Alls bárust Ferðamálastofu 152 umsóknir um styrki til úrbóta á ferðamannastöðum á yfirstandandi ári. Nú er lokið við að vinna úr umsóknum og hlutu 60 verkefni styrk að þessu sinni.

Til úthlutunar voru um 54 milljónir króna sem skiptast í þrjá flokka. Umsóknir hljóðuðu uppá samtals tæplega 400 milljónir króna. Til viðmunar við úthlutun styrkja var stuðst við þær meginhugmyndir að framkvæmdin stuðli að náttúruvernd, vinni að uppbyggingu atvinnugreinarinnar og valdi ekki óeðlilegri samkeppni milli einstakra aðila. Auk ofangreindra atriða varðandi forgangsröðun var lögð sérstök áhersla á bætt aðgengi fyrir alla að náttúrulegum áningastöðum.

Minni verkefni
Í flokknum minni verkefni gátu styrkir að hámarki numið 500 þúsund krónum. Alls bárust 66 umsóknir en 34 aðilar fengu styrk, samtals að upphæð 10.600.000 krónur.

Stærri verkefni á fjölsóttum ferðamannastöðum
Í flokkinn stærri verkefni á fjölsóttum ferðamannastöðum bárust 35 umsóknir og hlutu 15 verkefni styrk, samtals að upphæð 25.850.000 krónur.

Uppbygging á nýjum svæðum
Í þriðja flokkinn, uppbygging á nýjum svæðum, bárust 48 umsóknir. Úthlutað var 17.700.000 krónum sem skiptast á 11 verkefni.

Valur Þór Hilmarsson, umhverfisfulltrúi Ferðamálastofu, segir að líkt og undanfarin ár hafi fjárhæð umsókna verið margföld sú upphæð sem var til ráðstöfunar. „Það er því ljóst að mörg verðug verkefni verða að bíða að þessu sinni og vissulega er alltaf erfitt að geta ekki orðið við góðum umsóknum," segir Valur í tilkynningu frá Ferðamálastofu.

Sjá lista yfir styrkþega Pdf.

Myndin er frá Þingvöllum. Ljósmynd: Guðrún Tryggvadóttir. 

Birt:
29. mars 2008
Höfundur:
Ferðamálastofa
Tilvitnun:
Ferðamálastofa „Afgreiðsla umsókna um styrki til úrbóta í umhverfismálum“, Náttúran.is: 29. mars 2008 URL: http://nature.is/d/2008/03/28/afgreiosla-umsokna-um-styrki-til-urbota-i-umhverfi/ [Skoðað:27. desember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 28. mars 2008
breytt: 29. mars 2008

Skilaboð: