Spænsk og frönsk borg verða Grænu borgirnar í Evrópu

Fyrir um það bil ári var ákveðið að Reykjavíkurborg leitaði eftir tilnefningunni um að vera European Green Capital eða Græna borgin í Evrópu. Fjölmargir sérfræðingar borgarinnar hafa unnið jafnt og þétt að umsókninni og hefur Umhverfis- og samgöngusvið haft umsjón með starfinu.
Sautján borgir í tólf Evrópulöndum sóttu um tilnefninguna að þessu sinni og gerðu í kjölfarið viðamiklar umsóknir. Núrnberg frá Þýskalandi, Nantes frá Frakklandi, Málmey frá Svíþjóð, Barcelóna og Vitoria-Gasteiz frá Spáni komust í undanúrslit ásamt Reykjavíkurborg. Stokkhólmur er Græna borgin í Evrópu árið 2010 og mun þýska borgin Hamborg taka við titlinum fyrir árið 2011.
Í samkeppninni um að vera Græna borgin kom Reykjavík einna best út í loftgæða- og kynningarmálum sem er góð viðurkenning. Þetta viðamikla verkefni var tilefni til að taka grænu málin saman í eina skýrslu og er um leið hvatning til að halda áfram á sömu braut.
Birt:
21. október 2010
Tilvitnun:
Gunnar Hersveinn „Spænsk og frönsk borg verða Grænu borgirnar í Evrópu“, Náttúran.is: 21. október 2010 URL: http://nature.is/d/2010/10/21/spaensk-og-fronsk-borg-verda-graenu-borgirnar-i-ev/ [Skoðað:23. febrúar 2025]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: 22. október 2010