Í sátt við umhverfið
Úr stefnuyfirlýsingu nýrrar ríkisstjórnar Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks, lagt fram þ. 23.05.2007:
Titill kafla: „Í sátt við umhverfið“.Ríkisstjórnin einsetur sér að Ísland verði í fararbroddi þjóða heims í umhverfismálum. Íslensk stjórnvöld, fyrirtæki og menntastofnanir eru í einstakri stöðu til þess að láta til sín taka á alþjóðavettvangi í baráttu gegn mengun og sóun náttúruauðlinda. Ríkisstjórnin stefnir að því að ná víðtækri sátt um verndun verðmætra náttúrusvæða landsins og gera skýra áætlun um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda. Ríkisstjórnin hyggst efla skógrækt og landgræðslu meðal annars í þeim tilgangi að binda kolefni í andrúmsloftinu. Einnig verði skipulega unnið að aukinni notkun vistvænna ökutækja, m.a. með því að beita hagrænum hvötum.
Til að skapa sátt um vernd og nýtingu náttúrusvæða er mikilvægt að ljúka rannsóknum á verndargildi þeirra og gildi annarrar nýtingar. Sérstök áhersla verði lögð á að meta verndargildi háhitasvæða landsins og flokka þau með tilliti til verndar og orkunýtingar. Stefnt verður að því að ljúka vinnu við rammaáætlun fyrir lok árs 2009 og leggja niðurstöðuna fyrir Alþingi til formlegrar afgreiðslu. Þar til sú niðurstaða er fengin verði ekki farið inn á óröskuð svæði án samþykkis Alþingis, nema rannsóknar- eða nýtingarleyfi liggi fyrir.
Nokkur svæði, sem talin eru mikilvæg út frá verndunarsjónarmiðum af stofnunum umhverfisráðuneytisins, verði undanskilin nýtingu og jarðrask þar óheimilt þar til framtíðarflokkun hefur farið fram í samræmi við staðfestar niðurstöður hinnar endurskoðuðu rammaáætlunar. Slík svæði eru Askja, Brennisteinsfjöll, Hveravellir, Kerlingafjöll, Kverkfjöll og Torfajökull. Vatnasviði Jökulsár á Fjöllum verði bætt við Vatnajökulsþjóðgarðinn og tryggt að ekki verði snert við Langasjó í virkjanaskyni. Stækkun friðlandsins í Þjórsárverum verði tryggð þannig að það nái yfir hið sérstaka votlendi veranna.
Grafík: Signý Kolbeinsdóttir. ©Náttúran.is.
Birt:
Tilvitnun:
Ríkisstjórn Íslands „Í sátt við umhverfið“, Náttúran.is: 23. maí 2007 URL: http://nature.is/d/2007/05/23/stt-vi-umhverfi/ [Skoðað:15. janúar 2025]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: 24. maí 2007