Í dag uppstigningardag 21 maí, boðar Framtíðarlandið til opins félagsfundar á Hótel Borg frá 10:00-12:00.

Framtíðarlandið ætlar sér að halda á lofti hugmyndum um grænt hagkerfi og græna atvinnusköpun næstu misserin. Hætt er við því að þetta málefni verði útundan í því efnahagsástandi sem nú er. Umræðan snýst alltof mikið um að finna eina einfalda töfralausn sem leysa muni allan vandann sem nú steðjar að. Engin slík töfralausn er til. Að mati Framtíðarlandsins er farsælasta leiðin útúr kreppunni sú að leita sjálfbærra og grænna lausna í atvinnuuppbyggingu og að nýta auðlindir landsins á sjálfbæran hátt til hagsældar fyrir þjóðina.

Á fundinum verður boðið upp á tvo fyrirlestra um græna atvinnusköpun. Sigurbjörg Sigurgeirsdóttir, stjórnsýslufræðingur, mun flytja erindið  „Í átt til hins nýja græna hagkerfis“: Hvað þarf að gera og hvernig? Síðan mun Sigríður Valgeirdóttir framkvæmdastjóri Nimblegen á Íslandi flytja erindið „Frá sprota til hátæknifyrirtækis“

Blásið verður lífi í málefnahópa Framtíðarlandsins og þrír hópar myndaðir; atvinnulífshópur, neytendahópur og orkuhópur. Atvinnulífshópurinn mun fjalla um græna hagkerfið og atvinnulífið, neytendahópurinn um græna hagkerfið og neytendur og orkuhópurinn um orkumál og ríkisstyrkta stóriðju. Skráning í hópana fer fram á heimasíðu félagsins á næstu dögum og á fundinum. Sjá vef Framtíðarlandsins.

Stjórn Framtíðarlandsins hvetur alla þá, sem áhuga hafa á að starfa með félaginu að grænum áherslum í samfélaginu, til að mæta. Nýjir félagar eru velkomnir.

Mynd: Furubrum í lok maí. Ljósmynd: Guðrún Tryggvadóttir.

Birt:
May 21, 2009
Höfundur:
Framtíðarlandið
Tilvitnun:
Framtíðarlandið „Grænt hagkerfi á dagskrá fundar Framtíðarlandsins“, Náttúran.is: May 21, 2009 URL: http://nature.is/d/2009/05/21/graent-hagkerfi-dagskra-fundar-framtioarlandsins/ [Skoðað:March 3, 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: Oct. 23, 2009

Messages: