Bílaframleiðendurnir Volvo og Scania hafa tekið upp samstarf við nýsköpunarfyrirtækið Ranotor um þróun gufuvéla fyrir bíla. Fyrst um sinn er ætlunin að nýta gufuvélarnar sem hjálparvélar með hefðbundnum bensín- eða díselvélum. Á tæknimáli er þetta kallað „BC-Hybrid“, þar sem „BC“ er skammstöfun fyrir „Bottoming-Cycle“. Gufuvélin er þá staðsett fyrir aftan aðalvélina og ný tir sér þá orku sem annars myndi tapast út um púströrið. Með þessu móti er hægt að notast við minni bensín- eða díselvél en ella, án þess að krafturinn minnki. Vonir standa til að með þessu móti megi minnka eldsneytisnotkun þyngstu farartækjanna um allt að 20%. Framhald verkefnisins ræðst að nokkru af því hvernig gengur að útvega fjármagn til áframhaldandi þróunar, en ef allt gengur að óskum gæti þessi tækni verið orðin útbreidd í bílum eftir 5-7 ár, að mati sérfræðinga Volvo. Umrædd tækni á ekkert skylt við gufuvélar 19. aldarinnar. Hún er samt ekki ný af nálinni, því að verkfræðingurinn Ole Platell hefur unnið að þróun hennar a.m.k. síðustu 40 ár.
Lesið frétt Miljörapporten í gær Orð dagsins birtast einnig á vef Staðardagskrá 21 á Íslandi samband.is/dagskra21.
Birt:
31. janúar 2008
Höfundur:
Stefán Gíslason
Tilvitnun:
Stefán Gíslason „Orð dagsins 31. janúar 2008“, Náttúran.is: 31. janúar 2008 URL: http://nature.is/d/2008/01/31/oro-dagsins-31-januar-2008/ [Skoðað:29. mars 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: