Hjónin Ólafur Sigurjónsson og Lilja Guðbjartsdóttir stofnuðu ný erið fyrirtækið Flögur ehf. þar sem þau framleiða svokallaðar pappaflögur sem koma í stað hins hefðbundna spóns. Pappaflögurnar eru hugsaðar sem undirburður fyrir hesta og hænur á kjúklingabúum og hafa
marga kosti umfram spón.
„Með þessari framleiðslu stundum við endurvinnslu og það er jákvæðasti þátturinn í þessu ferli. En það sem pappaflögurnar hafa til dæmis fram yfir spóninn er að þetta er fjórum sinnum rakadrægara efni, það eru engin aukaefni í því, það er rykfrítt, það klessist ekki
saman, það eyðir lykt og er ódýrara í þokkabót,“ útskýrir Ólafur. 40% ódýrara efni.

Fyrirtækið fór formlega af stað í byrjun desember og er til húsa í Hafnarfirði. Þau hjónin höfðu aldrei komið nálægt neinu slíku fyrr, en þar sem Ólafur var eitt sinn virkur hestamaður og hafði starfað í BYKO við sölu á trjákurli og öðru var þessi hugmynd ekki ný af nálinni hjá honum. „Þetta var búið að vera hugmynd lengi hjá mér en síðan fór ég á námskeið hjá Iðntæknistofnun um síðustu áramót þar sem þetta fór formlega af stað og síðan þróaðist þetta áfram.

Kjúklingabúin eru byrjuð að sýna þessu áhuga, enda er þetta um 40% ódýrara efni en hefðbundinn spónn svo þetta lofar góðu,“ segir Ólafur sem flytur jafnframt inn spónaköggla. Vélin sem þau nota til verksins er þónokkuð afkastamikil og getur framleitt rúmlega 120 poka á klukkustund sem vega um 25-30 kíló hver. Þau Ólafur og Lilja lentu þó í því í byrjun að fá vél til verksins sem dugði þeim skammt.

„Við gerðum tilraun í sumar með íslenska vél, svokallaða Júpítersvél, sem virkaði ekki fyrir
okkur. Þannig að við leituðum út fyrir landsteinana og fundum vél sem hentar okkar framleiðslu en þetta er vel þekkt fyrirbæri erlendis; að kurla niður pappa til notkunar
sem undirburð,“ útskýrir Ólafur. Þeir sem hafa áhuga á pappaflögunum geta sett sig í samband við Ólaf í síma 843-1140 eða sent tölvupóst á netfangið flogur@simnet.is.

Grein og mynd úr Bændablaðinu.
Birt:
Jan. 11, 2008
Höfundur:
Bændablaðið
Uppruni:
Bændablaðið
Tilvitnun:
Bændablaðið „Endurunninn pappi í undirburð“, Náttúran.is: Jan. 11, 2008 URL: http://nature.is/d/2008/01/10/endurunninn-pappi-i-undirburo/ [Skoðað:Sept. 12, 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: Jan. 10, 2008
breytt: Dec. 28, 2008

Messages: