Konur ala oft á neikvæðum hugsunum. Þetta geta verið áhrif frá fjölskyldunni á uppvaxtarárunum, frá samfélaginu eða fjölmiðlum. Eitt hið áhrifamesta í þessu sambandi er þín eigin tilfinning fyrir útliti þínu, en það kemur fram í hegðunarmynstri þínu sem foreldri, í daglegum samskiptum og í vinnunni, ekki síst ef þau óbeinu skilaboð sem þú færð minna þig stöðugt á að þú eigir að vera "fullkomin". Erfiðleikar geta skapast þegar mikið er að gera og þér finnst þú misheppnuð ef þér tekst ekki að komast yfir allt sem þú hafðir ætlað þér. Að ná árangri og standa undir væntingum sem vinkona, eiginkona, móðir og vinnukraftur getur neytt þig til að gera kröfur til sjálfrar þín sem ógna bæði andlegri og líkamlegri heilsu þinni.

VERTU JÁKVÆÐ
Rannsóknir hafa leitt í ljós að það að dekra við sjálfa sig hefur sýnileg áhrif á líkamlegt heilbrigði. Heilbrigðasta fólkið virðist vera það sem er ástúðlegt, leitar eftir og veitir öðrum gleði. Jákvætt hugarástand og tilfinningar bæta sálarlífið og hafa bein áhrif á ónæmiskerfið, taugakerfið, hjarta- og æðakerfið. Að taka sér tíma til að skoða fallega hluti, hlusta á hljómfagra tónlist, finna góða lykt, njóta ljúffengs bragðs og finna hlýja snertingu, eykur vellíðan og umhyggju fyrir eigin líkama.
Þetta getur verið fyrsta skrefið sem þú þarft að taka ef þér finnst að óhollir lifnaðarhættir ógni andlegri og líkamlegri heilsu þinni. Þegar þú tekur ákvörðun um að hefjast handa við að breyta því sem þú hafðir velt fyrir þér í nokkurn tíma og uppgötvar svo hversu glaðvær þú verður og og hve vel þér líður þér heilsubótin fer að sýna sig muntu finna að þú hugsar skýrar og verður bjartsýnni. Umhyggja fyrir sjálfri sér er jákvæður áfangi og dregur úr hættu á sjúkdómum.
Þú getur ekki búist við þú fáir skínandi hörund og gljáandi hár á einni nóttu efitr að þú byrjar heilsusamlegt líferni með hollum mat og líkamsrækt. Það má samt uppörva þig með þeirri staðreynd að fyrr eða síðar færðu umbun fyrir alla næringarríka fæðu sem þú setur ofan í þig og fyrir hversu dugleg þú ert við styrktar- og þrekæfingar. Allar breytingar taka tíma.
Ef þú ákveður að ná árangri er nauðsynlegt að setja sér raunhæf markmið. Kraftaverk gerast ekki með skyndilausnum. Það er langtímamarkmið að ætla sér að léttast og viðhalda kjörþyngd. Stuðningur þjálfara á líkamsræktarstöð eða hóps sem hefur svipuð markmið hvetur þig til að ná sem bestum árangri og uppörvar þig ef þér finnst framfarirnar ekki eins og þú hafðir vonað. Einbeittu þér að því hverju þú hefur áorkað ig gættu þess að fá góðan nætursvefn og nægilega hvíld á milli æfinga.

RÆKTAÐU SJÁLFSTRAUSTIÐ
Sjálfstraust hefur ekkert með æsku eða peninga að gera, en er aðlaðandi eiginleiki sem vert er að hlynna að. Það er hægt að öðlast með því að gefa sér meiri tíma í það sem manni finnst skemmtilegt (það þarf ekki að kosta mikla peninga eða vera flókið, heldur á að veita ánægju). Ekki byggja sjálfsálitið á velþóknun eða þakklæti annarra í þinn garð, ekki finnast þú þurfa að skipa öðrum fyrir til að öðlast virðingu og ekki líta svo á að þú þurfir stöðugt að fórna þér fyrir aðra.
Að gefa sér tíma til að hugsa um sjálfa sig, til að efla sjálfstraustið hefur góð áhrif á líkamlegt heilbrigði. Ef eitthvað er sem þér finnst að þurfi að lagfæra, eins og til dæmis hár í andliti eða einhvers konar húðvandamál, þá þarftu að hafa nægilegt sjálfstraust til að leita aðstoðar fagfólks á þessu sviði.

Tekið úr bókinni Heilsubók konunnar - alfræðirit um líkama og sál.
Bókin fæst hér á Náttúrumarkaðinum.

 

Birt:
10. júlí 2007
Höfundur:
Dr. Lesley Hickin
Tilvitnun:
Dr. Lesley Hickin „Hraustlegt útlit“, Náttúran.is: 10. júlí 2007 URL: http://nature.is/d/2007/07/10/hraustlegt-tlit/ [Skoðað:22. desember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: 26. janúar 2008

Skilaboð: