Stöðva á útbreiðslu alaskalúpínu og skógarkerfils
Hætta á dreifingu alaskalúpínu nema á skilgreindum svæðum.
Leggja á áherslu á að uppræta alaskalúpínu og skógarkerfli á hálendi og á friðlýstum svæðum.
Hætta á dreifingu alaskalúpínu í landinu nema á skilgreindum landgræðslu- og ræktunarsvæðum og í ár þarf að hefja starf við að uppræta alaskalúpínu og skógarkerfil á svæðum ofan 400 metra hæðar, í þjóðgörðum og öðrum friðlýstum svæðum. Þetta eru meðal tillagna sem Landgræðsla ríkisins og Náttúrufræðistofnun Íslands leggja fram í skýrslu sem stofnanirnar hafa skilað Svandísi Svavarsdóttur umhverfisráðherra. Tillögurnar miða að því að takmarka tjón af völdum alaskalúpínu og skógarkerfils í íslenskri náttúru en jafnframt að nýta kosti lúpínu við landgræðslu á rþrum svæðum. Í nóvember 2009 fól umhverfisráðherra Jóni Gunnari Ottóssyni, forstjóra Náttúrufræðistofnunar Íslands og Sveini Runólfssyni, landgræðslustjóra að vinna tillögurnar.
Alaskalúpína og skógarkerfill eru fyrstu dæmin um ágengar framandi plöntutegundir sem breiðast út hér á landi og ógna líffræðilegri fjölbreytni. Stofnanirnar mátu útbreiðslu plantnanna og komust að því að alaskalúpínan er orðin mjög útbreidd. Hún finnst víða á láglendi, meðal annars þar sem land er friðað, einkum þó við þéttbýli og á skógræktar- og landgræðslusvæðum. Þá finnst lúpína á allmörgum stöðum á hálendinu.
Hér á landi hafa verið litlar hömlur á innflutningi og notkun framandi tegunda eins og alaskalúpínu og skógarkerfli. Einnig hefur verið lítið um aðgerðir til að hefta útbreiðslu þeirra, með nokkrum undantekningum þó, svo sem í Skaftafelli, Hrísey og Stykkishólmi.
Meðfylgjandi eru skýrsla Náttúrufræðistofnunar Íslands og Landgræslu ríkisins, lengri fréttatilkynning.
Ljósmynd: Ung alaskalúpína, Guðrún Tryggvadóttir.
Birt:
Tilvitnun:
Umhverfisráðuneytið „Stöðva á útbreiðslu alaskalúpínu og skógarkerfils“, Náttúran.is: 9. apríl 2010 URL: http://nature.is/d/2010/04/09/stodva-utbreidslu-alaskalupinu-og-skogarkerfils/ [Skoðað:22. janúar 2025]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.