Hvítabjörn nærri Hrauni á Skaga
Fullyrt er að hvítabjörn sé á ferli í æðarvarpi í um 300 metra fjarlægð frá bænum Hrauni á Skaga. 10 ára dóttir hjónanna á Hrauni sá fyrst til bjarndýrsins þegar hún elti hund sinn út að æðarvarpinu um klukkan hálf eitt í dag. Foreldrar hennar létu lögreglu vita. Björninn er sagður svipaður að stærð og sá sem gekk á land á þessum slóðum fyrir um tveimur vikum. Lögreglan hefur lokað veginum um svæðið og hefur beðið fólk um að vera ekki á ferð um svæðið.
Helgi Páll Jónsson, hjá Náttúrufræðistofa Norðurlands vestra, segir bjarndýrið vera rólegt, það liggi í gjótu í litlu klettabelti í fjörunni nærri bænum Hrauni.
Nú bíði menn bara eftir skilaboðum frá yfirvöldum um hvað skuli gera við bjarndýrið.
Þórunn Sveinbjarnardóttir, umhverfisráðherra, er erlendis og hefur ekki náðst í hana. Halldór Runólfsson, yfirdýralæknir, segir að hvorki hafi verið haft samband við sig né aðra dýralækna.
Hann segir að menn hafi meiri stjórn á aðstæðum nú en fyrir tveimur vikum þegar hvítabjörn gekk síðast á land. Betri tími gefist líka til þess að taka ákvörðun um hvað gera skuli við bjarndýrið. Ekki hafi verið annar kostur í stöðunni en að skjóta hitt dýrið. Halldór segir að hægt sé að svæfa dýrið en málið sé ekki svo einfalt. Ekki sé nóg að deyfa dýrið og taka síðan ákvörðun um hvað gera eigi við dýrið. Halldór segir að það taki nokkra daga að koma bjarndýrinu til Grænlands og fá að sleppa því þar. Möguleikinn á því hafi ekki verið kannaður þar sem enginn hafi búist við að annar ísbjörn gengi á land svo skömmu á eftir hinu.
Hvítabjörninn sem koma á land í Skagafirði fyrir tveimur vikum. Mynd af RÚV.Birt:
Tilvitnun:
Ríkisútvarpið „Hvítabjörn nærri Hrauni á Skaga“, Náttúran.is: 16. júní 2008 URL: http://nature.is/d/2008/06/16/hvitabjorn-naerri-hrauni-skaga/ [Skoðað:21. nóvember 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: 23. júlí 2008