Sumargrænmetið hefur sætari keim, bragðlaukarnir búnir að fá nóg af beiskjunni enda margt nýtt að finna. Sumarbragðið finnst á fyrstu fljótsprottnu kartöflunum sem dekrað var við og kannski spergilkálsplöntu eða gulrót, sem þarf að grisja. Svo koma baunir eða kúrbítur úr gróðurskála, tómatar og gúrkur, allt eftir því hverju hefur verið plantað á hverjum bæ. Salatið er fullsprottið og nú er þess árstíð. Fyrstu forræktuðu kartöflurnar fara að stinga upp kollinum í byrjun júní. Blöðin þola alls ekki frost en kali fyrstu grösin er þó bara að bíða. Þau koma að öllum líkindum upp aftur. Rófur og kál er komið í potta og það má fara að planta út, ef veðrið er gott og hægt að skýla plöntunum. Það þarf að flytja tré og sinna matjurtabeðunum og þau krefjast vökvunar og eftirlits. Eftir miðjan júní má þó fara að taka burt yfirbreiðslurnar, allavega sumar þeirra, svo maður sjái hvað er tilbúið í matinn. Skrúbba svo af sér moldina og fara að njóta sumarsins.

Yfir hásumarið er eins og svolítil deyfð sé yfir garðverkunum. Rólegheitin koma rétt um það leyti sem arfinn og kryddplönturnar fara að blómstra, bóndinn búinn að slá kerfilinn og njólann. Hið sérkennilega bragð vorsins hverfur með síðustu næpunum (stundum þarf að henda þeim allra síðustu, ef þær hafa verið seinsprottnar og eru farnar að tréna).

Bakteríuvirknin er mest í görðunum á vorin. Þá er allt að gróa, breytast og sprengja af sér vetrarhýðið. Þetta hefur sterk áhrif á garðyrkjumanninn, rétt eins og hann fái sprautu af adrenalíni beint í æð. En um mitt sumar liggur þessi virkni í dái, framkvæmdaáhuginn dvínar og engu líkara en það sé boðið upp á að skreppa af bæ meðan kálið og rótarávextirnir eru að þroskast. Miklu máli skiptir að hafa sáð fjölbreytilegum salattegundum því að í júlí er það aðalgrænmetið. Sé maður þolinmóður, og mátulega værukær, finnst hvernig áhuginn eykst aftur með haustinu þegar bakteríuvirknin fer í gang. Þá tekur náttúran til við að umbreyta sumargróðrinum – klára verkið í bókstaflegri merkingu – draga blaðgrænuna og laufvöxtinn til baka og láta fræin og ávextina þroskast.

Úr Ætigarðinum - handbók grasnytjungsins, eftir Hildi Hákonardóttur. Bókin er fáanleg hér á Náttúrumarkaðinum.
Myndin er tekin í skoti fyrir framan gróðurhús Hildar Hákonardóttur. Ljósmynd: Guðrún Tryggvadóttir.

Birt:
10. júlí 2013
Tilvitnun:
Hildur Hákonardóttir „Garðurinn“, Náttúran.is: 10. júlí 2013 URL: http://nature.is/d/2007/11/09/garurinn/ [Skoðað:23. apríl 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 9. nóvember 2007
breytt: 1. janúar 2013

Skilaboð: