Á bloggsíðu sinni „Sjálfbært blogg“ skrifar Stefán Gíslason eftirfarandi í dag:

Það eykur manni bjartsýni að lesa um áherslur Baracks Obama og Hillary Clinton í umhverfismálum, en þessi tvö berjast eins og kunnugt er um að verða forsetaefni Demókrata í forsetakosningunum í Bandaríkjunum í haust. Næstu forkosningar verða einmitt í Suður-Karólínu á laugardaginn – og svo styttist í aðalforkosningadaginn 5. febrúar.

En hvort þeirra skyldi nú státa af flottari stefnu í umhverfismálum? Í stað þess að svara því, sem er hreint ekki auðvelt, ætla ég að tíunda helstu umhverfisáherslurnar sem fram koma í stefnuskrám þeirra.

Losunarhámörk og framseljanlegur kolefniskvóti
Hér eru þau alveg á sama róli. Þau vilja bæði koma á losunarkvóta, sem er allur boðinn upp. Fyrst er sem sagt heildarlosunin ákveðin, og síðan má enginn sleppa út gróðurhúsalofttegundum nema hann hafi keypt sér kvóta. Engu verður úthlutað frítt!

80% samdráttur í losun fram til 2050
Bæði hafa sett sér markmið um að losun Bandaríkjamanna minnki um 80% fram til ársins 2050, miðað við losunina 1990. Þetta er meiri samdráttur en íslensk stjórnvöld stefna að, en þar á bæ er talað um 50-75%.

Kolefnisbinding
Barack leggur áherslu á kolefnisbindingu og aðgerðir til að stöðva eyðingu skóga. Í því sambandi vill hann styrkja bændur og landeigendur í Bandaríkjunum til að planta trjám, endurheimta gróðurlendi og taka upp kolefnisvænni ræktunaraðferðir.

Fjármagn til rannsókna og þróunar
Bæði vilja þau veita stórauknu fjármagni til rannsókna og þróunar á nýjungum í orkumálum. Í því sambandi tala þau bæði um 150 milljarða Bandaríkjadala á 10 ára tímabili. Hillary áformar að þriðjungur af þessu fjármagni komi úr sérstökum 50 milljarða dollara orkuþróunarsjóði, sem að hluta til verður fjármagnaður af olíufélögunum. Barack vill stofna 50 milljarða dollara fjárfestingasjóð í svipuðum tilgangi, með 10 milljarða dollara framlagi á ári í 5 ár.

Bætt orkunýting í byggingum
Hillary ætlar að útvega fjármagn til að endurbæta og nútímavæða 20 milljón íbúðir fólks með lægstu tekjurnar, auk þess sem hún vill gera átak til að draga úr orkunotkun heimila, m.a. með ströngum reglum um orkunýtingu heimilistækja og með því að hætt verði að nota glóperur. Hillary vill að allar opinberar byggingar sem hannaðar verða eftir 20. janúar 2009 verði kolefnishlutlausar [„núlllosunarhús“]. Barack vill að þetta gildi um allar nýjar byggingar frá og með 2030, auk þess sem orkuný tni verði bætt um 50% í nýjum byggingum og 25% í eldri byggingum á næstu 10 árum.

Endurnýjanleg orka
Bæði stefna þau að því að 25% af raforkuþörf Bandaríkjamanna árið 2025 verði mætt með endurnýjanlegum orkugjöfum.

Lífeldsneyti
Bæði stefna þau að því að árið 2030 verði 227 milljarðar lítra af innlendu lífeldsneyti tiltækir fyrir bíla og tæki Bandaríkjamanna. Barack leggur sérstaka áherslu á framleiðslu lífeldsneytis í smáum stíl og á framleiðslu „annarrar kynslóðar etanóls“, sem er t.d. framleitt úr sellulósa (beðmi). Í því sambandi stefnir hann að því að árið 2013 verði 7,6 milljarðar lítra af slíku etanóli komnir á markað.

Kolefnisinnihald eldsneytis
Barack vill setja reglur sem skylda eldsneytisframleiðendur til að lækka kolefnishlutfall í eldsneyti um 10% fyrir árið 2020.

Sparneytnir bílar
Hillary vill að staðlar fyrir orkuný tni bíla miðist við 4,3 l/100 km árið 2030 (í stað 9,4 l/100 km eins og nú er). Hún vill veita 20 milljörðum Bandaríkjadala til að auðvelda bílaiðnaðinum að aðlaga sig að þessu.

Nútímavæðing raforkunetsins
Bæði leggja þau áherslu á nútímavæðingu raforkunetsins, m.a. uppbyggingu á svonefndu „Smart Grid” kerfi, þar sem gagnvirkt upplýsingaflæði um raflínur hjálpar neytendum að finna hagkvæmustu leiðirnar á hverjum tíma. Hillary vill m.a. byggja upp slíkt kerfi í 10 borgum til reynslu og nýta tengiltvinnbíla sem hluta af kerfinu. Barack leggur áherslu á þau tækifæri sem opnast fyrir smáa framleiðendur endurnýjanlegrar orku, sem tengdir eru „Smart Grid” kerfi.

Ársskýrslur fyrirtækja
Hillary vill að öll fyrirtæki á opinberum hlutabréfamarkaði birti upplýsingar í ársskýrslum sínum um fjárhagslega áhættu sem tengist loftslagsbreytingum.

Umhverfismál og atvinnusköpun
Barack reiknar með að milljónir nýrra starfa verði til vegna aukinnar áherslu á umhverfismál, og Hillary nefnir 5 milljón ný störf í þessu sambandi.

Bandaríkin í forystuhlutverki
Barack vill að Bandaríkin taki forystu í alþjóðlegu samstarfi í loftslagsmálum og taki á ný fullan þátt í samstarfi þjóða undir merkjum Rammasamnings Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar. Þá vill hann að Bandaríkin hafi forgöngu um að setja á laggirnar nýjan samráðsvettvang þeirra þjóða sem losa mest af gróðurhúsalofttegundum, þ.e. allra G8-ríkjanna, auk Brasilíu, Kína, Indlands, Mexikó og Suður-Afríku. Þessi hópur myndi eingöngu fjalla um alþjóðleg orku- og umhverfismál.

Hér hefur aðeins verið stiklað á stóru. Hægt er að skoða stefnumálin í heild á heimasíðum framboðanna, annars vegar á http://www.barackobama.com/issues/pdf/EnergyFactSheet.pdf og hins vegar á http://www.hillaryclinton.com/files/pdf/poweringamericasfuture.pdf. Skemmri útgáfur er að finna á http://www.barackobama.com/issues/energy/ og http://www.hillaryclinton.com/issues/energy/.

Nú er eðlilegt að spurt sé hvers vegna ég hafi ekki gert sambærilega samantekt fyrir helstu frambjóðendur Repúblikana. Því er til að svara, að fljótt á litið virðist þar einfaldlega ekki um auðugan garð að gresja þegar talið berst að umhverfismálum. Loftslagsmál eru lítið rædd, svo ekki sé minnst á alþjóðlegt samstarf á því sviði.

Einnig er eðlilegt að spurt sé hvers vegna ég sé yfirleitt að eyða tíma mínum í að vinna samantekt sem þessa, ekki síst þegar haft er í huga að um er að ræða kosningabaráttu í fjarlægu landi sem ég hef svo sem engar taugar til. Því er til að svara, að úrslit forsetakosninganna í Bandaríkjunum í haust ráða væntanlega meiru um framtíð jarðarbúa en flestir eða allir aðrir viðburðir um þessar mundir, sem á annað borð eru á valdi manna. Vissulega verða líka haldnar forsetakosningar á Íslandi á þessu ári ef þörf krefur, en bæði eru úrslit þeirra væntanlega ráðin fyrirfram og eins hitt að það skiptir snöggtum minna máli fyrir okkur sjálf og börnin okkar hver situr á Bessastöðum en í Hvíta húsinu, hvort sem okkur líkar betur eða verr. En það virðist alla vega ljóst að forseti Íslands verður í góðum félagsskap á alþjóðlegum umhverfisvettvangi eftir 20. janúar 2009, hvort sem Barack Obama eða Hillary Clinton verður næsti forseti Bandaríkjanna. Við skulum bara ekkert ræða aðra valkosti.

Skoða nánar Sjálfbært blogg Stefáns Gíslasonar.
Birt:
23. janúar 2008
Höfundur:
Stefán Gíslason
Tilvitnun:
Stefán Gíslason „Barack, Hillary og umhverfismálin“, Náttúran.is: 23. janúar 2008 URL: http://nature.is/d/2008/01/23/barack-hillary-og-umhverfismalin/ [Skoðað:20. apríl 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: