur valdið húsasótt:
- Ýmis efnasambönd sem gufa upp frá húsinu og/eða innanstokksmunum (frá t.d. málningu, viðarvörn, lími)
- Raki Slæm loftræsting Raf- og segulsvið
- Truflandi áhrif frá nánasta umhverfi (umferð, hávaði, loftmengun, ofl.)
- Notkun ýmissa efna (hreinsiefni, tóbak) Arkitektúr ekki nógu aðlaðandi
- Ófullnægjandi þrif og viðhald
- Þægindaskortur
Efnisval
Þegar velja á byggingarefni út frá umhverfis-sjónarmiði þarf að hafa tvennt í huga:
1. Hvaða áhrif hefur það á heilsufar og vistkerfið?
Byggingarefnum má skipta í lífræn efni (tré og tréafurðir), steinefni (stein, steypu og gler), málma og gerviefni (plast). Losa þarf byggingariðnaðinn við eins mörg heilsuspillandi efnasambönd og kostur er. Lífræn byggingarefni, sem verða til með hjálp sólarorku og ljóstillífunar eru talin ákjósanlegust frá umhverfissjónarmiði. Fjöldi efnasambanda hefur aukist gífurlega.
2. Hver eru umhverfisáhrif af framleiðslunni?
Til að geta lagt mat á umhverfisáhrif byggingarefna þarf að skoða framleiðsluferilinn. Þetta er hægt með t.d. vistferilsgreiningu (Life cycle analysis, LCA) sem metur orku- og hráefnanotkun auk losun efna-sambanda í loft, vatn og land á “lífsferli” vörunnar. Í Svíþjóð og Noregi er verið að útbúa slíkan gagnagrunn fyrir byggingarefni. Enn hefur slíkur gagnagrunnur ekki verið útbúinn á Íslandi. Í vistferilsgreiningu er vöru fylgt “frá vöggu til grafar”. Þannig er hægt að bera saman umhverfisáhrif mismunandi byggingarefna.
Lagnir og kerfi
Í sjálfbærri byggingu er takmarkið að nota lagnir og kerfi sem gefa gott innanhússloftslag og virka án mikils viðhalds eða sérfræðikunnáttu. Lagnir og kerfi eins og upphitun, rafmagn, vatnslagnir, frárennsli og loftræsting eru orðin flóknari en áður. Nýjasta viðbótin er upplýsingatækni (information technology, IT) til að stjórna mismunandi kerfum.
Það sem hefur áhrif á vellíðan fólks innandyra:
- hitastig
- loftgæði (ferskt loft, lykt, ryk, svifryk, útblástur)
- hljóðgæði (hljóðstyrkur, bergmál, hávaði og titringur)
- ljósgæði (lýsing, ljósstyrkur, litasamsetning, dagsljós)
- rafloftslag. Rafloftslag fer eftir raf- og segulsviði sem myndast frá raflögnum og raftækjum auk stöðurafmagns. Stöðurafmagn myndast í þurru lofti sem leiðir rafmagn mjög illa. Því “staðnar” rafhleðslan. Neikvæðar hleðslur á fólki draga til sín jákvætt hlaðnar óhreinindaagnir)
Hönnun
Þegar byggja á heilbrigt hús þá er ekki nóg að velja heilnæm byggingarefni. Þeim verður líka að blanda saman á réttan hátt svo ekki komi upp vandamál tengd raka, hávaða eða þrifnaði. Mikilvægt er að fylgjast með rannsóknum og nýjungum því þróunin er hröð í umhverfismálum. Jafn mikilvægt er að læra af reynslu annarra. Hávaði getur valdið álagi og óþægindum. Truflanir verða frá umferð, loftræsi- og upphitunarkerfum en einnig af lágtíðnihljóðum. Hljóðstyrkur frá mismunandi uppruna ætti samanlagður ekki að fara upp fyrir 55 desibil.
Gott aðgengi við þrifnað og viðhald eru mikilvægt í heilbrigðum byggingum. Umhirða og viðhald eru háð hönnun og útfærslu og ætti að huga að á skipulagsstigi sjálfbærra bygginga. Þetta á við bæði utan- og innanhúss. Framkvæmd Þegar byggja á sjálfbært hús þarf að hugsa kerfisbundið gegnum allt byggingarferlið. Einn og sami aðilinn ætti að hafa yfirumsjón með byggingarferlinu og bera ábyrgð á að staðið sé við samninga, gæði uppfyllt og sorp flokkað. Það skiptir miklu máli að þeir sem koma að byggingarferlinu hafi áhuga á umhverfismálum. Því ættu verktakar að hafa sína eigin umhverfisstefnu og vinna eftir umhverfis-stjórnunarkerfi. Hús hafa ákveðinn líftíma og því er mikilvægt að íhuga í upphafi hvað skuli gera þegar líftími hússins er liðinn. Þegar hús er rifið skal reyna að endur-nota byggingarefni en það sem ekki er hægt að endurnota skal flokka samkvæmt viðeigandi reglugerðum. Best er að ganga frá efnunum á staðnum til að lágmarka flutning.
Úr bókinni „Byggekologi, konskaper för ett hallbar byggande“ eftir Varis Bokalders og Maria Block. Þýðing: Bergþóra Hlíðkvist Skúladóttir. Af vef Sessljuhúss.
Birt:
Tilvitnun:
Varis Bokalders og Maria Block „Heilsa - Vistvænar byggingar“, Náttúran.is: 18. apríl 2008 URL: http://nature.is/d/2007/03/29// [Skoðað:21. janúar 2025]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 29. mars 2007
breytt: 18. apríl 2008