Vatnavinir kynna tólf vestfirska baðstaði
Vatnavinir eru ímyndarverkefni á landsvísu en ákveðið var að hefja verkefnið á Vestfjörðum og myndaður var klasi um það síðast liðið vor. Hópurinn kallar sig Vatnavini Vestfjarða og samanstendur af landeigendum, ferðaþjónum, arkitektum og öðrum áhugamönnum sem sameinast í því að þróa vestfirskt aðdráttarafl tengt vatni. Vatnavinir Vestfjarða ætla að flagga vestfirskum náttúruperlum og leyfa þannig ferðamönnum að upplifa þær og menningu svæðisins í gegnum náttúrulaugar og vellíðunarþjónustu sem hópurinn mun þróa næstu árin.
Vestfirðir einkennast af fjölda heitra náttúrulauga og hafa umsjónarmenn þeirra sameinast um að nýta þær á sjálfbæran hátt, með það að markmiði að Vestfirðir verði til fyrirmyndar á landsvísu hvað varðar uppbyggingu á heilsutengdri ferðaþjónustu.
Þema hópsins er heitt og kalt vatn. Sjór, vatn og jarðvarmi hafa mikið aðdráttarafl fyrir ferðamenn sem njóta þess að slaka á í heitum laugum og ferðast um í leit að nýrri og ógleymanlegri upplifun. Markmið verkefnisins er að þróa náttúruvæna ferðaþjónustu og gera náttúruperlur okkar Vestfirðinga sýnilegri. Í verkefninu er áhersla lögð á að framkvæmdir í kringum heilsulindir, baðstaði og náttúrulaugar séu vandaðar og vel skipulagðar. Reynt verður að ljúka nauðsynlegustu framkvæmdum fyrir næsta sumar á útvöldum stöðum, sem allar falla að langtíma framtíðarsýn heilsutengdrar ferðaþjónustu á Vestfjörðum.
Verkefnið er fjórskipt eftir svæðum. Svæðin eru sunnanverðir Vestfirðir, Strandir, Ísafjarðardjúp og Reykhólasveit. Mikilvægt er að hlúa að séreinkennum hvers svæðis fyrir sig. Í markaðssetningu verður áhersla lögð á sérstöðu hvers svæðis og stuðlað að því að fá ferðamenn til að heimsækja öll svæðin. Um er að ræða fyrstu skrefin til frekari uppbyggingar á næstu árum með áherslu á fjölgun ferðamanna á þeim baðstöðum sem þegar eru til en hafa fram að þessu lítið verið kynntir innanlands og utan.
Vatnavinir Vestfjarða ætla ekki aðeins að hvetja fólk til að nýta náttúrulaugarnar á Vestfjörðum heldur ætlar hópurinn að þróa hágæða heilsuferðaþjónustu með framtíðarsýn um uppbyggingu stærri heilsulinda á 1-2 stöðum og verður grunnur lagður að þeirri þróunarvinnu með verkefninu. Um er að ræða langtímaverkefni sem mun krefjast þolinmæði, fjármagns og viljafestu margra til að verða að veruleika.
Anna G. Sverrisdóttir er vatnavinur og ferðamálaráðgjafi og segir hún verkefnið stuðla að því að nýting á heita vatninu fyrir ferðamenn verði meiri og markvissari í því skyni að styrkja Ísland sem ferðamannaland og ekki síst heilsuland. Þannig megi styrkja ferðamennskuna um allt land og skapa sérstöðu á ákveðnum svæðum. Arkítektar, iðnhönnuðir og aðrir sem að verkefninu koma hafa unnið tillögur fyrir baðstaðina tólf sem kynntir voru á þinginu, en þeir eru: Heitu pottarnir á Drangsnesi, Gvendarlaug í Bjarnarfirði, Krossneslaug við Norðurfjörð, Laugaland og Reykjanes við Ísa fjarð ardjúp, Galtarhryggslaug í Heydal, Reykjarfjarðarlaug í Reykjar firði syðri, Krossholtalaug á Birki mel, Hellulaug í Flókalundi, Djúpa dalslaug í Djúpadal og Þaraböðin á Reykhólum. Auk þess kemur Villimey að verkefninu með vöruþróun varðandi jurtaböð og slíkt. Á tíu af þessum stöðum er þegar starfsemi en uppbygging að hefjast á þeim síðasttalda. Anna sagði að til stæði að styrkja það sem fyrir er, en leggja svolítið meira í það og gera það heildstæðara og skapa hverjum stað sérstöðu, þannig að upplifunin verði sú að hver staður sé sérstakur. Anna sagðist að lokum vilja hrósa góðu starfi Atvinnuþróunarfélags Vestfjarða við verkefnið og þá ekki síst góðu samstarfi við verkefnisstjórann, Viktoríu Rán Ólafsdóttur.
Afrakstur umfangsmikillar hugmynda- og undirbúningsvinnu fyrir verkefnið var kynntur á vinnuþingi í Bjarnarfirði núna í nóvember. Á þinginu var rætt um verkefnið frá ýmsum hliðum og endað á því að móta framtíð þessa viðamikla klasa. Meðal þess sem fram fór á vinnuþinginu var opnun heimasíðunnar vatnavinir.is. Þá voru baðstaðirnir tólf á Vestfjörðum kynntir, staða þeirra í dag og möguleikar til framtíðar. Undirbúningi á vegum Atvinnuþróunarfélags Vestfjarða og Vatnavina er lokið og verkefnið því töluvert á veg komið.
Hermann Ottósson, forstöðumaður fræðslu- og ráðgjafarsviðs hjá útflutningsráði, er meðal þeirra sem fluttu erindi og tóku þátt í starfi vinnuþingsins. Hann segir verkefnið vel á veg komið og er ánægður með árangur þingsins og þátttöku Vestfirðinga: „Ég held að það sé búið að lyfta ákveðnu grettistaki hérna. Vinna Vatnavina finnst mér vera með alveg sérstökum ágætum, það er komin hér ákveðin heildarmynd á flesta staðina sem koma til greina og verið er að vinna með áfram, sem einhvers konar laugar sem á að þróa sem baðstaði. Ég held að það sem við þurfum kannski að gera næst sé að þróa þá vöru sem á að vera á hverjum stað fyrir sig og til þess held ég að þurfi að koma nokkuð breitt lið að.“ Hermann eygir ýmsa möguleika fyrir Vestfirði í verkefninu en vill þó gjalda varhug við að farið sé of geyst í hlutina. „Ég held að Íslendingar séu búnir að fá alveg nóg af því á síðustu árum að það sé verið að vekja einhverjar falskar vonir um að hér munu evrur og dollarar detta af himnum ofan og allar laugar og kirnur og koppar á Vestfjörðum fyllast með tilkomu þessara baðstaða. Þetta er þróunarferli sem tekur ákveðinn tíma og það tekur tíma að markaðssetja hlutina og koma þeim í það horf sem fólk vill sjá, þannig að það mun ekkert afgerandi gerast í þessu máli fyrr en eftir einhver ár,“ sagði Hermann.
Mynd: Póstkort sem Vatnavinir hafa hannað og látið prenta, en á kortunum eru ljósmyndir af baðstöðunum sem í þróun eru. Efri myndin er af Djúpadalslaug en sú neðri af Hellulaug.
Sjá einnig yfirlit yfir náttúrulegar baðlaugar á Íslandi hér Græna Íslandskortinu.
Birt:
Tilvitnun:
kse „Vatnavinir kynna tólf vestfirska baðstaði“, Náttúran.is: 7. desember 2009 URL: http://nature.is/d/2009/12/07/vatnavinir-kynna-tolf-vestfirska-baostaoi/ [Skoðað:22. desember 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: 30. nóvember 2010