Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra og Gunnar Einarsson, bæjarstjóri Garðabæjar, hafa undirritað friðlýsingar Gálgahrauns í Garðabæ og Skerjafjarðar innan lögsögu Garðabæjar.

Markmiðið með friðlýsingu Gálgahrauns er að vernda nyrsta hluta Búrfellshrauns, þann hluta hraunsins sem runnið hefur í sjó fram, bæði vegna jarðmyndana og lífríkis. Verndargildi hraunsins byggir m.a. á því að Gálgahraunið er að mestu ósnortið á þessu svæði. Þar sem hraunjaðarinn nær í sjó fram hefur rofmáttur úthafsöldunnar verið lítill í innvíkunum Arnarnesvogi og Lambhúsatjörn og er hraunið því að mestu eins og þegar það rann. Forsendur friðlýsingarinnar eru jarðmyndanir, gróðurfar, fuglalíf og menningarminjar, en í hrauninu er m.a. forn gata, Fógetagata, og forn aftökustaður, Gálgaklettur, sem hraunið dregur nafn sitt af. Markmið friðlýsingarinnar er jafnframt að varðveita Gálgahraun sem vettvang náttúruskoðunar og fræðslu um ókomna tíð.

Markmið með friðlýsingu Skerjafjarðar innan lögsögu Garðabæjar er að vernda lífríki á strönd, í fjöru og grunnsævi fjarðarins. Einnig að vernda útivistar- og fræðslugildi svæðisins sem felst í auðugu lífríki og möguleikum til útivistar við ströndina. Skerjafjarðarsvæðið er undirstaða að afar fjölbreyttu fuglalífi allan ársins hring og er svæðið mikilvægur viðkomustaður farfugla og fargesta sem hér hafa viðdvöl á leið sinni til og frá norðlægum varpslóðum. Fjörur og leirur svæðisins eru lífríkar, þar eru miklar þangfjörur og grunnsævi er með auðugu botndýralífi. Skerjafjarðarsvæðið í heild hefur alþjóðlegt verndargildi vegna fuglategunda, svo sem rauðbrystings og margæsar og einnig er svæðið mikilvægt vegna marhálms, en plantan hefur takmarkaða útbreiðslu hér á landi og er ein aðal fæðutegund margæsar. Fræðslugildi svæðisins er hátt með tilliti til lífríkis og aðgengi að svæðinu er gott, en strandlengjan er vinsæl til útivistar og fjörðurinn til skemmtisiglinga.

Frétt á heimasíðu Garðabæjar.

Kort af friðlýstu svæði í Gálgahrauni.

Kort af friðlýstu svæði Skerjafjarðar innan lögsögu Garðabæjar.

Mynd: Gálgahraun, friðland.
Birt:
8. október 2009
Tilvitnun:
Umhverfisráðuneytið „Friðlýsing Gálgahrauns og Skerjafjarðar“, Náttúran.is: 8. október 2009 URL: http://nature.is/d/2009/10/08/friolysing-galgahrauns-og-skerjafjaroar/ [Skoðað:23. nóvember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: