Snemma í morgun var Friðrik Sophusson, forstjóri Landsvirkjunnar, vakinn upp og honum afhent brottvísunarbréf, þar sem kemur fram að Friðriki og fjölskyldu hans sé gert að yfirgefa hús sitt fyrir kl. 12:00 í dag, vegna hagsmuna þjóðarinnar. Ef ekki, verði eignarnámi beitt. Brottvísunarbréfið má lesa r.

Umhverfisverndarhreyfingin Saving Iceland afhenti honum bréfið og fordæmir á sama tíma fyrirhuguð virkjunaráform Landsvirkjunnar í Þjórsá, sem og hótunum fyrirtækisins um valdbeitingu gegn landeigendum við ánna.

Landsvirkjun hyggst nú reisa þrjár virkjanir í neðri Þjórsá, auk Búðarhálsvirkjunnar í Tungnaá. Þrátt fyrir að Landsvirkjun hafi síðasta haust sagt að orka virkjananna myndi ekki fara til frekari stóriðjuframkvæmda er nú ljóst að Rio Tinto-Alcan er meðal kaupenda (1). Einnig er líklegt að Norðurál muni óska eftir orku úr Þjórsá, nú þegar hætt hefur verið við framkvæmd Bitruvirkjunnar (2).

,,Það skiptir engu máli hvort orkan verði seld til stóriðju eða ekki; staðreyndin er að Landsvirkjun hefur hótað að beita landeigendur eignarnámi, fari samningaviðræður ekki algjörlega eins og fyrirtækinu hentar“ segir Jaap Krater frá Saving Iceland. ,,Í Maí afhentu bændur og landeigendur sem verða fyrir áhrifum vegna virkjananna, Landsvirkjun bréf þar sem kom fram að þeir myndu þaðan í frá ekki taka þátt í frekari samningsviðræðum um notkun á lands- og vatnsréttindum þeirra. Það virðist samt ekki hafa nein áhrif á áform Landsvirkjunar; Þjórsárvirkjanirnar skulu rísa“ segir Jaap.

Þórunn Sveinbjarnardóttir, umhverfisráðherra, hefur sagt að hún muni ekki samþykkja að Landsvirkjun beiti eignarnámi svo virkjanirnar verði að veruleika (3). Össur Skarphéðinsson hefur hins vegar margoft sagt og gefið í skyn að hann muni ekki standa í vegi fyrir því að framkvæmdirnar eigi sér stað (4). Það sama virðist eiga við um flesta aðra ráðherra ríkisstjórnarinnar og aðeins Þórunn hefur lýst yfir raunverulegri andstöðu við áformin. Hvaða vald ætli hún hafi innan ríkisstjórnarinnar, andófsmaður eins og hún kallar sig sjálf?

,,Það er óhuganlegt að fyrirtæki í ríkiseigu skuli hóta slíkri valdbeitingu og enn verra að ráðherrar skuli annað hvort lofa samþykki sitt eða þegja um málið. Það er í höndum sveitastjórnarmanna að hlusta á íbúa þess og taka tillit til óska þeirra. Þeir ættu ekki að leyfa Landsvirkjun að hóta íbúum og fara hverja ferðina á eftir annari upp að ánni til þess að reyna að beinlínis troða virkjanaframkvæmdunum framan í landeigendur“ segir Snorri Páll Jónsson Úlfhildarson frá Saving Iceland.

Heimildir:

(1) Iceland Review, Trial Delays Hydropower Projects in Iceland, http://www.icelandreview.com/icelandreview/daily_news/?cat_id=16567&ew_0_a_id=308981, skoðað 24. Júlí 2008

(2) Mbl.is, Hætt við Bitruvirkjun, http://mbl.is/mm/frettir/innlent/2008/05/20/haett_vid_bitruvirkjun/, skoðað 24. Júlí 2008

(3) Vísir.is, Umhverfisráðherra ekki samþykkur eignarnámi við Þjórsá, http://visir.is/article/20080508/FRETTIR01/855622817/0/leit&SearchID=73324776906642, skoðað 24. Júlí 2008

(4) Vísir.is, Nýr kafli í atvinnusögu þjóðarinnar, http://visir.is/article/20071109/FRETTIR01/71109081&SearchID=73324778357054, skoðað 24. Júlí 2008

Birt:
25. júlí 2008
Uppruni:
Saving Iceland
Tilvitnun:
Snorri Páll Jónsson Úlfhildarson „Friðriki Sophussyni afhent brottvísunarbréf“, Náttúran.is: 25. júlí 2008 URL: http://nature.is/d/2008/07/25/frioriki-sophussyni-afhent-brottvisunarbref/ [Skoðað:2. janúar 2025]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: