Nýársávarp forsteta Íslands herra Ólafs Ragnars Grímssonar (sjá ávarpið) snerist að þessu sinni í kjarna sínum, auk fjölskylduaðstæðna vegna langs vinnudags og fátæktar, um umhverfismál og þá sérstaklega hlutverk Íslands á sviði orkumála.

Forsetinn vill sjá Ísland sem miðstöð tækniþróunar til að sporna við hlýnun jarðar af völdum loftslagsbreytinga sem allir viðurkenna nú að stafi af koltvísýringslosun jarðarbúa. Á Íslandi eigi vísindamenn, frumkvöðlar og fjárfestar hvaðan að úr heiminum að geti komið saman á óháðum grundvelli, í landi sem stendur hvað fremst á sviði „sjálfærrar nýtingu orkulinda“.

Umhverfissinnar hljóta að fagna þessari boðun forsetans sem reyndar hefur verið ljós nú um nokkurt skeið. En jafnframt hljóta þeir að spyrja sig hvað það þýði fyrir baráttuna hér heima fyrir jafnvægi á sviði virkjanaframkvæmda og áhrifa þessara sömu „sjálfbæru virkjana“ og óafturkræfu áhrifin á heilu landsvæðin, hreinu náttúruna sem við státum af og auðvitað allt sem því fylgir, s.s. spúandi álbræðslur, masturslagningar ofanjarðar og þar af leiðandi aukningu okkar eigin koltvísýringslosunar. -

Nokkuð hefur borið á áhyggjum af því að fyrirtæki eins og Orkuveita Reykjavíkur, sem forsetinn nefndi oft í ræðu sinni sem fyrirmyndarfyrirtæki á sviði sjálfbærrar orkuvirkjunar fari offari í framkvæmdagleðinni sem síðan íti undir enn frekari álbræðluframkvæmdir með tilheyrandi þenslu og ójafnvægi í okkar litla landi. Auðvitað eru líka merki þess að umhverfisstefna OR sé raunverulega að verða stórhuga og metnaðarfull á svið umhverfisvæni enda hafi víðtæk óánægja með laumuverkefnið á Hellisheiðinni leitt til þess að forsvarsmenn fyrirtækisins hlusti nú frekar á gagnrýnina og muni taka mið af henni í framtíðinni. Ekki heyrði Grasagudda forsetann minnast einu orði á Landsvirkjun í þessu sambandi. Kannski eru fallvatnsvirkjanir „out“ og ekki sú fyrirmynd sem passar inn í þá mynd sem dregin er upp af Íslandi í þessu ákveðna alþjóðlegu samhengi sem forsetinn talar nú um.

Fullyrðing forsetans um að „æ fleiri sækist eftir samvinnu við Íslendinga“ á einnig við um þá álrisa sem hingað vilja koma til að versla rafmagn á verði sem að við íslendingar fáum sjálfir ekki einu sinni að vita hvert er. Það hefur því margar hliðar að laða að sér erlenda „samvinnuaðila“ og við megum ekki halda að það sé allt af hinu góða fyrir náttúru okkar og  umhverfi í heildina séð þegar upp er staðið.

Virkt lýðræði, gagnrýni þegar hún á við og sívakandi Íslendingar er það aðhald sem þarf til að metnaður einstakra stjórnmálamanna og fyrirtækja fari ekki úr böndunum, og Ísland geti raunverulega orðið sú miðstöð sem forsetinn vill að þróist hér á landi.

Gleðilegt og umhverfisvænt ár!

Birt:
1. janúar 2007
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir „Enginn getur lengur setið hjá!“, Náttúran.is: 1. janúar 2007 URL: http://nature.is/d/2007/03/16/nyarsavarp/ [Skoðað:21. desember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 16. mars 2007
breytt: 30. apríl 2007

Skilaboð: