Brennisteinsvetni í Hveragerði mælist yfir mörkum WHO
Hæstu toppar brennisteinsvetnismengunar í Hveragerði fara yfir heilsuverndarviðmið Alþjóða heilbrigðismálastofnunarinnar (WHO), en sólarhringsmeðaltal er töluvert undir þeim viðmiðum. Þetta kemur fram í mælingum Umhverfisstofnunar. Engin viðmið eru til hér á landi um þessa mengun, en þau eru í vinnslu í umhverfisráðuneytinu.
Þorsteinn Jóhannsson, sérfræðingur hjá stofnuninni, segir tilgangslaust að horfa til vinnuverndarmarka í þessu sjónarmiði, en Orkuveita Reykjavíkur miðar við þau í frétt á heimasíðu sinni sem rataði í fjölmiðla um helgina. "Vinnuverndarmörkin eiga ekkert erindi í þessa umræðu," segir Þorsteinn.
Ástæðan sé sú að vinnuverndarmörk verndi ekki heilsu þeirra sem eru viðkvæmir fyrir og gilda aðeins á vinnustöðum. Þau miði jafnvel við að grípa þurfi til ryk- og gasgríma og séu oft 100 sinnum hærri en þau sem gildi fyrir almenning.
Þorsteinn segir brennisteinsvetnismengun í Reykjavík hafa aukist með tilkomu virkjana Orkuveitunnar á Hellisheiði. Fólk, sérstaklega í austurborginni, geti fundið fyrir ógleði og höfuðverkjum vegna hennar, sérstaklega í froststillum. Mælingar í Hveragerði eru ný hafnar og því ekki til samanburðartölur yfir vetrartímann.
Ljósmynd: Blásandi borhola í Hverahlíð, Guðrún Tryggvadóttir.
Birt:
Tilvitnun:
kóp „Brennisteinsvetni í Hveragerði mælist yfir mörkum WHO“, Náttúran.is: 18. nóvember 2009 URL: http://nature.is/d/2009/11/18/brennisteinsvetni-i-hverageroi-maelist-yfir-morkum/ [Skoðað:15. janúar 2025]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.