Lífrænar aðferðir skila næringarríkari matvælum
Það er algengt viðhorf að telja lífræn matvæli betri en önnur fyrir heilsuna. Fv. forseti Bandaríkjanna George W. Bush neytti lífrænna matjurta úr garði Hvíta hússins á sama tíma og hann mælti fyrir erfðabreyttri ræktun. Meðan Tony Blair mælti fyrir erfðatækni í Bretlandi eldaði eiginkona hans lífræna rétti fyrir fjölskylduna. Leiðtogar Kína borða lífræna fæðu en leyfa erfðabreyttum hrísgrjónum að menga matvælabúskap landsins. M.a.s. Hugh Grant framkvæmdastjóri Monsanto, stærsta líftæknifyrirtækis heims, viðurkenndi neyslu lífrænna matvæla. Ein af matstofum þess tilkynnti reyndar starfsmönnum að erfðabreytt soja og maís yrðu fjarlægð úr mat sem þar yrði á boðstólum og að “við höfum gert þessar ráðstafanir til að þið neytendur getið treyst matvælum sem við framreiðum”. En svo virðist sem fleiri en hinir ríku og valdamiklu treysti best lífrænum matvælum, því talið er að þrátt fyrir efnahagskreppu hafi sala á lífrænum matvælum aukist á heimsvísu um 8% milli áranna 2010 og 2011.
Sífellt bætist í sjóð ritrýndra vísindagagna sem styðja trú neytenda á næringargildi lífrænna matvæla. Niðurstöður eins umfangsmesta rannsóknarverkefnis á þessu sviði – Quality Low Input Food – sem ESB fjármagnaði og stýrt var frá Newcastle háskóla birtust árið 2007. Þær fólust m.a. í samanburði á næringargildi matvæla sem framleidd voru með lágmarks aðföngum áburðar og fóðurefna (lífrænum eða næstum lífrænum aðferðum – LI kerfi) eða með miklum aðföngum (hefðbundnum aðferðum – HI kerfi). Í rannsóknum þessum var m.a. kannað næringarinnihald mjólkur frá 25 breskum kúabúum. Í niðurstöðum kom fram að mjólk frá LI-búum, þar sem kúm var beitt í ríkum mæli á haglendi grass og smára, var umtalsvert auðugri af andoxunarefnum, vítamínum og æskilegum fitusýrum (ein- og fjölómettuðum) en mjólk úr kúm sem aldar eru í HI-kerfinu. Einn umsjónarmanna rannsóknarinnar, Gillian Butler, sagði veigamestu skýringuna á þessum mun felast í því að kýr á lífrænum eða næstum lífrænum búum séu fyrst og fremst fóðraðar á gróffóðri og náttúrulegri beit. (Butler, Nielsen et al, J.Sci.Food Agric. 2008 (88): 1431-1441).
Lífrænir ávextir og grænmeti eru auðugri af vítamínum og steinefnum
Í vísindayfirliti Dr C. Benbrook hjá bandarísku rannsóknarstöðinni The Organic Center frá 2005 kemur fram að lífrænar aðferðir auki andoxunar- og pólýfenólefni í matvælum. Framleiðslugeta á andoxunarefnum reyndist að jafnaði 30% meiri í lífrænum matvælum en hefðbundnum og einstök andoxunarefni fundust í allt að 50% meira magni.
Tíu ára rannsókn við Kaliforníuháskóla (2007) bar saman lífræna og hefðbundna tómata og komst að því að lífrænir tómatar hefðu tvöfalt meira af andoxunarefnum (flavoníðum) sem vinna gegn háum blóðþrýstingi og draga með því úr hjartasjúkdómum og -áföllum. Rannsóknin sýndi hærri gildi flavoníðanna quercetin (79%) og kaempferol (97%) í lífrænu tómötunum. (A. Mitchell et al, J.Agri.Food Chem.)
Þrjár rannsóknir við Hohenheim háskólann í Þýskalandi (2007) sýndu að lífrænir tómatar, ferskjur og unnin epli hefðu öll hærra næringargildi en sambærilegar hefðbundnar afurðir. Sú fyrsta sýndi að lífrænir tómatar væru ríkari af þurrefni, total & reducing sykri, C-vítamíni, beta-karótíni og flavoníðum (Hollmann o.fl.). Önnur sýndi að lífrænar ferskjur hefðu hærra pólýfenól við uppskeru (Fauriel o.fl.). Þriðja rannsóknin sýndi að lífrænt eplamauk hafði meira af lífvirkum efnum (fenólum, flavoníðum og C-vítamíni) en mauk úr hefðbundnum eplum (Rembialkowska o.fl.).
Eiturefni rýra jarðveg og skaða heilsufar
Hefðbundinn landbúnaður byggir mjög á eiturefnum. Bændur hafa aðgang að 440 virkum eiturefnum í formi amk 4000 vara sem á boðstólum eru. Opinber gögn í Bretlandi sýna að á árunum 1998-2001 innihéldu amk. 40% grænmetis og ávaxta í breskum stórmörkuðum eiturefnaleifar. Eiturefnaleifar í matvælum ógna heilsufari. Almenn efnanotkun skaðar jarðvegsörverur og dregur úr steinefna- og vítamíninnihaldi matvæla. Bent hefur verið á að í athugun breska landbúnaðarráðuneytisins kom fram að hlutfall hinna ýmsu snefilefna í ávöxtum og grænmeti hafi á 50 ára tímabili (1940-1991) lækkað á bilinu 12-76% (mismunandi eftir tegundum).
Erfðabreytt ræktun leiðir til meiri eiturefnanotkunar - sem stuðlar að uppskerubresti og búfjársjúkdómum
Líftækniiðnaðurinn lofaði því að erfðabreyttar plöntur myndu minnka eiturefnanotkun í hefðbundnum landbúnaði, en þessu hefur farið á annan veg. Dr Charles Benbrook notaði gögn bandarískra stjórnvalda (USDA) til að sýna að eftir 13 ára ræktun eb-plantna í Bandaríkjunum (1996-2008) hafði meðaltals árleg notkun á illgresiseyðinum glýfosat aukist í bómullarrækt (18,2%), sojarækt (9,8%) og maísrækt (4,3%). Aukningin stafar einkum af ræktun erfðabreyttra Ht-plantna. En þeim hefur verið erfðabreytt til að þola glýfosat, sem bændur geta þá notað til að uppræta allar aðrar plöntur. Eftir þriggja ára úðun glýfosats fer ´illgresið´ að mynda ónæmi og breytast í ofurillgresi sem bændur verða að eyða með enn sterkara eitri á borð við Atrazine (nú bannað í Evrópu) eða hið öfluga 2,4-D eitur. Glýfosat virkar þannig að það nánast umlykur mikilvæg næringarefni (ferli sem nefnt er chelation) og sveltir því plöntur um steinefni á borð við sínk, kopar, mangan, magnesíum, kalsíum og bóron sem skipta höfuðmáli fyrir heilbrigði plantna. Þessi steinefni ráða miklu um heilbrigði plantna og ekki síður heilbrigði manna og dýra.
Talið er að úðun glýfosats á erfðabreyttar plöntur ár eftir ár dragi úr steinefnainnihaldi þeirra, sem aftur veikir plöntur og gerir þær næmari fyrir sjúkdómum. Í Bandaríkjunum þar sem Ht-plöntur (plöntur sem erfðabreytt var til að þola illgresiseitur) eru ræktaðar í miklum mæli eru plöntusjúkdómar orðnir alvarlegt vandamál, t.d. SDS (Sudden Death Syndrome) í erfðabreyttu soja og GWD (gross wilt disease) í erfðabreyttum maís. Bændur hafa einnig orðið varir við aukna tíðni ófrjósemi og snemm-fósturlát í svínum og nautgripum sem fá erfðabreytt fóður, og minnkandi frjósemi í kjúklingum sem fá erfðabreytt korn. Fréttir berast af því að algeng ófrjósemi í kvígum í Bandaríkjunum sé yfir 20% og að skyndifósturlát í nautgripahjörðum nemi allt að 45%. Nokkrir kunnir vísindamenn hafa bent á að aukin tíðni plöntusjúkdóma og frjósemisvandamála í búfé kunni að stafa af sóttkveikju sem þróast hafi og margfaldast vegna notkunar á glýfosati í ræktun erfðabreyttra plantna.
Tilbúinn áburður dregur úr næringarinnihaldi matvæla
Hefðbundinn landbúnaður er mjög háður tilbúnum áburði um köfnunarefni þar sem ekki er beitt sáðskiptum matjurta og niturbindandi plantna á borð við smára. Hátt hlutfall köfnunarefnis í tilbúnum áburði stuðlar að hröðum vexti grænmetis og ávaxta sem eykur vatnsupptöku. Hraður vöxtur og mikil vatnsupptaka þynna í senn næringargildi og draga úr bragðgæðum afurða. Tilbúinn áburður skaðar einnig vistkerfið. Plöntur eru ekki mjög virkar við upptöku köfnunarefnis úr áburði og þessvegna vill það berast úr jarðvegi í grunnvatn og ár með skaðlegum afleiðingum fyrir vatnavistkerfi og stuðlar að myndun og losun nituroxíðs sem er meðal hættulegra gróðurhúsalofttegunda.
Erfðabreyttar afurðir auka notkun á tilbúnum áburði
Engum plöntum hefur verið erfðabreytt til þess að draga úr áburðarþörf. Þvert á móti er líklegt að t.d. erfðabreytt soja auki áburðarþörf. Ht-soja er belgjurt og ætti því að geta bundið köfnunarefni í jarðvegi – en glýfosat sem úðað er á ræktunarlönd erfðabreytts soja kemur í veg fyrir að niturbinding verði. Glýfosat tefur niturbindingu í ungum Ht-sojaplöntum og dregur úr vexti róta og sprota sem leiðir til minni uppskeru, sem getur numið allt að 25% í þurrkatíð (1). Þetta gerist þannig, ef marka má rannsókn frá árinu 2003, að glýfosat kemst inn í rótarhnúða og dregur úr virkni jákvæðra jarðvegsbaktería sem hjálpa til við niturbindingu; glýfosat minnkar lífmassa rótarhnúða um allt að 28% og veldur allt að 10% samdrætti í magni súrefnisflytjandi próteins (leghaemoglobin) sem einnig hjálpar til við niturbindingu í rótum sojaplöntunnar (2). Einræktun rýrir stórlega frjósemi jarðvegsins og kallar á æ meiri notkun tilbúins áburðar, sem getur aftur dregið úr næringarinnihaldi matvæla og fóðurs. Erfðabreytt (Ht-) soja er ræktað í miklum mæli í Bandaríkjunum, Kanada, Argentínu og Brasilíu, þar sem einræktun er alsiða, þ.e. sama tegund er ræktuð ár eftir ár á sömu ökrunum.
Skiptiræktun og lífrænn áburður í stað eiturefna og tilbúins áburðar
Í Bretlandi eru eingöngu fjögur varnarefni af náttúrulegum uppruna eða úr einföldum efnaformúlum leyfð í lífrænni ræktun og voru aðeins 10 tonn af þeim efnum notuð árið 2003 þar í landi, meðan 31.000 tonn af venjulegum eiturefnum voru notuð í hefðbundnum landbúnaði. Í lífrænni ræktun eru notuð náttúruleg áburðarefni s.s. búfjáráburður og grænáburðarplöntur (smári oþh.) sem binda köfnunarefni. Búfjáráburður er notaður skv. ákveðnum leiðbeiningum og niturbindandi plöntur eru ræktar á víxl við matjurtir og þær plægðar ofan í jarðveginn til að fá köfnunarefni og stuðla að vexti jarðvegsörvera. Þessi náttúrulegu áburðarefni stuðla að eðlilegum vaxtarhraða og vökvaupptöku sem skapar matjurtir með þétta frumubyggingu sem þjappar næringargildi (vítamín og steinefni) og bragð. Í lífrænni ræktun er víxlað á ræktun til þess að hvíla og endurnýja jarðveginn. Skiptiræktun og notkun náttúrulegra áburðarefna auðga jarðveginn sem stuðlar að hærra vítamín- og steinefnainnihaldi matvæla og fóðurs.
Erfðabreyttar lífverur bannaðar í lífrænni ræktun
Landbúnaðartækni, allt frá grænu byltingunni á sjöunda áratugnum til genabyltingarinnar á tíunda áratugnum hefur lagt ofuráherslu á tæknilegar lausnir sem áttu að halda náttúrunni í skefjum eða endurhanna hana. Þessi hátækniræktun hefur spillt jarðveginum, rýrt næringargildi matvæla og fóðurs, og skilið eftir sig efna- og erfðamengun.
Vísinda- og tækniþróun hefðbundins og erfðabreytts landbúnaðar er stýrt af risafyrirtækjum sem hafa markaðsyfirráð og gróða að höfuðmarkmiðum – ekki endilega hollari og sjálfbærari matvælaframleiðslu. Lífrænar aðferðir viðurkenna vísindi náttúrunnar og mikilvægi þess að vinna með þeim í stað þess að vinna gegn þeim. Almenningur treystir lífrænum matvælum, enda er nú ljóst að lífrænn landbúnaður getur ekki bara framleitt þau matvæli sem heimurinn þarf, heldur einnig þau matvælagæði sem við þurfum til að tryggja lýðheilsu.
1) King et.al., Plant Growth and Nitrogenase Activity of Glyphosate-Tolerant Soybean in Response to Foliar Glyphosate Applications. Agronomy Journal 2001 (93): 179-186.
2) Reddy et.al., Glyphosate-Resistant soybean response to various salts of glyphosate and glyphosate accumulation in soybean nodules. Weed Science 2003 (51): 496-502.
Höfundur Sandra B. Jónsdóttir er sjálfstæður ráðgjafi.
Ljósmyndir: Efri; hvítkál úr eigin lífrænni ræktun, neðri; rauðrófubeð í lífrænni ræktun í Skaftholti. Ljósm. Guðrún A. Tryggvadóttir.
Birt:
Tilvitnun:
Sandra B. Jónsdóttir „Lífrænar aðferðir skila næringarríkari matvælum“, Náttúran.is: 26. apríl 2012 URL: http://nature.is/d/2012/04/26/lifraenar-adferdir-skila-naeringarrikari-matvaelum/ [Skoðað:21. nóvember 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.