Stjórn Orkuveitu Reykjavíkur samþykkti einróma á fundi sínum sem var að ljúka að hætta undirbúningi Bitruvirkjunar og hætta öllum frekari framkvæmdum á svæðinu. Þetta sagði Kjartan Magnússon, stjórnarformaður Orkuveitunnar, í samtali við fréttamann Vísis.

Þessi ákvörðun var tekin í framhaldi af áliti Skipulagsstofnunar sem í gær lagðist gegn virkjuninni vegna verulegra neikvæðra og óafturkræfra áhrifa á landslag, útivist og ferðaþjónustu. Þá setti stofnunin skilyrði fyrir Hverahlíðarvirkjun og samþykkti stjórnin í morgun að halda áfram byggingu hennar.

Ákvörðun um framhald verkefnisins verður tekin að höfðu samráði við sveitarstjórnir eigenda Orkuveitu Reykjavíkur og Sveitarfélagsins Ölfuss sem hefur skipulag svæðisins með höndum.

Tillaga á fundinum varðandi Bitruvirkjun er svohljóðandi: „Það er stefna stjórnar Orkuveitu Reykjavíkur að gæta varúðar í hvívetna við framkvæmdir á vegum fyrirtækisins. Að fengnu áliti Skipulagsstofnunar á mati á umhverfisáhrifum Bitruvirkjunar samþykkir stjórn OR að hætta undirbúningi Bitruvirkjunar og að fresta öllum frekari framkvæmdum á svæðinu. Ákvörðun um framhald verkefnisins verði tekin að höfðu samráði við sveitastjórnir eigenda Orkuveitu Reykjavíkur og sveitarfélagsins Ölfuss, sem hefur skipulag svæðisins með höndum." Mynd af visir.is.
Birt:
20. maí 2008
Höfundur:
Vísir.is
Uppruni:
Vísir.is
Tilvitnun:
Vísir.is „Samþykkt einróma að hætta við undirbúning Bitruvirkjunar“, Náttúran.is: 20. maí 2008 URL: http://nature.is/d/2008/05/20/samthykkt-einroma-ao-haetta-vio-undirbuning-bitruv/ [Skoðað:21. janúar 2025]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: