Í fréttatilkynningu frá Saving Iceland segir:
SAVING ICELAND LOKAR UMFERÐ AÐ HELLISHEIÐARVIRKJUN

HELLISHEIÐI – Mótmælendur frá Saving Iceland hafa lokað umferð til og frá Hellisheiðarvirkjunar með því að hlekkja sig saman og við bíla. Saving Iceland mótmælir stækkun virkjunarinnar, óheiðarlegum viðskiptaháttum Orkuveitu Reykjavíkur og tengslum hennar við stríðsrekstur, en 30% af framleiddu áli er selt til hergagnaframleiðslu.(1)

Nú er unnið að stækkun jarðvarmavirkjunarinnar við Hengil, en tilgangurinn er fyrst og fremst að fullnægja kröfu stóriðjufyrirtækja um frekari raforkuframleiðslu, en þá er aðallega átt við um álfyrirtæki.(2, 3) Raforkan er aðallega ætluð stækkuðu álveri Century í Hvalfirði, en einnig verksmiðju þeirra í Helguvík og fleiri álverum. Samningar liggja þó ekki fyrir, en samt heldur stækkunin áfram, án þess að nokkur útskýring fylgi.

Svona er náttúra Íslands eyðilögð, aftur og aftur, með framkvæmdum sem kosta hundruð milljónir dollara(3), án þess að nokkuð sé ljóst um nýtingu raforkunnar. Þegar verkinu lýkur verður að selja orkuna, til að borga upp framkvæmdirnar, og þá verður fleiri álverum þvingað upp á okkur.

“Þessi hegðun er óheiðarleg og ekki með nokkru móti fyrirgefanleg. Jörðin og íbúar hennar eiga ekki að þurfa að gjalda fyrir eiginhagsmuni nokkura peninga- og valdagráðugra einstaklinga.” segir Haukur Hilmarsson, talsmaður Saving Iceland. “Náttúra og menn þurfa að losna undan því tangarhaldi sem stórfyrirtækin hafa á þeim.”

Saving Iceland sendi í síðustu viku beiðni til Orkuveitu Reykjavíkur um að fá að hengja fána utan á höfuðstöðvar þeirra á Bæjarhálsi og bauð fulltrúum fyrirtækisins að taka þátt í opinberum umræðum um sigðæði þess að selja orku sem fer m. a. í vopnaframleiðslu. Beiðnin var send í kjölfar ummæla Páls Erlands frá Orkuveitu Reykjavíkur, eftir að hann fullyrti í viðtali við Vísi að mótmælendur frá Saving Iceland hafi verið velkomnir í húsnæði O.R. þann 20. júlí s.l. og ekkert hefði verið gert til þess að reyna að hindra það að fáni með áletruninni ‘Vopnaveita Reykjavíkur?’ væri hengdur þar upp.(4) Enn hefur Saving Iceland ekki borist svar frá O.R.. Því er augljóst að fyrirtækið vill ekki tjá sig opinberlega um þetta mál. Gunguhátturinn í þessu fyrirtæki í eigu Reykjavíkurborgar er með ólíkindum.

Eins og Saving Iceland hefur áður bent á eru umhverfisáhrif Hellisheiðarvirkjunar langt frá því að vera eins lítilvæg og Orkuveita Reykjavíkur vill láta í veðri vaka. Heitu og eitruðu afgangsvatni er oft dælt aftur í borholurnar (líkt og á Nesjavöllum), sem eykur líkur á jarðskjálftum á þessu virka svæði. Eða þá að afgangsvatninu er veitt í læki og vötn, en það kann að gjöreyða mikilvægum vistkerfum. Orkuveita Reykjavíkur leikur sér í rússneskri rúllettu með jarðhitasvæði landsins. Hluti Þingvallavatns er þegar líffræðilega dauður vegna samskonar framkvæmda og kallar það á að vatnið verði verndað tafarlaust. Röskun á neðanjarðarflæði leiðir til breytinga á hreyfingu grunnvatns. Það hefur í för með sér uppþornun heitra hvera og mengun yfirborðsvatns. (12,13) Einnig munu fjórar fuglategundir af válista Náttúrufræðistofnunnar Íslands verða fyrir neikvæðum áhrifum af völdum virkjunarinnar; fálki, grágæs, straumönd og hrafn (14). Þá dylst engum sem fer um Hengilssvæðið hvað Orkuveita Reykjavíkur hefur þegar valdið gríðarlegri sjónmengun með óvæginni röskun sinni á svæðinu. “Ósannindin um svokallaða ‘græna orku’ jarðvarmavirkjanna verða gegnsærri með hverjum degi sem líður. Þetta verður að stöðva, áður en verður um seinan.” segir Haukur.

Nánari upplýsingar:
www.savingiceland.org
Haukur Hilmarsson (s. 868 5891)

Heimildir:

(1) Bauxite and Aluminous Laterite. (2nd edition), London: Technical
Press. R. Graham, 1982, p. 250.
(2) VGK, Environmental Impact Assesment for Helisheidarvirkjun,
http://www.vgk.is/hs/Skjol/UES/SH_matsskyrsla.pdf, blaðsíða 2 og aðrar
síður.
(3) European Investment Bank,
http://www.eib.org/projects/pipeline/2007/20070057.htm
(4) Grein á Vísi
http://visir.is/article/20070720/FRETTIR01/70720058&SearchID=7328834937994
(5). Kristmannsdóttir, H, and Armannsson. H, 2003. ‘Environmental
aspects of geothermal energy utilization.’ in Geothermics vol.32, p.451-461.
(6). Rybach, L, 2003. ‘Geothermal energy: sustainability and the
environment.’ Geothermics. vol.32, p.463-470.
(7). VGK, Environmental Impact Assesment for Helisheidarvirkjun,
http://www.vgk.is/hs/Skjol/UES/SH_matsskyrsla.pdf, blaðsíða 24.

Myndin er af Hellisheiðarvirkjun. Ljósmynd: Guðrún Tryggvadóttir. 

Birt:
26. júlí 2007
Höfundur:
Saving Iceland
Tilvitnun:
Saving Iceland „Umferð lokað að Hellisheiðavirkjun - Saving Iceland“, Náttúran.is: 26. júlí 2007 URL: http://nature.is/d/2007/07/26/umfer-loka-hellisheiavirkjun-saving-iceland/ [Skoðað:21. desember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: 28. júlí 2007

Skilaboð: