Íslenskir friðarsinnar hafa efnt til blysfarar niður Laugaveginn á Þorláksmessu á hverju ári undanfarna þrjá áratugi. Margir líta nú á friðargönguna sem ómissandi þátt í jólaundirbúningi fjölskyldunnar og tekur fjöldi fólks sér hlé frá tiltektum og innkaupum rétt fyrir jólin til að leggja þar sitt af mörkum og styðja kröfuna um frið í heiminum. Undanfarin ár hafa slíkar göngur einnig verið bæði á Akureyri og á Ísafirði.

Samstarfshópur friðarhreyfinga stendur að venju fyrir blysför niður Laugaveginn í Reykjavík miðvikudaginn 23.desember. Safnast verður saman á Hlemmi frá klukkan 17:45 og leggur gangan af stað stundvíslega klukkan 18:00.  Fólk er hvatt til að mæta tímanlega. Að venju munu friðarhreyfingarnar selja kyndla á Hlemmi áður en gangan leggur af stað. Í lok göngunnar verður stuttur fundur á Ingólfstorgi þar sem Einar Már Guðmundsson rithöfundur flytur ávarp en fundarstjóri er Helga Baldvinsd. Bjargardóttir lögfræðingur og þroskaþjálfi. Söngfólk úr Hamrahlíðarkórnum og Kór Menntaskólans við Hamrahlíð syngur í göngunni og við lok fundar undir stjórn Þorgerðar Ingólfsdóttur.

Samstarfshópurinn minnir á að málstaður og rök friðarsinna skipta jafn miklu máli nú og fyrir þrjátíu árum. Stöðugt berast fregnir af ofbeldisverkum þjóða á milli og innan samfélaga. Óheyrilegum fjárhæðum er enn sóað í vígvæðingu og ekkert lát virðist á stríðunum í Írak og Afganistan. Það voru mikil vonbrigði fyrir allt friðelskandi fólk þegar friðarverðlaunahafi Nóbels varði drþgstum hluta ræðu sinnar við sjálfa verðlaunaafhendinguna í að réttlæta stríðsrekstur og siðferðislegan grundvöll ofbeldis. Slíkum sjónarmiðum þarf að mótmæla með öllum tiltækum friðsamlegum leiðum.

Samstarfshópur friðarhreyfinga:

Changemaker, ungliðahreyfing Hjálparstarfs kirkjunnar
Félag leikskólakennara.
Friðar- og mannréttindahópur BSRB
Friðar- og mannréttindanefnd Æskulþðssambands þjóðkirkjunnar
Heimsganga í þágu friðar og tilveru án ofbeldis
Menningar og friðarsamtökin MFÍK
SGI á Íslandi (Friðarhópur búddista)
Samtök hernaðarandstæðinga

Birt:
16. desember 2009
Tilvitnun:
Guðrún Valgerður Bóasdóttir „Gengið til friðar í þrjá áratugi“, Náttúran.is: 16. desember 2009 URL: http://nature.is/d/2009/12/16/gengio-til-frioar-i-thrja-aratugi/ [Skoðað:3. janúar 2025]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: