Anna og Tryggvi hafa um árabil stundað gönguferðir á Hengilssvæðinu. Það er mikil útivistarperla þar sem er að finna um 100 kílómetra af göngustígum um stórbrotið landslag, merkilegar jarðmyndanir og virkjanasvæði. Þau er bæði ljósmyndarar og á sunnudaginn, 24. ágúst, verður opnuð sýning á verkum þeirra í Hellisheiðarvirkjun. Sýningin verður formlega opnuð klukkan 14:00. Það er kjörið að mæta á gönguskónum og fá sér göngutúr eftir að hafa skoðað sýningu þeirra Önnu og Tryggva en ásamt myndunum er helstu gönguleiðum á svæðinu lýst á sýningunni.

Í sýningarskrá segja þau Tryggvi Þormóðsson og Anna S. Sigurðardóttir m.a. þetta um tildrög sýningarinnar:

Hellisheiði. Þar sem við brunuðum alltaf í gegn á nálægt 100 km hraða án þess að líta til hægri eða vinstri, á leið eitthvað annað. Rákumst á göngukort af Hengilssvæðinu. Hmm, er eitthvað að sjá þarna? Heldur betur. Fyrsta gönguferðin var úr Sleggjubeinsskarði upp á Vörðu-Skeggja og til baka um Innstadal, ekki auðveld leið. Nú varð ekki aftur snúið. Hvernig voru hinar leiðirnar, þegar þessi var svona stórkostleg og spennandi, við urðum að komast að því. Og það höfum við svo sannarlega gert, sumar leiðirnar gengnar mörgum sinnum, þetta eru, jú, hátt í 10 ár. Alltaf jafn gaman, í sudda, sólskini, snjó og slyddu, hita eða nístingskulda, og ekki má gleyma rokinu. Við komum alltaf dauðþreytt heim, fæturnir búnir, en einhvernveginn endurnærð og andlega hvíld.

Þau hafa alltaf haft myndavélina með og vilja nú deila afrakstrinum með öðru áhugasömu fólki um gönguferðir og Hengilssvæðið.
Tryggvi og Anna námu ljósmyndun í Brooks Institute of Photography í Santa Barbara í Kaliforníu. Þau útskrifuðust 1983 og störfuðu við ljósmyndun í Los Angeles uns þau fluttu heim 1988 og stofnuðu Studio 76 Ljósmyndun. Síðustu árin hefur ljósmyndun þeirra sveigst meira að landslagi og gönguferðum, sem jafnframt er helsta áhugamálið.

Ljósmynd: Tryggvi Þormóðsson og Anna S. Sigurðardóttir.

Birt:
23. ágúst 2008
Tilvitnun:
Eiríkur Hjálmarsson „Ævintýri á gönguför - Ljósmyndasýning í Hellisheiðarvirkjun“, Náttúran.is: 23. ágúst 2008 URL: http://nature.is/d/2008/08/23/ljosmyndasyning-i-hellisheioarvirkjun/ [Skoðað:26. desember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: