Í vikunni hleypti sænski bílaframleiðandinn Volvo af stað viðamiklu verkefni sem er ætlað að vekja athygli á hvernig sé hægt að hafa jákvæð áhrif á umhverfi okkar allra.

Um er að ræða keppni þar sem sýndarakstur á Volvo C30 DRIVe umhverfis heiminn á 80 dögum fer fram og er ætlunin sú að kynna fólk fyrir hinum nýja bíl sem er mikilvægt visthæft skref Volvo og vekja fólk til umhugsunar um CO2 útblástur. Aksturinn fer eingöngu fram á veraldarvefnum , nánar tiltekið á Facebook, en þar munu Facebook vinir geta ekið bílnum í sýndarheimum og mun vinningsliðið hljóta 15 þúsund evrur sem það getur notað til að styrkja kolefnisjöfnunar verkefni hjá „myclimate“ samtökunum.

Markmiðið er að aka hinum sparneytna og umhverfismilda Volvo C30 DRIVe umhverfis heiminn með hjálp netverks Facebook. Volvo C30 DRIVe eyðir afar litlu eða aðeins 3,8 lítrum á hundraðið sem þýðir að bíllinn hefur mikla langdrægni og kemst því 1320 kílómetra á tankfylli. Þetta þýðir í raun að hver vinur á Facebook ekur 1320 kílómetra í sýndarakstri áður en hann lætur næsta Facebook vin taka við. Keppninni er svo lokið þegar bíllinn er aftur komin á upphafspunkt. Lið geta valið sér mismunandi leiðir í kringum heiminn og mun verða hægt að fylgjast með þeim á heimasíðu Volvo á Facebook.

Keppnin hófst í vikunni og mun standa fram til 5. febrúar og hægt er að skrá sig til þátttöku á www.facebook.com/volvo eða með því að skrá sig beint í keppnina á apps.facebook.com/drivearoundtheworld.

Sigurlaunin eru sem áður segir styrkur frá Volvo sem sigurliðið getur ráðstafað til eins af verkefnum myclimate samtakanna sem vinna að því að draga úr gróðurhúsaáhrifum. Samtökin starfa eftir svokölluðum gull-staðli Sameinuðu Þjóðanna en samtök eins og World Wildlife Fund og Greenpeace hafa tekið þátt í þróun staðalsins.

Framlag Volvo er nóg til að kolefnisjafna allt það magn af CO2 sem ein manneskja ber ábyrgð á yfir ævina. Því til viðbótar mun Volvo leggja fram fé sem jafnast á við kolefnisjöfnun 99 g/km CO2 fyrir hvern þátttakanda í keppninni, en 99 g/km er einmitt CO2 losun hins visthæfa Volvo C30 DRIVe.

Samfélagstilraun

Facebook hefur í það minnsta 150 milljón notendur og hefur síðan notið mikilla vinsælda á Íslandi enda eru um 50% þjóðarinnar notendur Facebook. Það má því segja að verkefni Volvo sé einskonar samfélagstilraun því það mun reyna mjög mikið á hve gott tengslanetið á Facebook raunverulega er.

Tilraunin er liður í nýrri sókn Volvo: „There‘s More To Life Than A Volvo, that‘s why you drive one“ sem á okkar ylhþra myndi hljóma eitthvað á þessa leið: Lífið hefur meira til að bera en bara Volvo, en það er einmitt þess vegna sem þú ekur Volvo!“ Þar er horft til lífsstíls Volvo eiganda, þ.e. að eiga Volvo er vísbending um að lífið hafi upp á margt að bjóða hjá viðkomandi og þess vegna verði Volvo fyrir valinu sem fjölskyldubíll.

Það eru nefnilega persónuleg tengsl, eins og þau sem geta skapast á Facebook, sem eru lykilatriði í því að glíma við vandamál nútímans. Aðeins með því að nýta þessi tengsl er hægt að gera heiminn að betri stað.
Þegar keppninni á Facebook lýkur ætti að vera ljóst hverjir eru raunverulega best tengdir í heiminum.

Birt:
18. nóvember 2009
Höfundur:
Tilvitnun:
NA „Volvo virkjar netverkið á Facebook vegna kolefnisjöfnunar verkefnis“, Náttúran.is: 18. nóvember 2009 URL: http://nature.is/d/2009/11/18/volvo-virkjar-netverkio-facebook-vegna-kolefnisjof/ [Skoðað:22. janúar 2025]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: