Umhverfis- og samgönguráð brást í janúar hratt við þeirri hugmynd að bæta við matjurtagörðum í borginni og vonir standa til að fjöldi garða anni eftirspurn. „Heimaræktað grænmeti er ofarlega á lista hjá fjölskyldum í Reykjavík enda uppbyggilegt og vistvænt verkefni að hugsa um matjurtagarða,“ segir Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir formaður umhverfis-og samgönguráðs Reykjavíkurborgar.

 Jákvæð umræða skapaðist um matjurtagarða í kjölfar greinar Lilju Jónsdóttur læknis, forsvarsmanns Lþðheilsufélagsins og einnig vegna aukins áhuga á matjurtaklúbbum Garðyrkjufélagsins. „Þessi áhugi er tilkominn bæði vegna efnahagsástandsins en ekki síður vegna almenns áhuga á því að rækta grænmeti með fjölskyldunni,“ segir Þorbjörg Helga og að ráðið hafi því gengið á undan með góðu fordæmi og samþykkt í janúar 2009 að fjölga verulega matjurtagörðum í Reykjavík.

„Það verður gaman að fylgjast með ræktuninni í sumar í skólagörðunum og matjurtagörðunum,“ segir Þorbjörg. Nefna má að um það bil 600 garðar tilheyra skólagörðunum og stundum sameinast heilu skólabekkirnir um einn garð. Nú verður boðið upp á 200 stóra garða (100 fm) í Skammadal fyrir almenning í stað 100 áður og til viðbótar verður hægt að leigja um 100 minni garða (20 fm) í skólagörðum í borginni. 

Eftirspurnin er mikil og segir Þorbjörg Helga að ef hún verði meiri en framboðið verði leitað leiða til að fjölga görðum. „Næsta vetur munum við svo draga saman fram kosti og galla þessarar tilraunar til að byggja undir næstu ákvörðun um matjurtargarða í Reykjavík.“   

Umhverfis- og samgöngusviðs Reykjavíkurborgar leigir út matjurtagarðana til borgarbúa. Áhugasamir geta hringt í síma 411 1111 og látið skrá sig á lista með ósk um garð. Nánari upplýsingar um verð og pantanir á vef Reykjavíkurborgar.
Birt:
26. mars 2009
Höfundur:
Gunnar Hersveinn
Tilvitnun:
Gunnar Hersveinn „Vaxandi áhugi á matjurtagörðum í Reykjavík “, Náttúran.is: 26. mars 2009 URL: http://nature.is/d/2009/03/26/vaxandi-ahugi-matjurtagoroum-i-reykjavik/ [Skoðað:27. desember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: