Um helgina átti sér stað merkilegur atburður þegar hópur fólks fékk að fylgjast með lífhvatagerð í Skaftholti í Þjórsárdal.

Hvatarnir eru flestir gerðir úr þurrkuðum blómum eða berki. Jurtunum er komið fyrir í innyflum, horni og hauskúpu jórturdýra sem síðan eru grafin í jörðu og látin liggja þar yfir veturinn. Minnir þetta um margt á alkemíu og fornan galdraseyð enda byggt á sama grunni - þeim að vinna með náttúrunni og efla krafta jarðarinnar með hjálp himintunglanna.

Rúdólf Steinar trúði því að til væri andleg hlið á landbúnaði (og öllu lífi) sem vísindin lfitu algerlega framhjá. Á kenningum hans byggir lífelfd (bío-dynamiskri) ræktun þar sem notaðar eru aðferðir sem ekki er auðvelt að útskýra á vísindalegan hátt. Steiner trúði því staðfastlega að hvatarnir bættu jarðveginn og gæði uppskerunnar. Þekktasta uppskrift hans er gerð á þann hátt að kýrhorn er fyllt með ferskri kúamykju og síðan grafið í jörðu yfir veturinn. Staðurinn er merktur og hornið grafið upp aftur að vori. Þá er umbreytt mykjan hrærð út í vatni og þynnt eins og siður er með hómópatísk lyf. Síðan er þessu úðað yfir garðlönd og gróður og sett í safnhauginn.

Mynd: Hér er Guðfinnur í Skaftholti að útskýra þessi fræði Rúdólfs Steiner fyrir hópnum á meðan hann treður kamillublómum nautgripagörn. Ljósmynd: Hildur Hákonardóttir.

Birt:
18. október 2010
Tilvitnun:
Hildur Hákonardóttir „Hvatar fyrir lífeflda ræktun“, Náttúran.is: 18. október 2010 URL: http://nature.is/d/2010/10/18/hvatar-fyrir-lifeflda-raektun/ [Skoðað:21. janúar 2025]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: