Um miðjan júní halda þær jurtastöllur Hildur Hákonardóttir og Kristbjörg Kristmundsdóttir námskeið í Heiðmörk í samvinnu við Skógræktarfélag Reykjavíkur þar sem þær kenna eitt og annað í tínslu og meðferð gróðurs. Námskeiðið stendur í eina helgi en hist verður við Elliðavatn og haldið í leiðangur um grænar grundir, kennt að greina jurtir, tínt, matreitt og olíur gerðar.

Skyndigarður fyrir þá sem eru seinir
Mikill áhugi er á ræktun og nýtingu plantna um þessar mundir. Margir stoppa og hugsa með sér að útfærsla ræktunar sé ægilega flókin. Hildur segir svo ekki vera og við byrjum á því að ræða hvernig hægt er að fá sér "skyndigarð" ef maður á engan nú þegar og langar í gulrætur eða eitthvert annað grænmeti úr eigin smiðju.

Hildur bendir einnig á heimasíðuna nattura.is þar sem hún hefur verið að vinna með Guðrúnu Tryggvadóttur að teikningum og leiðbeiningum fyrir fólk sem er að byrja. "Skyndigarður er amerísk hugmynd en ég veit um nokkra sem hafa prófað þetta hérlendis og það hefur borið góðan árangur. Þetta snýst um að fá sér ramma úr kannski sex til átta tommu við, einn metri á kant, og setja hann á jörðina. Sjá litla Eldhúsgarðinn.

Hornin er síðan gott að hefta saman með gúmmípjötlu sem til er á heimilinu, en gamalt stígvél eða slanga koma þar sterklega til greina. Í botninn seturðu dagblöð og fyllir svo með mold. Þá er maður kominn með garðinn. Við lifum á tímum þegar maður þarf að hafa svolítið hraðar hendur."

Kennt að tína og þurrka
Kristbjörg segist ætla að fara að ráðum Hildar, sem segir að inni á nattura.is séu leiðbeiningar um hversu langt bil milli raða eigi að vera og svo hversu mikið komist ofan í. Garðurinn á internetinu er svo skreyttur fallegum teikningum. Námskeiðið sem þær Hildur og Kristbjörg verða með kallast Jurtaveisla með Hildi og Kristbjörgu. Báðar eru hálfgerð átrúnaðargoð margra í þessum málum.

Hildur hefur skrifað bækur svo sem Ætigarðinn, sem notið hefur mikilla vinsælda, þar sem hún fræðir fólk um ræktun og matreiðslu grænmetis og kennir því jafnvel að matreiða úr fíflum. Kristbjörg var lífrænt ræktandi bóndi í tuttugu ár og er fyrir löngu kunn fyrir blómadropana sína. Undirtitill námskeiðsins er: Hagný t og huglæg ráð til að nýta gróður. "Ég mun sjá um hlutann sem sný r að því að tína jurtir, þurrka og geyma og hvernig blanda megi þeim saman. Einnig að búa til te, seyði, tintúrur og olíur," segir Kristbjörg. Í tintúrur notar Kristbjörg hreint brennivín og blandar saman við jurtir og býr til úr því meðöl.

Þessa dagana er hún til dæmis að gera tintúru úr hoffífli fyrir barnabarnið sitt sem er með barnaastma. Tintúran fer þá út í volgt vatn og áfengið gufar upp.

Flókin garðyrkja gerð einföld

Hildur segir að í garðyrkju sé gott að notast við nokkrar þumalputtareglur til að gera flókna garðyrkju einfalda. Sjálf hefur hún nokkrar. "Ein viðmiðunin er til dæmis sú að mjúkir plöntuhlutar eru notaðir fyrir te en ef þeir eru harðir eins og harðir stönglar, rætur eða fræ eru þeir notaðir í seyði, það er að segja eru soðnar í potti. Það er kynngimagnað," segir Hildur og hlær. "Eins leggjum við mjúka plöntuhluta í olíur en ef þeir eru harðir dugar ekkert nema sterkt brennt vín til að ná kraftinum úr." Kristbjörg segir íslenskar jurtir margar með mikinn lækningamátt.

Á námskeiðinu verður kennt að gera olíur og útskýrt hvaða jurtir eru góðar í þær. "Sem dæmi má nefna að blágresi og birkilauf eru mjög góð í olíu. Blóðberg er líka gott í olíu, en þar sem það er harðara þarf það að vera aðeins lengur í olíunni."

Íslensku jurtirnar kröftugar
Jurtirnar íslensku hafa meiri lækningamátt og eru kraftmeiri en þær erlendu að sögn Hildar og Kristbjargar. "Alexander Bjarnason greindi íslensku jurtirnar á nítjándu öld og komst að þeirri niðurstöðu að augljóst væri að mikið væri af styrkjandi jurtum hérna á landinu. Ein trú er þannig að jurtir sem fólk þurfi á að halda komi til þess. Ef einhver jurt birtist í garðinum hjá þér - sem þú jafnvel telur illgresi - er gott að fletta upp í góðum bókum og athuga hvort það geti verið að þessi jurt sé að koma sérstaklega til þín.

En ef við erum að tala um alla íslensku þjóðina má spyrja sig - getur verið að í gegnum tíðina höfum við þurft jurtir sem eru styrkjandi? Ég geri ráð fyrir að allir myndu jánka því. Það var nákvæmlega það sem við þurftum, læknislaus í kulda," segir Hildur.

Þjóðin fær jurtir sem hún þarf
Kristbjörg minnist á fyrsta vorgróðurinn. "Það má benda á að á vorin vaxa hér fyrst fíflablöð og hundasúra. Fíflablöðin hjálpa ný runum að hreinsa líkamann og hundasúran vinnur fyrir lifrina. Ræturnar af fíflunum eru einnig mjög góðar fyrir lifrina.

Eftir veturinn er fólk búið að vera meira inni og við erum búin að borða óhollara, þannig að þessar plöntur sem vaxa fyrst eru yfirleitt þær jurtir sem við þurfum. Og eins og Hildur segir eru jurtirnar sem vaxa á Íslandi einmitt þær jurtir sem við þurfum á að halda." Kristbjörg segist tína nær allt sem hún finni í garðinum sínum í salatið - hundasúrur og fíflablöð.

Hildur segir að gott sé að skera stífan stöngulinn af ef blöðin eru mjög stór og nota þau þannig.

Fjórir fíflastönglar borðaðir í einu
Af nöfnum má líka finna til hvers plöntur eru góðar. Þannig bendir Hildur á að allar plöntur sem kenndar séu við Maríu, svo sem Maríustakkur, séu góðar fyrir konur.

Kristbjörg segir að lokum að miklu máli skipti hvernig jurtir séu tíndar og á námskeiðinu 13. og 14. júní muni þær fara út í hvernig megi geyma jurtir sem best. Einnig fari þær yfir hvenær best sé að tína þær en það er mjög mismunandi eftir jurtum. Þar er vorið og haustið allsráðandi. Kristbjörg hvetur fólk til að vera með ruslapoka um leið og það er með safnpoka þegar það fer út í náttúruna að tína. "Ruslapokinn er að sjálfsögðu til að tína upp það rusl sem fólk finnur úti í náttúrunni," segir Hildur.

Að lokum spyr blaðamaður hvort hægt sé að borða fíflastöngul? Hildur segir að það sé hægt, með því að borða fjóra í einu og byrja ofan frá. "Þá verður ramma bragðið að sætu, einhverra hluta vegna."

Áhugasömum um námskeið Kristbjargar og Hildar er bent á að skrá sig í síma 861 1373 og 849 8467.

Mynd: Birki 21. maí sl. Ljósmynd: Einar Bergmundur.

Birt:
1. júní 2009
Höfundur:
Fréttablaðið
Uppruni:
Fréttablaðið
Tilvitnun:
Fréttablaðið „Jurtaveisla með Hildi og Kristbjörgu“, Náttúran.is: 1. júní 2009 URL: http://nature.is/d/2009/05/31/jurtaveisla-meo-hildi-og-kristbjorgu/ [Skoðað:15. janúar 2025]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 31. maí 2009
breytt: 1. júní 2009

Skilaboð: