Þær góðu fréttir bárust í gær frá vegamálastjóra að hætt hefði verið við að skrifa undir samning við verktakann um byggingu vegar um Gálgahraun. Þetta vekur vonir um að þessi veglagning verði stöðvuð.

Náttúruverndarsamtök Íslands - með aðstoð félaga okkar á Álftanesi Gunnsteini Ólafssyni - sendu fyrir helgi áskorun til vegamálastjóra og bæjarstjóra Garðabærjar. Áskorunin fer hér á eftir:

Áskorun frá Náttúruverndarsamtökum Íslands

Náttúruverndarsamtök Íslands hvetja Garðabæ og Vegagerðina til þess að falla frá fyrirhugaðri lagningu tveggja stoðbrauta um Gálgahraun á Álftanesi. Hraunið er á náttúruminjaskrá. Aðeins ríkir almannahagsmunir geta réttlætt svo umfangsmikla framkvæmd á svæði sem stendur til að friðlýsa. Ekki hefur verið sýnt fram á að slíkir hagsmunir liggi til grundvallar. Áður fyrirhuguð átta þúsund manna byggð í Garðarholti hefur verið slegin út af borðinu og engin fjölgun er fyrirséð í Sveitarfélaginu Álftanesi í nánustu framtíð. Núverandi vegur ætti að geta annað umferð út á Álftanes með tilhlýðilegum endurbótum.

Gálgahraun er verðmæt náttúruperla. Það varðveitir einnig merkar minjar um menningu og sögu þjóðarinnar. Innan um stórbrotnar hraunmyndanir hafa menn í aldanna rás hlaðið sér byrgi og skjól, álfaklettar minna á átrúnað landsmanna fyrr á öldum og um hraunið þvert og endilangt liggja fornar þjóðleiðir sem ekki hafa breyst frá því á landnámsöld. Þá málaði Jóhannes Kjarval árum saman myndir í hrauninu sem eykur enn á verndargildi þess. Náttúruverndarsamtök Íslands hvetja framkvæmdaraðila til þess að þyrma Gálgahrauni. Það hefur ómetanlegt gildi í heild sinni. Um leið og vegur hefur verið lagður um hluta þess glatar hraunið varðveislugildi sínu til mikilla muna. Samtökin minna á, að ætíð skuli gæta meðalhófs við opinberar framkvæmdir. Tvær stoðbrautir yfir náttúruverndarsvæði bera ekki þess vott að þeirri grundvallarreglu hafi verið fylgt.

Virðingarfyllst,

f.h. Náttúruverndarsamtaka Íslands,

Árni Finnsson, formaður.
Birt:
28. apríl 2009
Höfundur:
Árni Finnsson
Tilvitnun:
Árni Finnsson „Verður Gálgahraun verndað?“, Náttúran.is: 28. apríl 2009 URL: http://nature.is/d/2009/04/28/verour-galgahraun-verndao/ [Skoðað:13. janúar 2025]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: