Heilbrigðisnefnd Reykjavíkur samþykkti í dag, 2. mars 2009, viðbragðsáætlun um loftgæði í Reykjavík. „Viðbragðsáætlunin er sett með því markmiði að draga úr þeirri hættu sem mengunarefni í andrúmslofti geta haft á borgarana og þakkar nefndin þá metnaðarfullu vinnu sem starfsfólk Umhverfis- og samgöngusviðs hefur lagt í áætlunina,“ segir í bókun nefndarmanna.

Heilbrigðisnefnd telur einnig brýnt að skapa hið fyrsta aðstæður til að unnt sé að grípa til áhrifaríkari aðgerða varðandi bílaumferð og mengun frá henni. Reykjavíkurborg er fyrsta sveitarfélagið sem samþykkir viðbragðsáætlun um loftgæði en það er skylda samkvæmt reglugerð nr. 787/1999.

Viðbragðsáætlunin lþtur að skammtímaráðstöfunum vegna loftmengunar. Aðgerðir skulu miða við að draga úr hættu sem loftmengun yfir heilsuverndarmörkum getur valdið og stytta tímann sem hún varir. Einnig er unnið að mótun langtímaáætlunar í loftgæðamálum í gegnum Stefnu og aðgerðaáætlun í loftlags- og loftgæðamálum en sú vinna er hluti af Grænum skrefum Reykjavíkurborgar.

„Þessi áætlun er mikilvæg fyrir borgarbúa bæði hvað varðar loftgæði hér og nú og ekki síst með tilliti til heilsuáhrifa til lengri tíma, segir Árný Sigurðardóttir framkvæmdastjóri Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur. „Hér er búið að skilgreina þau atriði sem möguleg eru til að grípa inn í þegar búist er við að loftgæði verði slæm þá stundina, reyndar atriði, mörg hver sem Heilbrigðiseftirlitið hefur gripið til áður en nú verið er að lista upp. Hér er líka um að ræða aðgerðir vegna ýmisar annarrar bráðamengunar en þeirrar sem er af völdum samgangna, segir hún og að sérstakt viðbragðsteymi verði skipað sem kemur með tillögur um aðgerðir hverju sinni sem Heilbrigðiseftirlitið kemur síðan til með að skoða og framfylgja eftir því sem við á.



Viðbragðsáætlunin er samþykkt með þeim fyrirvara að í sumum tilfellum þurfi að breyta lögum til að gera hana mögulega. Í áætluninni kemur fram að ástæða þykir til að svifryk, köfunarefnisdíoxíð og brennisteinsvetni séu vöktuð sérstaklega þar sem reynslan sýnir að þessi efni eru líklegri en önnur að fara yfir viðmiðunarmörk. Viðmiðunargildi loftmengandi efna finnast oft í íslenskum lögum en þó ekki í tilfelli brennisteinsvetnis og er því miðað við leiðbeinandi mörk frá Alþjóðaheilbrigðisstofnuninni og lyktarmörk frá Kaliforníu.

„Okkur fannst rétt að taka viðmið er varða brennisteinsvetni inn í áætlunina þó svo að skilgreind viðmið séu ekki til staðar þar sem borið hefur á því að brennisteinsvetni hafi haft áhrif á loftgæði í borginni,“ segir Eygerður Margrétardóttir framkvæmdastýra Staðardagskrár 21 hjá Reykjavíkurborg en hún og Anna Rósa Böðvarsdóttir heilbrigðisfulltrúi hafa stýrt vinnu við mótun áætlunarinnar.

Reykjavíkurborg hefur í mörg ár gert mælingar á svifryki og nokkrum öðrum mengandi efnum og gefið út viðvaranir til almennings. „Mikilvægt er að búa yfir sem bestum aðferðum og þekkingu til að geta spáð fyrir um loftmengun og til að bregðast við henni,“ segir Árný Sigurðardóttir.

Ýmiskonar skammtímaaðgerðir til að bæta úti- og inniloft er settar fram í viðbragðsáætluninni, sem sumar þurfa lagabreytinga við.

Grafík: Menguð borg. Guðrún Tryggvadóttir og Signý Kolbeinsdóttir ©Náttúran.is.

Birt:
2. mars 2009
Höfundur:
Gunnar Hersveinn
Tilvitnun:
Gunnar Hersveinn „Aðgerðir til að draga úr hættu á loftmengun “, Náttúran.is: 2. mars 2009 URL: http://nature.is/d/2009/03/02/aogeroir-til-ao-draga-ur-haettu-loftmengun/ [Skoðað:26. desember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: 8. febrúar 2011

Skilaboð: