Úthlutað úr Náttúruverndarsjóði Pálma Jónssonar 2010
Þann 11. júní 2010 var í annað sinn úthlutað styrkjum úr Náttúruverndarsjóði Pálma Jónssonar stofnanda Hagkaups. Samtals var úthlutað 22.100.000.- kr til 26 verkefna.
Lilja Pálmadóttir stofnaði Náttúruverndarsjóð Pálma Jónssonar vegna einlægs áhuga á náttúruvernd og jafnframt til að heiðra minningu föður síns sem ávallt sýndi djúpa virðingu fyrir náttúrunni og umhverfi sínu. Með Lilju eru í stjórn sjóðsins Skúli Skúlason rektor Háskólans á Hólum og Guðmundur Oddur Magnússon prófessor við Listaháskóla Íslands.
Markmið sjóðsins er að auka almenna þekkingu á íslenskri náttúru svo að umgengni okkar og nýting á verðmætum hennar geti í ríkari mæli einkennst af virðingu og skynsemi. Samhliða er leitast við að bæta tengsl Íslendinga við náttúru landsins og efla með því gott hugarfar, mannlíf og atvinnustarfsemi í sátt við umhverfið.
Markmiði þessu verði náð með því að styrkja verkefni sem fást við sköpun og miðlun þekkingar um náttúruna í víðum skilningi. Farvegurinn getur verið í gegnum listir, hvers kyns fræði og vísindi.
Verkefnin sem hlutu styrki í ár eru:
Grunnskólinn austan Vatna
Grenndarspil
200.000
Útgáfa spils sem nemendur skólans hafa unnið sjálfir að í samvinnu við kennara sína. Spurningar eru í nokkrum flokkum en eiga það sammerkt að taka á nánasta umhverfi nemendanna – það er Skagafirði.
Jóhanna Helga Þorkelsdóttir
Í heiðinni
300.000
Einkasýning í Listasal Garðabæjar sem opnuð var í gær! Listamaðurinn hefur áhuga á að búa til lifandi samtal á milli náttúrunnar og hins manngerða. Viðfangsefnið að þessu sinni er Hellisheiði, en þar leitar listamaðurinn fanga í síbreytilegu landslagi, þar sem takast á kraftar náttúrunnar og viðleitni mannsins til að fanga, virkja og nýta þá krafta og orku. (Hugmyndafræðilegar, tilfinningalegar og sjónrænar andstæður eru kveikjan. )
Náttúrusetrið á Húsabakka ses (Hjörleifur Hjartarson)
Friðland fuglanna
300.000
Sýning fyrir börn á öllum aldri um fugla, votlendi og náttúruvernd sem er eins konar gestastofa fyrir Friðland Svarfdæla og þjónar um leið starfsemi Náttúrusetursins. Sérstaða sýningarinnar felst í myndrænum, óhefðbundnum framsetningum, skemmtilegum og fróðlegum upplýsingum sem koma stundum á óvart. Beinar vísanir eru frá sýningunni og út í Friðlandið. Verndun votlendis og náttúruvernd eru sérstaklega til umræðu.
Hið íslenska bókmenntafélag
Umhverfisrit er nýlegur bókaflokkur Bókmenntafélagsins. Flokknum er ætlað að auka aðgengi almennings á Íslandi að grundvallaratriðum umhverfismála og þannig stuðla að upplýstri orðræðu um málaflokkinn.
Kolefnishringrásin
400.000
Höfundur er Sigurður Reynir Gíslason jarðefnafræðingur.
Mannkynið hefur mikil áhrif á hringrás kolefnis þannig að hún raskast á flókinn og stundum illfyrirsjáanlegan hátt. Rýnt er í þessi áhrif mannsins og sérstök áhersla er lögð á Ísland í þessu samhengi.
Þar sem fossarnir falla
400.000
Höfundur er doktor Unnur Birna Karlsdóttir sagnfræðingur.
Frásögn af rannsókn á umræðu um vatnsaflsvirkjanir frá byrjun 20. aldar og fram á okkar daga. Meginrannsóknarspurningin er: Hvaða þættir í íslenskri náttúrusýn leiddu til hinnar miklu deilu og klofnings þjóðarinnar sem spratt af virkjanaáformum og -framkvæmdum á Norðausturlandi?
K. Hulda Guðmundsdóttir
Áhrif ógnandi þátta á votlendi við Skorradalsvatn
400.000
Viðmiðunarrannsókn á ástandi votlendis til að kanna áhrif ógnandi þátta á votlendið. Fyrri rannsókn var gerð árið 1998. Votlendið á Fitjum telst vera einstök og verðmæt mýrargerð. Meðal ógnana má nefna: sveiflur í vatnsborði vegna raforkuframleiðslu, framræslu, skógrækt og framandi og ágengar plöntutegundir.
Orri Páll Jóhannssson og Helena Óladóttir
Menntun til sjálfbærni
500.000
Námskeið til að auka færni grunnskólakennara í viðfangsefnum menntunar til sjálfbærrar þróunar. Á námskeiðinu verður lögð áhersla á hagnýtar leiðir, þátttöku og virkni kennara.
Í drögum að nýrri aðalnámskrá er fjallað um menntun til sjálfbærni sem eina af fimm meginstoðum nýrrar menntastefnu.
Sara Sigurbjörns-Öldudóttir
Sjálfgefin sjáfbærni? Viðhorf til verndunar og nýtingar náttúrunnar meðal ungbænda og bænda í lífrænni ræktun
500.000
Mastersrannsókn í félagsfræði við HÍ. Rannsóknin mun kanna túlkun á hugtakinu sjálfbærri þróun, viðhorf til umhverfismála og félagslega þætti því tengdu meðal ungra bænda og bænda í lífrænni ræktun.
Grasagarður Reykjavíkur (Eva G. Þorvaldsdóttir)
Ef plöntur gætu talað - fræðsla um umhverfismál
500.000
Gerð og þróun fjögurra námsverkefna um plöntur og umhverfismál fyrir leik- og grunnskóla. Verkefnin eiga að vera tiltæk á heimasíðu safnsins og styðja við útinám um allt land. Verkefnin eru fyrir leikskóla og grunnskóla.
Sigríður Klara Böðvarsdóttir
Einangrun erfðavísis glólita í íslenska hestinum
500.000
Verkefnið gengur út á einangrun og skilgreiningu á erfðavísi glólita, sem er fágætur litur meðal hesta en vert er að varðveita í íslenska hestinum. Niðurstöður verða kynntar hestaræktendum í því augnamiði að viðhalda einkenninu og jafnframt í vísindatímaritum. Þetta er í 2. sinn sem verkefnið fær styrk.
Ragnhildur Sigurðardóttir
Vatnafar og endurheimt votlendis í Flóa
600.000
Verkefninu er ætlað að safna grunnupplýsingum um vatnafar 360 ha votlendis í Flóa til að meta árangur fyrirhugaðrar endurheimtar. Megintilgangurinn er að skapa faglegan grunn, þar sem samband vatnafars á röskuðu landi og árangur endurheimtar votlendis verður skoðaður í víðu samhengi.
Þorvarður Árnason
Breði
600.000
Heimildamynd um áhrif hnattrænna loftslagsbreytinga, einkum með tilliti til Hoffellsjökuls í Nesjum. Fylgst er með og myndaðar um eins árs skeið þær breytingar sem verða á jöklinum. Auk þess að sýna fram á hopun jökla mun myndin varpa ljósi á þær áhugaverðu og tilkomumiklu breytingar sem verða á ásýnd skriðjökla frá einni árstíð til annarrar. Þetta er í 2. sinn sem verkefnið fær styrk.
Lára Jóhannsdóttir
Norræn vátryggingafélög og umhverfismál
700.000
Verkefnið er þverfagleg doktorsrannsókn á sviði viðskipta og umhverfismála og tekur til norrænna vátryggingafélaga. Með rannsókninni er leitað svara við því hvers vegna umhverfisstjórnun er mikilvæg fyrir rekstur vátryggingafélaga og hvaða áhrif vátryggingafélög geta haft á lausn umhverfislegra vandamála sem við er að glíma.
Sögusetur íslenska hestsins (Arna Björg Bjarnadóttir)
Hesturinn í náttúru Íslands
800.000
Sýning á ljósmyndum og vídeóverki sem endurspegla tengsl íslenska hestsins við náttúru landsins. Íslenski hesturinn hefur allt frá landnámi alist upp í náttúru landsins. Hann er hluti af henni og hefur mótast af aðstæðum hennar. Myndirnar endurspegla andstæður þessara aðstæðna, sem geta verið bæði erfiðar og ljúfar. Jafnframt er dregin fram fegurðin í því hversdagslega í lífi hestsins.
Hálendisferðir (Ósk Vilhjálmsdóttir)
Náttúrulega
800.000
Ferðir, eða námskeið, fyrir börn og unglinga þar sem lögð er áhersla á náttúruskoðun og að efla tengsl þátttakenda við landið og örva um leið athyglisgáfu og næmni með því að nýta aðferðir úr myndlistarnámi og kennslu. Þetta er í 2. sinn sem verkefnið fær styrk.
Ferðamáladeild Háskólans á Hólum (Hjalti Þórðarson)
Göngukort af Tröllaskaga
800.000
Verkefnið snýst um gerð göngukorta af Tröllaskaga með yfirheitinu Gönguleiðir á Tröllaskaga. Stefnt er að því að gefa út fimm kort af svæðinu norðan Hörgárdalsheiðar. Göngukort nr. 1 og 2 eru komin út en kort nr. 3 og 4 eru í vinnslu núna. Kortunum fylgja leiðarlýsingar. Þetta er í 2. sinn sem verkefnið fær styrk.
Gróður fyrir fólk í Landnámi Ingólfs (Björn Guðbrandur Jónsson)
LAND-NÁM, útiskóli GFF
800.000
Samstarfsverkefni GFF við grunn- og framhaldsskóla um samþættingu uppgræðslu og upplýsingatækni. Fléttað er saman útinámi og námi inni í skólastofunni þannig að hvoru tveggja fái aukna merkingu og jarðtengingu. Ákveðnum aðferðum og verklagi er beitt og mælingar gerðar sem nemendur vinna síðan úr. Nemendur fara í nokkur skipti á vettvang og geta því betur fylgst með framvindunni í náttúrunni.
Herdís Þorvaldsdóttir
Fjallkonan hrópar á vægð
1.000.000
Heimildamynd um gróðureyðingu á Íslandi og baráttu Herdísar Þorvaldsdóttur leikkonu gegn henni. Handritshöfundur er Ólafur Egill Egilsson og framleiðandi Lífsmynd ehf.
Landvernd
Átak gegn utanvegaakstri
1.000.000
Utanvegaakstur er orðið alvarlegt vandamál í náttúru Íslands. Með styrk sínum vill NPJ styðja Landvernd til að hrinda af stað átaksverkefni þar sem frjáls félagasamtök, aðilar í ferðaþjónustu, fjölmiðlar, stjórnvöld að ógleymdum hagsmunasamtökum mótorhjóla- og bíleigenda leggja saman. Markmiðið er að snúa almenningsálitinu gegn utanvegaakstri.
Laxfiskar ehf (Jóhannes Sturlaugsson)
Þingvallaurriðinn
1.000.000
Náttúrulífsmynd um lífshætti urriðans í Þingvallavatni. Safnað hefur verið myndefni á síðustu tíu árum um þennan merkilega fisk sem skartar sögufrægri fortíð veiðisagna og lífshátta í Þingvallavatni. Samstarfsmenn Jóhannesar líffræðings eru þeir Erlendur Guðmundsson kafari og Friðrik Þór kvikmyndagerðarmaður.
Náttúrustofa Norðausturlands
Handbók í umhverfistúlkun
1.000.000
Íslensk handbók um umhverfistúlkun, hugmyndafræði og aðferðir, þar sem lögð er áhersla á að staðfæra efnið fyrir íslenskar aðstæður. Umhverfistúlkun er ákveðin leið í leiðsögn um náttúruna. Þar er mikil áhersla á að skynja og njóta. Viðurkennd og mikið notuð aðferð meðal landvarða. Umsjón með verkinu hefur Sigþrúður Stella Jóhannsdóttir fyrrum þjóðgarðsvörður.
Teiknistofan Eik, Fjórðungssamband Vestfirðinga og Háskólasetur Vestfjarða
Nýtingaráætlun fyrir strandsvæði Vestfjarða
1.000.000
Verkefnið felst í að gera samþætta nýtingaráætlun fyrir strandsvæði Vestfjarða og stuðla þannig að sjálfbærri nýtingu til hagsbóta fyrir samfélag, efnahagslíf og umhverfi. Nýtingaráætlun mun, til skemmri og lengri tíma litið, efla sérstöðu svæðisins, samfélags- og umhverfisvitund íbúa og möguleika á samstarfi fyrirtækja og íbúa.
Goðsögn - kvikmyndagerð (Steingrímur Þórðarson og Lind Einarsdóttir)
Krækiberjablús
2.000.000
Heimildarmynd um hvernig nýta megi betur í matargerð og til gleði það sem náttúran gefur okkur. Horft verður á náttúru Íslands með augum sælkerans. Mikið verður lagt upp úr fallegri myndatöku og náttúran mun leika stórt hlutverk í myndinni.
Norræna húsið
Endurbætur á friðlandinu í Vatnsmýrinni
2.000.000
Ætlunin er að tryggja Tjarnarfuglum örugg varplönd og endurheimta líffræðilegan fjölbreytileika á svæðinu. Endurbætur munu byggja á vísindalegum rannsóknum og miðla á þekkingu til almennings. Háskóli Íslands og Reykjavíkurborg munu taka höndum saman um verkefnið með Norræna húsinu.
Vanda Sigurgeirsdóttir
Börn og náttúra
2.000.000
Doktorsrannsókn við Félagsvísindasvið HÍ þar sem markmiðið er að gera umfangsmikla rannsókn sem snýr að sambandi barna á Íslandi við náttúruna. Í kjölfar rannsóknar er ætlunin að miðla þekkingu og þar verður eitt af markmiðunum að hvetja fjölskyldur til að vera meira úti í náttúrunni.
Daníel Bergmann
Fálkinn á Íslandi
2.000.000
Bók um fálkann í íslenskri náttúru, samspil hans við rjúpuna og samskipti manna og fálka í gegnum tíðina. Markmiðið er að veita innsýn í líf og umhverfi fálkans á Íslandi, hvetja til verndunar búsvæða hans og til sjálfbærrar nýtingar rjúpnastofnsins. Bókin sýnir myndir og ritgerðir Daníels Bergmanns ásamt kafla Ólafs K. Nielsen fuglafræðings um líf- og vistfræði fálkans.
Birt:
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir „Úthlutað úr Náttúruverndarsjóði Pálma Jónssonar 2010“, Náttúran.is: 18. júní 2010 URL: http://nature.is/d/2010/06/18/uthlutad-ur-natturuverndarsjodi-palma-jonssonar-20/ [Skoðað:21. desember 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: 4. júlí 2010