Á morgun, á Degi umhverfisins, verða kynntar vinningstillögur úr arkitektasamkeppni sem efnt var til vegna byggingar gestastofa í Vatnajökulsþjóðgarði. Sýningin er haldin á Háskólatorgi Háskóla Íslands og hefst klukkan 16:00 en eftir verðlaunaafhendingu verða tillögurnar sem bárust til sýningar fram til 10. maí.

Gestastofur í Vatnajökulsþjóðgarði verða alls sex, þar af hafa tvær þegar verið byggðar í Skaftafelli og í Ásbyrgi en fjórar nýjar stofur verða byggðar á næstu fimm árum. Sú fyrsta rís á Skriðuklaustri og hefjast framkvæmdir við hana síðla sumars. Arkitektasamkeppnin beindist einkum að hönnun hennar en einnig var beðið um hugmyndir að hinum gestastofunun þremur en þær verða á Kirkjubæjarklaustri, við Mývatn og á Höfn í Hornafirði. Hver gestastofa verður milli 500 og 600 fermetrar og er áætlaður byggingarkostnaður hverrar fyrir sig um 170 milljónir.

Stefnt er að því að Vatnajökulsþjóðgarður verði formlega stofnaður í júní á þessu ári, en hann verður stærsti þjóðgarður í Evrópu.

Ljósmynd: Guðrún Tryggvadóttir.
Birt:
24. apríl 2008
Tilvitnun:
Umhverfisráðuneytið „Tillögur um gestastofur í Vatnajökulsþjóðgarði kynntar“, Náttúran.is: 24. apríl 2008 URL: http://nature.is/d/2008/04/24/tillogur-um-gestastofur-i-vatnajokulsthjoogaroi-ky/ [Skoðað:2. janúar 2025]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: 27. desember 2008

Skilaboð: