Grænu kostirnir
Eins og fram kom í skoðanakönnun sem Capacent Gallup gerði fyrir NSÍ og birt var í gær kemur fram að 72,8% þjóðarinnar vilja sjá flokkana leggja meiri áherslu á náttúruverndar- og umhverfismál. Ef það eru ekki skilaboð til allra flokka um að setja nú fram skýra stefnu á því sviði og hreinlega skuldbinda sig til að fylgja umhverfisverndarstefnu á næsta kjörtímabili, þá hefur hugmyndin að lýðræðinu endanlega beðið minni hlut og flokkarnir sem ekki taka þetta nógu alvarlega eiga eftir að stórtapa fylgi í kosningunum. Ekkert minna en „umhverfissáttmála“ þurfa flokkarnir að undirrita, sáttmála sem þeir „skuldbinda“ sig til að fylgja eftir kosningar. Náttúran (Grasagudda) hefur þegar lagt til að slíkur sáttmáli verði skrifaður og lagður fyrir flokkana, sjá tillögur í fréttinni „Umhverfissáttmáli skýri línurnar og vísi veginn“ frá 24. 01. 2007.
-
Fagra Ísland (sjá nánar) Samfylkingarinnar er seinbúin tilraun til að koma fram sem umhverfisverndarflokkur en með liðsmönnum eins og Dofra Hermannssyni, Merði Árnasyni og nú ný verið Reyni Ragnarssyni skerpast umhverfisáherslurnar í augum fólks og gefa fyrirheit um að Samfylkingin sé á réttri braut.
-
Framsókn, hefur óbeint, með yfirlýsingum umhverfisráðherra Jónínu Bjartmarz m.a. um að eignarnám komi ekki til greina og að ekkert liggi á virkjunum við Þjórsá, lagt til ákveðna stefnubreytingu sem að skýra verður fyrir kosningar, ef að Framsóknarflokkurinn ætlar að krækja í eitthvað af þeim atkvæðum sem nú streyma í grænni áttir.
-
Á forsíðu Morgunblaðsins birtist í dag greinin „Út um græna grundu“ þar sem fjallað er um nauðsyn þess að Sjálfstæðisflokkurinn hlýði kalli tímans og feti í fótspor þeirra flokksmanna sinna sem markað hafa brautina undanfarna mánuði. Þar er átt við hægri græna stefnu Illuga Gunnarssonar, skerptar umhverfisáherslu Guðlaugs Þórs Þórðarsonar innan OR sem án efa fleyttu honum í annað sæti á lista Sjálfstæðisflokksins í prófkjöri flokksins nú í haust. Síðasta útspil í anda hægri grænna var þegar að Einar Oddur Kristjánsson lýsti því yfir á Alþingi nú á fimmtudaginn að hann væri algerlega mótfallinn eignarnámi í neðri hluta Þjórsár og að ekkert lægi á í virkjunar- og stóriðjumálum yfirleitt. Greinina prþðir grænn Sjálfstæðisfálki en hér á síðum Grasaguddu birtist einmitt grænlitaður Sjálfstæðisfálki við fréttina „Hægri græn eða grænni en aðrir hægri“ frá 27. 10. 2006.
Birt:
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir „Grænu kostirnir“, Náttúran.is: 24. febrúar 2007 URL: http://nature.is/d/2007/03/16/graenu_kostirnir/ [Skoðað:21. nóvember 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 16. mars 2007
breytt: 29. apríl 2007