Vaxandi áhugi á matjurtagörðum í Reykjavík
Umhverfis- og samgönguráð brást í janúar hratt við þeirri hugmynd að bæta við matjurtagörðum í borginni og vonir standa til að fjöldi garða anni eftirspurn. „Heimaræktað grænmeti er ofarlega á lista hjá fjölskyldum í Reykjavík enda uppbyggilegt og vistvænt verkefni að hugsa um matjurtagarða,“ segir Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir formaður umhverfis-og samgönguráðs Reykjavíkurborgar.
Jákvæð umræða skapaðist um matjurtagarða í kjölfar greinar Lilju Jónsdóttur læknis, forsvarsmanns Lþðheilsufélagsins og einnig vegna aukins áhuga á matjurtaklúbbum Garðyrkjufélagsins. „Þessi áhugi er tilkominn bæði vegna efnahagsástandsins en ekki síður vegna almenns áhuga á því að rækta grænmeti með fjölskyldunni,“ segir Þorbjörg Helga og að ráðið hafi því gengið á undan með góðu fordæmi og samþykkt í janúar 2009 að fjölga verulega matjurtagörðum í Reykjavík.
„Það verður gaman að fylgjast með ræktuninni í sumar í skólagörðunum og matjurtagörðunum,“ segir Þorbjörg. Nefna má að um það bil 600 garðar tilheyra skólagörðunum og stundum sameinast heilu skólabekkirnir um einn garð. Nú verður boðið upp á 200 stóra garða (100 fm) í Skammadal fyrir almenning í stað 100 áður og til viðbótar verður hægt að leigja um 100 minni garða (20 fm) í skólagörðum í borginni.
Umhverfis- og samgöngusviðs Reykjavíkurborgar leigir út matjurtagarðana til borgarbúa. Áhugasamir geta hringt í síma 411 1111 og látið skrá sig á lista með ósk um garð. Nánari upplýsingar um verð og pantanir á vef Reykjavíkurborgar.
Birt:
Tilvitnun:
Gunnar Hersveinn „Vaxandi áhugi á matjurtagörðum í Reykjavík “, Náttúran.is: 26. mars 2009 URL: http://nature.is/d/2009/03/26/vaxandi-ahugi-matjurtagoroum-i-reykjavik/ [Skoðað:24. nóvember 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.