Félag umhverfisfræðinga á Íslandi boðar til fundar um umhverfisvernd og stjórnarskrá á Kaffi Sólon föstudaginn 15. október kl. 12:00.

Á aðalfundi Félags umhverfisfræðinga 25. september síðastliðinn var þriggja manna vinnuhópur stofnaður til að stuðla að því að umhverfis- og náttúruverndarákvæði verði sett í stjórnarskrá. Vinnuhópurinn á að hafa frumkvæði að samvinnu einstaklinga og félagasamtaka um þetta mál og er fundurinn á Sólon á föstudag fyrsta skrefið í að stuðla að slíkri samvinnu. Vinnuhópinn skipa Guðmundur Hörður Guðmundsson, María J. Gunnarsdóttir og Björn Guðbrandur Jónsson.

Aðalfundur Félags umhverfisfræðinga samþykkti einnig svolhjóðandi ályktun: ,,Aðalfundur Félags umhverfisfræðinga á Íslandi hvetur til þess að í nýrri stjórnarskrá íslenska lýðveldisins verði fjallað sérstaklega um umhverfismál. Jafnframt hvetur fundurinn almenning til að horfa til frambjóðenda til stjórnlagaþings sem hafa umhverfismál á stefnuskrá sinni.”

Gera má ráð fyrir líflegri umræðu á fundinum á föstudag um það hvernig orða eigi stjórnarskrárákvæði um umhverfismál. Auk þess verður áhugavert að heyra hvort fólk hafi áhuga á að stofna sérstakan vettvang sem hafi það að markmiði að koma umhverfisverndarákvæði í nýja stjórnarskrá. Vonandi mæta einhverjir frambjóðendur á svæðið.

Fundurinn hefst á stuttu erindi en svo verður opnað fyrir umræður.

Með von um að sjá sem flesta,

Birt:
15. október 2010
Tilvitnun:
Guðmundur Hörður Guðmundsson „Umhverfisvernd og stjórnarskrá“, Náttúran.is: 15. október 2010 URL: http://nature.is/d/2010/10/15/umhverfisvernd-og-stjornarskra/ [Skoðað:22. janúar 2025]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: