Manstu þegar þú fékkst heitt slátur með kartöflum, rófustöppu og uppstúf hjá ömmu og afa í gamla daga? Langar þig að endurskapa slíka stund en fallast þér hendur við hugmyndina um sláturgerð? Örvæntu ekki. Fylgdu þessum leiðbeiningum Hólmfríðar Helgu Sigurðardóttur og þú munt áreynslulaust skapa þér þjóðlegan sess í sætum minningum þinna eigin afkomenda.

1. Á sláturmarkaðnum
Það fyrsta sem þú þarft að gera er að bregða þér út í næsta sláturmarkað, til dæmis hjá Hagkaupum eða í Nóatúni. Eitt slátur inniheldur eina lifur, tvö nýru, eitt hjarta, einn sviðahaus, einn poka af lambamör, eina vömb og lambablóð. Þetta er ýmist hægt að kaupa frosið eða ferskt. Ef nokkrir eru saman um sláturgerðina tekur því varla að taka minna en fimm slátur. Úr þeim fást um það bil 25 keppir.

2. Gert að vömbum
Þegar heim er komið hefst undirbúningur. Gott er að byrja á því að skella vömbunum ofan í kalt vatn. Þær þarf að hreinsa. Gott er að skafa þær létt að innanverðu, en þess þarf þó að gæta að þynna þær ekki um of. Hverri vömb er svo skipt upp í fjóra til fimm hluta. Því næst eru þær saumaðar saman með grófu spori. Skilja þarf eftir nógu stórt gat til að hægt sé að troða í þær.

3. Mörinn skorinn
Hefjist þá handa við að hakka mörinn. Það er gott að hafa hann í um það bil eins sentímetra þykkum bitum. Stundum eru dökkir fitukirtlar í mörnum. Þá þarf að skera frá.

4. Lifrin hökkuð
Þá er komið að lifrinni. Hún er hreinsuð og allar himnur skornar í burtu. Þá er hún skorin í bita og sett í gegnum hakkavélina. Sumir láta hana renna tvisvar í gegn.

Nú getur þú byrjað að útbúa blöndurnar. Ef þú ætlar að úbúa bæði blómör og lifrapylsu þarftu að hafa þetta við höndina:

  • lifur
  • nýmjölk
  • haframjöl
  • rúgmjöl
  • mör
  • gróft salt
  • blóð
  • vatn

5. Öllu blandað saman
Þú færð þér stóran pott, eða bala eftir magni, skellir öllum efnunum í og hrærir vel. Gott er að byrja á lifrinni / vatnsblönduðu blóðinu, bæta svo við þurrefnum og enda á mörnum. Blandan er tilbúin þegar sleif getur staðið í henni.

Lifrarpylsa
1 lifur
2 nýru - má sleppa
1/2 líter nýmjólk
100 g haframjöl
100 g hveiti
250 g rúgmjöl
500 g mör
1 msk. gróft salt

Blóðmör
1 líter blóð
1/2 líter vatn
400 g haframjöl
800 g rúgmjöl
500 g mör
2-3 msk. gróft salt

6. Troðið í keppi
Þá er komið að því að troða í keppinn. Gættu þess að fylla hann ekki meira en rúmlega til hálfs. Ef keppurinn er of fullur getur hann sprungið við suðu. Þegar búið er að fylla hann er saumað fyrir með sláturgarni. Að lokum eru nokkur göt stungin í keppinn með nálinni eða gaffli.

7. Slátrið tilbúið
Lokaskrefið er að sjóða slátrið í tvo og hálfan tíma og útbúa á meðan meðlæti á borð við soðnar kartöflur, rófustöppu og uppstúf. Ef þú hefur ekki lyst á að snæða slátur strax að loknu þessu umstangi er best að láta hvern kepp í frystipoka og beint í frysti. Þeir þjóðlegustu sjóða hluta af slátrinu og setja það í súr sem þeir snæða svo með bestu lyst á þorranum.

Grafík: Slátur og lifrapylsa, Signý Kolbeinsdóttir.

Birt:
6. október 2014
Höfundur:
Fréttablaðið
Tilvitnun:
Fréttablaðið „Sláturgerð skref fyrir skref“, Náttúran.is: 6. október 2014 URL: http://nature.is/d/2011/10/17/slaturgerd-skref-fyrir-skref/ [Skoðað:4. desember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 17. október 2011
breytt: 7. október 2014

Skilaboð: