Framtíðarlausn í lýsingu gróðurhúsa?
Helgi Baldursson, verkefnisstjóri hjá Tækniskólanum, segir að telja megi verkefnið sérlega áhugavert í því ljósi að um þessar mundir hefur þjóðfélagsumræðan mikið snúist um hvernig hægt sé að auka atvinnutækifæri í landbúnaði og nýsköpun með hagnýtingu innlendra orkugjafa og jarðhita.
Að þessu sinni var lagt fyrir verkefni sem var ólíkt öðrum verkefnum fram til þessa. Nemendum var sem fyrr segir skipt í 4 hópa og fengu þeir frjálsar hendur með lausn verkefnisins, svo fremi sem það uppfyllti kröfulýsinguna. Hún fól í sér að hanna ætti lýsingu fyrir salatræktun í fyrirhugað nýtt gróðurhús hjá Lambhaga í Mosfellsbæ. Einn hópurinn studdist við hefðbundna lýsingu með háþrýstum natríumljósgjöfum, annar hópur lagði til lausn með ljósgjafa sem er blanda af háþrýstum natríum og metal highlight, sá þriðji studdist við plasma tækni (sulphur) sem er tiltölulega ný tegund af lampa sem m.a. geimferðastofnunin NASA hefur skoðað til þess að geta hafið framleiðslu á grænmeti úti í geimnum. Fjórði hópurinn vann með ljóstvista eða LED lýsingu. Verkefnin byggðust öll á kerfisbundinni söfnun upplýsinga af netinu m.a. með vísun í tilraunir með áðurnefnda lampa sem hafa þessa tilteknu eiginleika og hvernig unnt er að hagnýta þá við íslenskar aðstæður.
„Vísbendingarnar voru svo sláandi að væntanlega verður tafarlaust ráðist í ræktunartilraunir, í formi mælanlegrar grænmetisuppskeru, svo hægt verði að sannreyna þessar sterku vísbendingar,“ segir Helgi Baldursson.
Birt:
Tilvitnun:
Bændablaðið „Framtíðarlausn í lýsingu gróðurhúsa?“, Náttúran.is: 12. maí 2009 URL: http://nature.is/d/2009/05/12/framtioarlausn-i-lysingu-groourhusa/ [Skoðað:22. desember 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: 9. febrúar 2011