Einstætt fræsafn er að verða til á Svalbarða, hin alþjóðlega öryggisgeymsla fyrir fræ af nytjajurtum frá öllum genabönkum heims. Í sífrera og utan alfaraleiðar er Svalbarði hinn fullkomni staður fyrir þess konar fræsafn. Formleg opnun mun fara fram 26. febrúar næstkomandi.

Alþjóðlegt fræsafn
Í fjalli á Svalbarða er verið að byggja einstætt safn þar sem rúmast á fræ af öllum mat- og fóðurjurtum heims. Það sem knúði á um stofnun safnsins var það að alþjóðleg samtök genabanka í heiminum biðja um öryggisgeymslu fyrir fræsýni af öllum tegundum og stofnum jurta sem hægt er að finna. Mörg lönd reka eigin fræbanka og fjöldi þeirra, ásamt landshlutabönkum og einkabönkum, er alls um 1400 um víða veröld. Þessir fræbankar geyma tegundir og stofna þeirra nytjajurta sem hagnýtar eru í landbúnaði og garðyrkju og fjölga sér með fræjum.

Varðveisla erfðaauðlindar hvers lands á aðeins einum stað er töluvert áhættusöm. Nokkur mikilvæg fræsöfn er þar að auki að finna á ótryggum svæðum, bæði hvað varðar stjórnmálaálastand og veðurfar. Þar má nefna lönd eins og Afganistan, Írak og Filippseyjar, þar sem fræbankar hafa eyðilagst vegna stríðsátaka eða fellibylja.
Fræbankinn á Svalbarða gegnir þannig hlutverki öryggisnets fyrir alla fræbanka á jörðinni, eins konar öryggisráðstöfun, ef það versta „gerðist“.

Geymsla í sífrera
Fræbankinn á Svalbarða er í um eins km loftlínu frá flugvellinum við Longyear-byen og í 130 m hæð yfir sjó. Í safninu eru þrjár hvelfingar, alls um 1000 fermetrar að

flatarmáli og 500 rúmmetrar. Þar er rúm fyrir um 5 milljónir fræsýna.
Fjallið er úr sandsteini og þar er lág náttúruleg geislun, 130 metra inni í fjallinu í sífrera. Náttúrulegt hitastig þarna er 3-4°C frost. Að auki er kælikerfi í geymslunni sem heldur hitastiginu í 18°C frosti og sá kuldi dreifir sér smám saman um bergið í kring. Það veitir aukalega tryggingu fyrir því að ef kælivélarnar bila þá tæki það nokkur ár fyrir frostið að falla niður í náttúrulegt hitastig, 3- 4°C frost.

Inngangurinn í geymsluna er 100 m löng stálklædd göng með 5 m lofthæð. Við innganginn verður myndarlegt fordyri, sem verður eini sýnilegi hluti mannvirkisins utan frá.

Frægeymslan verður vöktuð með sjónvarpsmyndavélum og þjófavarin. Ábyrgðin á því verður í höndum sýslumannsins á Svalbarða. Það er byggingaeftirlit ríkisins, Statsbygg, sem ber ábyrgð á byggingunni en ráðgjafarfyrirtækið Barling AS í Tromsö annaðist áætlanagerð og arkitektúr. Fyrirtækið Multiconsult AS sá hins vegar um hönnun umhverfisins.

Áður en að því om sá Nordagric, sem er stofnun um alþjóðlega þróun og umhverfismál á vegum UMB (landbúnaðarháskóla Noregs) á Ási, um áætlanagerð fyrir fræbankann.

Svartir kassar með fræi
Fast að því allir genabankar í heimi hafa tilkynnt að þeir vilji geyma sýni af öllu fræsafni sínu á Svalbarða. Fljótlega mun fræbankinn fara að taka á móti öryggissýnum af mikilvægasta jurtaerfðaefni heims. Sérhvert land sem sendir fræ til geymslu þarna mun hafa full ráð yfir eigin erfðaefni.

Í geymslunni eru kassar til afnota fyrir þá sem senda inn fræsýni. Eigandi fræsins verður að greiða sjálfur fyrir pökkun og sendingu fræsins til Svalbarða en fátæk þróunarlönd eiga kost á styrk frá Global Crop Diversety Trust til að standa straum af þeim útgjöldum.

Sendandinn ber ábyrgð á að útvega nýtt fræ þegar spírunarprósenta á geymslufræinu fer að lækka í framtíðinni. Það mun taka langan tíma og því góður fyrirvari með það að setja reglur um endurnýjun fræsins. Afhending fræsins skal fara fram eftir viðurkenndum alþjóðlegum reglum, m.a. í samræmi við regluverk FAO, International Treaty on Plant Genetic Resources for Food and Agriculture (ITPGRFA). Samkvæmt núgildandi reglum á ekki að senda erfðabreytt fræ inn til geymslu.

Öryggisgeymsla Norræna genabankans (NGB) frá árinu 1984
Hér á Norðurlöndunum er meira en 30 ára reynsla af geymslu fræs í sífrera. Þegar árið 1984 tók Norræni genabankinn fyrir nytjajurtir (NGB)í notkun öryggisgeymslu sína fyrir fræ í aflagðri kolanámu (Námu 3) á Svalbarða. Hugmyndina átti Arne Wold, þáverandi forstjóri Fræeftirlitsins í Noregi (Statens frökontroll). Sem stjórnarmaður í NGB var Þorsteinn Tómasson, forstjóri RALA, hvatamaður að verkefninu og skipulagningu þess. Hann tók sæti í stjórn NGB þegar árið 1979 og varð fljótt afar virkur í norrænu samstarfi um erfðaefni
jurta.

Ásamt með söfnun á fræsýnum af norrænum nytjajurtum var hafin 100 ára tilraun. Ætlunin með henni var að fylgjast með því hvernig spírunarhæfni hinna einstöku frætegunda breyttist í tímans rás, þegar fræið var geymt við fast hitastig, mínus 3-4°C. Um það vitum við lítið enn sem komið er. Verkefnið hefur nú staðið í 23 ár og spírunareiginleikinn er allt að því óbreyttur fyrir flestar tegundirnar.

Þó að hér væri einungis um að ræða öryggisgeymslu fyrir fræ af Norðurlöndunum vakti verkefnið mjög mikla alþjóðlega athygli og varð hvatning að „heimssafninu“ sem nú er að verða að veruleika. Fræið í norrænu frægeymslunni á Svalbarða verður smám saman flutt yfir í nýja safnið.

Fjármögnun og rekstur
Byggingin og geymslan kostaði um 50 millj. nkr. og Noregur lagði að öllu leyti fram það fé og er jafnframt formlegur eigandi mannvirkisins. Norræna genabankanum (NGB) hefur verið falin ábyrgð á daglegum rekstri en Statsbygg, ráðgjafarstofnun norska ríkisins um opinberar byggingar og fasteignir, annast rekstur tæknibúnaðar.
Sjóðurinn Global Crop Diversity Trust stendur straum af meginhluta rekstrarkostnaðarins en það sem umfram er fellur á Noreg. Þegar upp er staðið er þetta verkefni sem Noregur hefur tekið ábyrgð á og lagt þannig mikið af mörkum um verndun erfðaauðlindar jurtaríkis jarðar og hlotið viðurkenningu fyrir.

Fræbankinn á Svalbarða hefur einnig orðið fyrirmynd í alþjóðlegu samstarfi sem bæði alþjóðleg samtök og einstaklingar vilja tengja nafn sitt við. Þess vegna verður vígsluathöfnin hinn 26. febrúar nk. stóratburður sem mun ekki aðeins draga að sér alþjóðlegar fréttastofur heldur einnig stjórnmálamenn og þekkt fólk víða að komið.

Mynd: Geymsluhvelfingar fræbankans á Svalbarða eru vel varðar inni í fjallinu og aðeins inngangurinn er sýnilegur utan frá.
Texti og myndi: Even Bratberg. Birtist í Bændablaðinu 1 tbl. 2008.

Birt:
17. janúar 2008
Höfundur:
Even Bratberg
Uppruni:
Bændablaðið
Tilvitnun:
Even Bratberg „Alþjóðlegur fræbanki á Svalbarða“, Náttúran.is: 17. janúar 2008 URL: http://nature.is/d/2008/01/17/althjoolegur-fraebanki-svalbaroa/ [Skoðað:8. maí 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: