Haraldur Sigurðsson, prófessor við University of Rhode Island, Bandaríkjunum, heldur opinberan fyrirlestur á vegum Vísindafélags Íslendinga í Norræna húsinu miðvikudaginn 31. október 2007, kl. 20:00. Fyrirlesturinn nefnir hann: Stórgos á bronsöld í Miðjarðarhafi og áhrif þess.

Í lok bronsaldar voru mikil þjóðfélagsleg umsvif í löndum og eyjum í austanverðu Miðjarðarhafi. Hin sérstæða mínóíska menning leið skyndilega undir lok, en hennar stöðvar voru einkum í Eyjahafi og á Krít. Við tók Mþkeneumenning, sem er fyrirennari fornaldarmenningar Grikklands. Margir fornleifafræðingar hafa stungið upp á að snögg endalok mínóísku menningarinnar kunni hafa verið tengd náttúruhamförum. Rannsóknir á eldfjallaeynni Santorini, eða Þeru, og einkum á hafsbotni umhverfis eyna varpa nýju ljósi á stórt sprengigos þar í lok bronsaldar um 1625 f. Kr. og áhrif þess.

Undir vikurlagi á eynni finnast miklar fornleifar frá mínóíska tímanum, einkum bærinn Akrotírí, með reisulegum húsum. Gjóskuflóð frá gosinu hafa myndað allt að 50 m þykkt jarðlag af vikri og ösku yfir alla eyna og einnig á hafsbotni í a.m.k. 40 km fjarlægð frá eynni. Heildarmagn gjósku er yfir 50 rúmkílómetrar, og er því gosið annað stærsta gos á jörðu í seinni tíð (á eftir gosinu í Tambora í Indonesíu árið 1815). Könnun á norðurströnd eyjarinnar Krítar, sem er 80 km sunnan Santorini, sýna að jarðlög þar bera einkenni stórflóðs (tsunami) sem er aldursgreint frá sama tíma og gosið og inniheldur einnig gjósku frá gosinu. Stórflóðið hefur náð a.m.k. 10 til 15 m yfir sjávarmál á Krít. Fjallað verður frekar um gosið á Santorini á bronsöld og áhrif þess.

Haraldur Sigurðsson hefur starfað við eldfjallarannsóknir í yfir fjörutíu ár víðs vegar um heim, en hefur unnið lengst af sem prófessor við Graduate School of Oceanography við University of Rhode Island í Bandaríkjunum. Hann er meðal annars höfundur bókanna Melting the Earth og Encyclopedia of Volcanoes.

Allir eru velkomnir. Kaffistofa Norræna hússins verður opin að fundi loknum.

Myndin er af eldfjallavefformi fyrir pappamódel. Ná í módelið.

Birt:
Oct. 30, 2007
Höfundur:
Norræna húsið
Tilvitnun:
Norræna húsið „Stórgos á bronsöld í Miðjarðarhafi og áhrif þess“, Náttúran.is: Oct. 30, 2007 URL: http://nature.is/d/2007/10/30/strgos-bronsld-mijfararhafi-og-hrif-ess/ [Skoðað:April 1, 2023]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Messages: