Viðtal við Teit Þorkelsson stofnanda Driving Sustainability
Viðtal við Teit Þorkelsson, stofnanda og framkvæmdastjóra Framtíðarorku ehf. í dálkinum Newsmaker í Aftermarket Business Magazine, í Bandaríkjunum
Hver verða aðal umræðuefni á Driving Sustainability ráðstefnunni 13 og 14 september?
Möguleikar á að knýja einkabíla, flutningabíla og almenningsvagna á rafmagni og metani í dag og í nánustu framtíð, og sú stefnumótun og samstarf sem þarf til að koma á orkuskiptum í samgöngum er meginefni ráðstefnunnar í ár. Kynnt verða dæmi um nýja tækni og framsækna lagasetningu stjórnvalda á Norðurlöndum sem tryggt hafa hraða innleiðingu sjálfbærra samgangna. Margir þátttakanda koma frá Norðurlöndum í ár, en einnig frá Bandaríkjunum, Japan og Evrópulöndum.
Metan er í dag að mestu ónýtt auðlind en það má framleiða úr gasi sem myndast í ruslahaugum, klóaki og öðrum úrgangi. Framboð á einkabílum og almenningsvögnum sem ganga á metani eykst stöðugt. Þeir sem eiga slík farartæki spara fé á hverjum degi þar sem metan er ódýrara eldsneyti en díselolía og bensín, og sparar auk þess verðmætan gjaldeyri. Framleiðsla á metani er frábær leið til að gera borgir og sveitarfélög sjálfbærari.
Tvinnbílar, tengil-tvinnbílar og hreinir rafmagnsbílar eru á hraðri leið með að geta sparað eigendum sínum eldsneytiskostnað, sérstaklega þegar litið er til skattaafsláttar og styrkja frá ríkisstjórnum. Slíkt skattaumhverfi og ný viðskiptamódel sem dreifa kostnaði við dýrar rafhlöður á líftíma farartækisins eru forsendur fyrir hraðri innleiðingu hreinna rafbíla.
Hvernig er þessi atburður ólíkur öðrum ráðstefnum og bílasýningum?
Driving Sustainability snýst ekki bara um umhverfisvæna bíla eða eldsneyti, heldur sameinar alla þá meginý ætti sem skipta máli þegar kemur að þeirri kerfisbreytingu að skipta út olíu og bensíni fyrir hreina orku á bílana. Við tökum líka raunveruleg skref í átt að sjálfbærum samgöngum með öflugri kynningu á lausnum og því að innleiða nýja tækni og koma á samningum. Við sýnum fólki hvað er framundan og hvernig á að komast þangað. Tækninýjungar eru aðeins einn hluti af púsluspilinu. Hjá okkur deila leiðtogar úr opinbera og einkageiranum hugmyndum um nýjan hugsunarhátt, stefnumótun og skipulag og fá innblástur til framtíðar. Þátttakendur skoða framleiðslu hreinnar orku í virkjunum í stuttum skoðunarferðum, heyra um allt það nýjasta sem er að gerast í notkun á metani og rafmagni í samgöngum, geta reynsluekið slíkum bílum og tekið virkan þátt í móta lausnir framtíðar. Hópurinn sem hittist þarna er mjög fjölbreyttur. Sérfræðingar úr bíla- hátækni- og orkuiðnaði, ráðgjafar, verkfræðingar, háskólafólk, frumkvöðlar og fólk úr stjórnkerfum ríkja og borga. Málið er einfalt: kerfisbreyting í átt að sjálfbærum samgöngum krefst þess að allir þessir geirar tali saman og samhæfi aðgerðir. Þátttakendur öðlast því verðmæta þekkingu, en líka sterkt tengslanet og tækifæri til að taka þátt í að breyta samfélaginu.
Hvaða áhrif mun samningur íslenska ríkisins og Mitsubishi um prófanir á i-MIEV rafmagnsbílum hér á landi hafa á markmið Íslands um að draga úr innflutningi á eldsneyti?
Prófanir á i-MiEV rafbílum frá Mitsubishi hefjast formlega á Íslandi haustið 2009 og munu fljótt sýna fram á hversu vel bílarnir reynast í raun. Hversu langt komast þeir á einni hleðslu, hversu mikið þeir geta sparað eigendum sínum og hversu vænlegt gæti verið fyrir þjóðarbúið að skipta út helmingi af bílaflota landsmanna fyrir til dæmis 2020? Almenningur á Íslandi er ný ungagjarn og spenntur fyrir breytingum sem gera okkur kleift að nota hreina íslenska orku í stað innfluttrar olíu, en á endanum snýst þetta allt um peninga; það hvað er hagkvæmasta lausnin. Veðrið á Íslandi er óstöðugt, hitastig sveiflast mikið, veturinn getur verið langur, kaldur, blautur og dimmur og samkvæmt lögum verða allir að hafa bílljósin kveikt allan sólarhringinn. Þannig að ég get lofað raunverulegum prófunum á þessum bílum við erfiðar aðstæður.
Rafvæðing samgangna er stórkostlegt tækifæri fyrir Ísland með alla sína hreinu orku. Ímyndið ykkur hvað það myndi þýða fyrir stórþjóð eins og Bandaríkin ef hægt væri að helminga olíuinnflutning á innan við áratug og nota þess í stað endurnýjanlega orku framleidda í heimabyggð. Það væri ekkert minna en bylting í orkuöryggi, þjóðhagslegum sparnaði og umhverfismálum. Þar að auki munum við á næstu tíu árum sjá stórstíg skref í átt að minni eldsneytisnotkun hefðbundinna bílvéla. Það eru þrjú skref eftir fyrir Íslendinga til að verða fyrsta land í heimi sem notar 100% endurnýjanlega orku. Bílar, skip og flugvélar. Prófanirnar á i-Miev rafmagnsbílnum og frumkvæði stjórnvalda í að koma á tímabundnu skatta- og styrkjaumhverfi til að hraða innleiðingu slíkra bíla eru mikilvægir þættir í að taka fyrsta skrefið.
Heldur þú að íslenskir bíleigendur muni taka rafmagnsbílum opnum örmum?
Ýmsar óformlegar skoðanakannanir sýna að almenningur er spenntur fyrir slíkum breytingum. Íslendingar eru nýjungagjarnir og stór hluti af ímynd okkar tengist hreinni orku landsins, hreinu vatni og lofti, svo ekki sé talað um sjálfstæði. Þegar fólk kemur frá útlöndum hlakka menn til fyrsta sopans af besta drykkjarvatni veraldar úr krananum heima, að fara í heitan pott í uppáhalds sundlauginni og anda að sér fersku lofti. Ég held að flestir Íslendingar séu tilbúnir til að borga aðeins meira fyrir góðan rafmagnsbíl, sérstaklega ef við erum að tala um annan bíl í heimili sem notaður er mest í innanbæjarsnatt. Margir Íslendingar munu líka vilja eiga, eða eiga aðgang að, góðum fjórhjóladrifnum bíl eða jeppa til að geta komist örugglega á milli staða á snjóþungum dögum og fara með fjölskylduna upp á hálendið á sumrin. Bílar snúast um frelsi. Rafmagns- og metanbílar geta gefið okkur frelsi frá því að vera háð innfluttri olíu og hugsanlega sektarkennd vegna neikvæðra umhverfisáhrifa þeirra. Jeppar gefa fólki frelsi til að geta ekið inn í sólsetrið hvar og hvenær sem er. Ef þú spyrð mig þá held ég að einn lítill rafmagnsbíll og jeppi sem er tengil-tvinnbíll eða metanbíll gætu verið draumabílarnir fyrir íslensk heimili árið 2020.
Hvaða áhrif gætu prófanir á i-MIEV rafmagnsbílnum haft á þjóðarhag Íslendinga?
Niðurstöður úr prófunum á litlum flota eru grundvöllur fyrir því að hægt sé að reikna út efnahagsleg áhrif. Nú þegar er verið að þróa hugbúnað og gagnagrunna sem gera munu stjórnvöldum og stórnotendum kleift að reikna út hvort það borgi sig að skipta yfir í rafmagns- eða metanbílaflota miðað við lífaldur bílanna. Þessi hugbúnaður mun einnig gera stjórnvöldum auðveldara fyrir að reikna út hvernig fjárhagslegir hvatar og skattaumhverfi er nauðsynlegt og hvaðan þeir peningar eigi að koma í ríkiskassann, hvort sem það er frá auknum álögum á díselolíu og bensín eða eftir öðrum leiðum.
Hvernig þarf að breyta orkuinnviðum til að hlaða rafmagnsbíla á Íslandi?
Það sem ég heyri frá orkuveitum á Íslandi er að flest heimili geti sett rafmagnsbíl í samband til að hlaða hann heima við og að rafdreifikerfið ætti að þola aukið álag sem því fylgir. Allar raflínur í borgum og bæjum eru neðanjarðar og dreifikerfið einkennist af miklu öryggi og orkuný tni. Sérfræðingar Mitsubishi segja mér að þeir geri ráð fyrir því að 70-80 prósent af hleðslu rafmagnsbíla fari fram á heimili eða vinnustað svipað og raunin hefur orðið með farsíma. Á Íslandi notum við 220 volta rafmagn og að minnsta kosti sextán ampera öryggi eru á hverju heimili. Þetta þýðir að á fyrstu stigum, næstu þrjú árin eða svo, er sáralítil þörf á sérstökum hleðslustöðvum um borg og bþ. Fyrstu rafmagnsbílarnir verða án efa töluvert dýrari en hefðbundnir bílar og kaupendur þeirra verða einstaklingar sem vilja vera fremstir í flokki þegar kemur að tækninýjungum og fyrirtæki, sem munu þá setja upp öflugri hleðslubúnað fyrir þá rafbíla sem þau kaupa. Í dag eru tæplega tíu innstungur fyrir rafbíla á götum Reykjavíkur og ég held að það sé ekki mikil þörf fyrir hleðslustaura um alla borg og allt land nú á næstunni.
Er búið að áætla kostnaðinn við þessar rafbílaprófanir og hver borgar?
Eins og ég sagði, þá er kostnaður við uppbyggingu orkuinnviða ekki stórmál til að byrja með. Aðalatriðið er að ná niður aukakostnaðinum við rafmagnsbíla þangað til rafhlöður þeirra komast í raunverulega fjöldaframleiðslu og verða ódýrari. Þetta má gera með fjárhagslegum ívilnunum svo sem styrkjum eða skattaafslátti fyrir kaupendur rafmagnsbíla en það má til dæmis fjármagna með kolefnaskatti á bensín og díselolíu.
Önnur leið felst í nýjum viðskiptamódelum. Sum þeirra gera ráð fyrir því að bílainnflytjendur og/eða orkuveitur deili kostnaðinum við rafhlöðuna með því að leigja hana út til bíleigandans og verður þá rekstrarkostnaður bílsins svipaður og af hefðbundnum bílum. Þá gætu bíleigendur fengið ódýran rafmagnsbíl með því að skuldbinda sig til að kaupa rafmagn fyrir ákveðinn kílómetrafjölda á ári, líkt og farsímaeigendur fá ódýran farsíma með því skilyrði að þeir borgi fyrir ákveðið margar mínútur af notkun. Viðskiptamódel fyrirtækisins Better Place sem þegar hefur hafið uppbyggingu á þjónustuneti fyrir rafbíla í Danmörku, Ísrael og víðar í samvinnu við Renault-Nissan er dæmi um slíka hugsun. Líklega verða kaupendurnir sjálfir einnig að taka á sig hluta af aukakostnaðinum. Þannig hefur það yfirleitt verið með alla nýja tækni. Þeir sem keyptu sér fyrstu farsímana voru ekki margir, en þeir borguðu mikið fyrir þunga og stóra síma með þrjátíu mínútna taltíma. Fyrstu kaupendur rafmagnsbíla munu borga meira fyrir minna en þeir sem kaupa sér rafmagnsbíl árið 2020. En þeir verða fyrstir til að nota nýja tækni og margir eru tilbúnir til að borga mikið fyrir slíkt. iPhone farsíminn er gott um slíkt á ný liðnum árum. Það má kalla þetta hégóma en eins og við öll vitum er hégómi hluti af raunveruleikanum.
Teitur Þorkelsson er stofnandi og framkvæmdastjóri Framtíðarorku ehf. (FTO Sustainable Solutions) þekkingarfyrirtækis sem hefur síðan 2006 unnið að því markmiði að Ísland verði fyrsta land heims knúið 100% sjálfbærri orku. Fyrsta skrefið í átt að því markmiði er að koma á orkuskiptum í bílaflota landsmanna.
Framtíðarorka einbeitir sér að ráðgjöf til stjórnenda orku-, samgöngu- og fjármálafyrirtækja. Framtíðarorka er einnig ráðgjafi bæjarfélaga og opinberra aðila við innleiðingu vistvænna samgöngulausna. Framtíðarorka er skipuleggjandi “Driving Sustainability”, alþjóðlegrar ráðstefnu á þessu sviði. Fyrirtækið lék lykilhlutverk í því að innleiða fyrsta tengil-tvinnbíl Norðurlanda, fyrstu etanólbílana og etanóldælustöðina á Íslandi í tengslum við Driving Sustainability ráðstefnuna 2007. Á ráðstefnunni 2008 voru undirritaðir samningar á milli ríkisstjórnar Íslands, Mitsubishi Motors og Mitsubishi Heavy Industries um prófanir á i-MIEV rafmagnsbílnum á Íslandi og þróun þjónustunets fyrir slíka bíla.
Driving Sustainability ráðstefnan hefur valdið straumhvörfum í umræðu og athöfnum tengdum orkumálum samgangna á Íslandi og víðar. Framtíðarorka og Driving Sustainability ráðstefnan hafa frá upphafi fengið mikla og góða fjölmiðlaumfjöllun á Íslandi og í ýmsum alþjóðlegum fjölmiðlum svo sem New York Times og Sky News.
Íslensk þýðing: Framtíðarorka ehf./Skaggs Design
Sjá viðtalið í aftermarketbusiness.search-autoparts.com
Birt:
Tilvitnun:
aftermarketbusiness.com „Viðtal við Teit Þorkelsson stofnanda Driving Sustainability“, Náttúran.is: 6. ágúst 2009 URL: http://nature.is/d/2009/08/06/viotal-vio-teit-thorkelsson-stofnanda-driving-sust/ [Skoðað:26. desember 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.