Bein útsending frá Umhverfisþingi
Umhverfisráðuneytið vill vekja athygli á að fundum Umhverfisþings 2007 verður varpað beint á heimasíðu umhverfisráðuneytisins, www.umhverfisraduneyti.is/umhverfisthing . Með því er komið til móts við þá sem vilja fylgjast með umræðunum en eiga ekki heimangengt. Einnig verður fjarstöddum boðið að senda þinginu athugasemdir og spurningar á tölvupóstinn umhverfisthing@umhverfisraduneyti.is . Sjá dagskrá þingsins.
Eftir hádegi á föstudag verður sýnt beint frá málstofu II á fundinum þar sem umfjöllunarefnið verður náttúra og byggð. Þar eru meðal framsögumanna Svanfríður Jónasdóttir sem mun fjalla um hvort sátt sé möguleg milli verndar og nýtingar náttúrusvæða og Ari Þorsteinsson sem mun fjalla um tækifæri í ríki Vatnajökuls. Sjá dagskrá Umhverfisþings
Útsending umhverfisráðuneytisins frá Umhverfisþingi 2007 er í anda framkvæmdaáætlunar Dagskrár 21 og stefnu stjórnvalda um að nýta upplýsingatækni, en báðar þessar stefnur gera ráð fyrir að stjórnvöld auki tækifæri almennings á að afla sér þekkingar og hvetji til aukinnar þátttöku almennings í umræðum og ákvörðunartöku.
Það er von umhverfisráðuneytisins að Umhverfisþing verði vettvangur upplýstrar umræðu og skoðanaskipta um náttúruvernd og líffræðilega fjölbreytni, sem ný tist stjórnvöldum við þá stefnumótun sem nú er unnið að, og almennt til að efla umræðu um þessi mál hér á landi.
Birt:
Tilvitnun:
Stefán Gíslason „Bein útsending frá Umhverfisþingi“, Náttúran.is: 11. október 2007 URL: http://nature.is/d/2007/10/11/bein-tsending-fr-umhverfisingi/ [Skoðað:21. nóvember 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.