Samningar í Kaupmannahöfn eru nú á hástigi – “high level segment” á máli Sameinuðu þjóðanna. Að þessu sinni eru það þjóðhöfðingarnir sjálfir – í fyrsta skipti – sem stýra viðræðum. Ekki umhverfisráðherrar eins og venjan er. Alls eru 130 þjóðhöfðingar eru komnir til Kaupmannahafnar eða á leið hingað. Samtals eiga 193 ríki með samninganefndir hér í Kaupmannahöfn.

Í morgun sagði Danmarks Radio að danski forsætisráðherrann hefði gefist upp á að ná samkomulagi um heildstæðan samning. Stuttu síðar hafði danska útvarpið eftir hátt settum embættismanni, að danska sendinefndin hefði ekki gefist upp á að ná samningi. Heldur haf ætlunin verið að þrýsta á aðildarríkin að koma sér að samningsborðinu á ný .

Stóru ágreiningsmálin snúast um hversu mikið iðnríkin skuli draga úr útstreymi gróðurhúsalofttegunda og fjármögnun aðgerða í þriðja heiminum.

ESB-ríkin (Ísland flokkast nú með þeim) Japan og Noregur hafa sýnt á spilin en ESB hefur þó einungis boðið 20% samdrátt fyrir 2020 miðað við 1990 en sagt sig reiðubúið til að fara niður í 30% ef önnur ríki leggi sitt af mörkum. ESB geymir það tromp í erminni að lækka sig í 30% en Angela Merkel ku standa gegn því þar til Bandaríkjastjórn bjóði betur en 4% samdrátt.

Japan býður – 25% og Norgur - 40% miðað við sama tímabil.

Kröfur eru uppi um að stóru þróunarríkin, Kína, Indland, Suður Afríka og Brasilía dragi úr losun hlutfallslega. Þ.e.a.s. aukningin í losun verði nokkuð minni en aukning í þjóðarframleiðslu. Tilboð Kína er 10% hlutfallsleg lækkun. Það þykir ekki nóg í Berlín, London, París, Tokþó og Washington. Suður Afríka og Brasilía hafa teygt sig lengra en Kína.

Fátæk þróunarríki krefjast þess að samningar miðist við að hitastig Jarðar hækki ekki meira en 1,5 gráður á Celsíus að meðaltali við upphaf iðnbyltingar en á það fallast iðnríkin og stóru þróunarríkin ekki. Vísindarannsóknir sýna að meðalhitinn megi ekki fara yfir 2 gráður að meðaltali ef koma á veg fyrir stjórnlausar loftslagsbreytingar.

Þau loforð sem iðnríkin hafa gefið - fram að þessu - um samdrátt í útstreymi gróðurhúsalofttegunda duga hvergi nærri til að koma í veg fyrir að hitastig hækki um meira en 2 gráður að meðaltali.

Fjárhagslegur stuðningur við þróunarríki:

Allt frá því að Rammasamningur Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbereytingar var samþykktur í Ríó árið 1992 hefur legið fyrir loforð iðnríkjanna (38 að tölu ef Bandaríkin eru talin með) um að þau muni veita þróunarríkjunum fjárhagslega aðstoð við að takast á við loftslagsbreytingar. Það er:

Aðstoð við þróunarríki til að aðlagast breyttu loftslagi, sem bitnar verst á fátækum þjóðum. Neyðaraðstoð upp á 10 milljarða dollara verður líklega samþykkt hér fyrir næstu 3 ár.

Mikill ágreininur er um langtímafjármögnun til að þróunarriki geti nýtt sér hreina orkugjafa og þróast með sjálfbærum hætti.

Í gær lofaði Japan 15 milljörðum bandaríkjadala í neyðaraðstoð vegna loftslagsbreytinga, sem er tvöfalt hærri upphæð en ESB hefur lofað. Á blaðamannafundi í morgun lýsti Hillary Clinton, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, yfir stuðningi Bandaríkjanna við að 100 milljörðum dollara verði veitt árlega frá og með árinu 2020, þ.e.a.s. ef samningar nást.

Birt:
17. desember 2009
Höfundur:
Árni Finnsson
Tilvitnun:
Árni Finnsson „Enn er von til að samningar náist í Kaupmannahöfn “, Náttúran.is: 17. desember 2009 URL: http://nature.is/d/2009/12/17/enn-er-von-til-ao-samningar-naist-i-kaupmannahofn/ [Skoðað:21. janúar 2025]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: