Spænsk og frönsk borg verða Grænu borgirnar í Evrópu
Spænska borgin Vitoria-Gasteiz og franska borgin Nantes verða Grænu borgirnar í Evrópu árið 2012 og 2013. Þetta var tilkynnt rétt í þessu í Stokkhólmi á alþjóðaráðstefnu um Grænar borgir í Evrópu. Reykjavíkurborg var meðal sex tilnefndra borga sem komu til greina.
Fyrir um það bil ári var ákveðið að Reykjavíkurborg leitaði eftir tilnefningunni um að vera European Green Capital eða Græna borgin í Evrópu. Fjölmargir sérfræðingar borgarinnar hafa unnið jafnt og þétt að umsókninni og hefur Umhverfis- og samgöngusvið haft umsjón með starfinu.
Sautján borgir í tólf Evrópulöndum sóttu um tilnefninguna að þessu sinni og gerðu í kjölfarið viðamiklar umsóknir. Núrnberg frá Þýskalandi, Nantes frá Frakklandi, Málmey frá Svíþjóð, Barcelóna og Vitoria-Gasteiz frá Spáni komust í undanúrslit ásamt Reykjavíkurborg. Stokkhólmur er Græna borgin í Evrópu árið 2010 og mun þýska borgin Hamborg taka við titlinum fyrir árið 2011.
Í samkeppninni um að vera Græna borgin kom Reykjavík einna best út í loftgæða- og kynningarmálum sem er góð viðurkenning. Þetta viðamikla verkefni var tilefni til að taka grænu málin saman í eina skýrslu og er um leið hvatning til að halda áfram á sömu braut.
Birt:
21. október 2010
Tilvitnun:
Gunnar Hersveinn „Spænsk og frönsk borg verða Grænu borgirnar í Evrópu“, Náttúran.is: 21. október 2010 URL: http://nature.is/d/2010/10/21/spaensk-og-fronsk-borg-verda-graenu-borgirnar-i-ev/ [Skoðað:18. desember 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: 22. október 2010