Rabarbari, þurrkaður
Sé mikil rabarbarauppskera og ílát takmörkuð til geymslu á rabarbaranum, er heppileg aðferð að þurrka hann. Einnig kemur það sér vel, að minni sykur þarf í þurrkaðan rabarbara en nýjan, þegar hann er matbúinn. Best er að þurrka rabarbarann um hásumarið.
Rabarbarinn er þveginn, þerraður, ekki flysjaður. Skorinn í 10 cm. langa bita, sé leggurinn gildur, er hann skorinn í 2-4 ræmur eftir endilöngu.
Bitarnir eru dregnir á nál upp á soðinn seglspotta, sem gjarna má vera 3-4 metrar. Spottinn hengdur upp eins og þvottasnúra. Gæta verður þess, að ekki rigni á kippuna, og rétt er að taka hann inn á nóttunni. Sé votviðrasamt er heppilegt að þurrka rabarbarann í hjalli.
Einnig má þurrka rabarbarann með því að breiða hann út á lín eða pappír í sól og vindi. Rabarbarinn er þurrkaður þangað til hann er vel jafn og þur og skorpinn saman. Geymdur í búri í nokkra daga.
Deigni hann ekki, er hann settur í þunnan línpoka og hengdur upp á loft. Rabarbarinn má ekki geymast í raka. Þannig hefi ég geymt rabarbara í tvö ár og álít ég að það megi geyma hann þannig um ótakmarkaðan tíma.
Þegar hann er notaður, er hann lagður í bleyti kvöldið áður. Notaður í súpu og grauta.
Úr Grænmeti og ber allt árið eftir Helgu Sigurðardóttur. Ljósmyndir: Guðrún Tryggvadóttir
Birt:
Tilvitnun:
Helga Sigurðardóttir „Rabarbari, þurrkaður“, Náttúran.is: 26. júlí 2015 URL: http://nature.is/d/2010/05/30/rabarbari-thurrkadur/ [Skoðað:21. janúar 2025]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 30. maí 2010
breytt: 26. júlí 2015