Í gær, þann 6. þessa mánaðar var eftirfarandi samþykkt send forstjóra Landsvirkjunar ásamt ráðherrum iðnaðar- og orkumála, umhverfismála og fjármála.

Félag sumarbústaðaeigenda Lónsholti samþykkti á aðalfundi semhaldinn var á landi félagsins við Þjórsá þann 31. maí að taka undir mótmæli eigenda jarða á austurbakka Þjórsár sem lögð voru fyrir forstjóra Landsvirkjunar vegna fyrirhugaðrar Urriðafossvirkjunar þann 6. maí s.l. og tekur jafnframt undir þá almennu skoðun að virkjanir í byggð séu ótímabærar með öllu, ekki hvað síst á þessu svæði sem er þvert á virku misgengi jarðlaga auk þess sem umhverfis- og sjónmengun ásamt stórfelldum lands- og eignaspjöllum yrði veruleg um alla framtíð í grónum byggðum suðurlands.

(Nú þegar þetta er skrifað hefur náttúra landsins minnt rækilega á afl sitt rétt eina ferðina og er vert að hafa það í huga. Tvær brþr á Ölfusá skókust til á legum og það gerði gamla brúin á Þjórsá einnig í skjálftanum fyrir átta árum. Hefur nokkur heyrt af stíflumannvirkjum á gúmídempurum)? Hvað er vistvæn framleiðsla orku vistvæn ef gengið er að óþörfu á vistkerfið, landið og umhverfi margra sveitarfélaga á einu bretti, með þeim skerðingum sem því eru samfara fyrir fólkið sem þar býr og vill búa um ókomin ár)?

Fundurinn skorar jafnframt á þá heiðursmenn fjármálaráðherra, ráðherra iðnaðar- og orkumála og umhverfisráðherra að hafna útgáfu heimilda fyrir virkjuninni en beina kröftum Landsvirkjunar til fjalls þar sem Búðarhálsvirkjun bíður þolinmóð. Og svo bíður ósinn þess að innan tíðar verði gerlegt að virkja afl Þjórsár í þann endann án stórfelldra náttúruspjalla.

Myndin er tekin í Þjórsárdal. Ljósmynd: Árni Tryggvason.

Birt:
11. júní 2008
Tilvitnun:
Sumarbústaðaeigendur Lónsholti „Sumarbústaðaeigendur Lónsholti mótmæla nýjum Þjórsárvirkjunum“, Náttúran.is: 11. júní 2008 URL: http://nature.is/d/2008/06/11/sumarbustaoaeigendur-lonsholti-motmaela-nyjum-thjo/ [Skoðað:2. janúar 2025]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: