„Strætóreinin bætir hag strætó til muna og á næstu árum mun Reykjavíkurborg halda áfram að bæta við forgangsbrautum víðs vegar um borgina,“ sagði Hanna Birna Kristjánsdóttir borgarstjóri þegar hún opnaði ásamt Kristjáni Möller samgönguráðherra forgangsakrein á Miklubraut fyrir almenningssamgöngur.

„Strætó fær nú aukinn forgang í umferðinni í Reykjavík en það er liður í þeim Grænum skrefum sem stigin hafa verið í Reykjavík á undanförnum árum,“ sagði Hanna Birna og gat þess að nýja strætóreinin teygði sig framhjá helstu umferðarhnútum götunnar. Strætóreinin liggur frá Skeiðarvogi að Kringlunni og tengist þar fyrri áfanga verkefnisins, sem nær niður að gatnamótum Miklubrautar og Lönguhlíðar.

Kristján Möller kvaðst mjög ánægður með þetta samstarfsverkefni Vegagerðarinnar og Reykjavíkurborgar. „Við viljum bæta aðstöðu fyrir almenningssamgöngur í borginni og ég vona að við Hanna Birna Kristjánsdóttir getum stígið saman skref í þá átt,“ sagði hann.

„Þetta er hvílíkur munur,“  sagði bílstjóri hjá Strætó þegar hann var spurður um nýju strætóreinina, „við viljum meira af þessu!“ Í dag og næstu daga er kjörið að fara í strætó því farþegar fá þar forsmekk af bókaflóðinu. Forlagið hefur látið prenta upphafskafla fjölmargra væntanlegra bóka sem farþegar geta notið meðan vagninn brunar.
Birt:
21. september 2008
Höfundur:
Gunnar Hersveinn
Tilvitnun:
Gunnar Hersveinn „Strætófarþegar sleppa við umferðartafir “, Náttúran.is: 21. september 2008 URL: http://nature.is/d/2008/09/21/straetofarthegar-sleppa-vio-umferoartafir/ [Skoðað:26. apríl 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: